Eftir Njál Ragnarsson

Ár áskorana

28.Desember'20 | 09:15
njáll_ragg

Njáll Ragnarsson

Nú er að líða eitt skrýtnasta ár sem ég man eftir og að mörgu leyti hefur það verið ár áskorana. 

Allir hafa sætt takmörkunum í sínu daglega lífi hvort sem um er að ræða takmarkanir á samverustundum með vinum eða kunningjum, ferðalögum erlendis eða einfaldlega það að geta ekki faðmað þá okkur þykir vænt um.  

Það sem stendur upp úr á árinu sem er að líða er ferðalag sem við fórum í fjölskyldan mín en við keyrðum hringinn í kringum landið og skoðuðum merkilega staði, suma sem ég hafði aldrei séð áður og aðra þar sem ég hef oft komið á. Það er nefnilega svo magnað að þegar maður getur gefið sér góðan tíma í að stoppa, hella sér upp á kaffi og njóta landsins okkar finnur maður oft faldar perlur náttúrunnar.

Systir mín er ein af hetjum ársins. Hún hefur staðið vakt hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og sinnt þeim sem pestin beit verst. Enn einu sinni eru það hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem stendur í miðju stormsins þegar mest á reynir og fórnar sér til þess að sinna þeim sem hjálpar eru þurfi.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvernig störf þessa fólks eru verðlaunuð. Það er nefnilega eitthvað ömurlegt við það sem ég hef heyrt að hjúkrunarfræðingar þurfi að djúpsteikja kjúkling í aukavinnu til þess að láta enda ná saman við mánaðarmót. Við hljótum að geta gert betur en þetta.

Sterk staða bæjarsjóðs

Það eru ýmsar áskoranir sem sveitarfélög hafa staðið frammi fyrir hringinn í kringum landið. Ofan á pestina varð loðnubrestur annað árið í röð sem hefur mikil áhrif á samfélagið allt sem og afkomu sveitarfélagsins.

Þrátt fyrir þetta er fjárhagsleg staða bæjarins sterk og sést það vel á nýsamþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Þar kennir ýmissa grasa en áhersla Eyjalistans og þess meirihluta bæjarstjórnar sem nú situr er á menntamál og þjónustu við ungt fólk og barnafjölskyldur. Þannig á t.d. að ráðast í rannsókn á skólastarfi í samvinnu við háskólana með það að markmiði að bæta árangur nemenda. Ég er fullviss um að áherslur okkar á skólana skili sér að lokum í bættum árangri okkar yngstu bæjarbúa. Það þurfa allir að geta notið sín í skólastarfi og því þurfa allir að fá þá þjónustu sem þeir þurfa.

Á næsta ári verður haldið áfram með spennandi uppbyggingu á þriðju hæð Fiskiðjunnar þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu samfélags nýsköpunar og sprotastarfsemi. Bærinn hefur átt í viðræðum við ráðherra málaflokksins sem lýst hefur vilja til að taka þátt í uppbyggingunni. Í Vestmannaeyjum eru gríðarleg tækifæri til að þróa verkefnið áfram og mun bærinn gera það sem hann getur til þess að greiða götu slíkra verkefna.

Þá verður haldið áfram með endurbætur á Ráðhúsinu við Stakkagerðistún og þegar þeim líkur munu bæjarskrifstofurnar flytjast aftur í það sem mér finnst vera fallegasta hús bæjarins. Þá finnst mér sömuleiðis alltaf skemmtilegt að aka upp Heiðarveginn og fylgjast með uppbyggingu á nýrri slökkvistöð sem rís á miklum hraða. Það er magnað til þess að hugsa að í mars sl. var fyrsta skóflustungan tekin og ef allt gengur að óskum verður stöðin vígð í júlí á næsta ári.

Samgöngur  

Ég get ekki farið yfir árið sem er að líða öðruvísi en að nefna til sögunnar Herjólf, rekstur félagsins o.s.frv. Við upphaf ársins varð ljóst að fækkun ferðamanna og samkomutakmarkanir myndu þyngja rekstur félagsins.

Þegar félagið var af fullum krafti að reyna að bjarga því sem bjargað varð bættist ofan á allt annað kjaradeila starfsmanna um borð. Ég get sagt það hér að satt best að segja bjóst ég ekki við því að til eins mikillar hörku myndi koma og raunin varð. Ég trúði vart eigin augum þegar ónefndur forkólfur stéttarfélags sjómanna birtist á bryggjunni og stöðvaði á nýjan leik siglingar á milli lands og Eyja. Deilan leystist þó farsællega á endanum og er því ekki að þakka fyrrnefndum baráttumanni sjómanna sem undir lok árs stefndi bæði félaginu og sjómannafélaginu Jötni fyrir kjaradóm.

Eins og áður segir var það ljóst á árinu að rekstur skipsins yrði á engan hátt sjálfbær og að mikið tap yrði á rekstrinum. Þar af leiðandi var í haust lagt af stað í þá vegferð að semja upp á nýtt við ríkið um rekstur skipsins. Niðurstaðan varð þriggja ára samningur sem bætti að hluta upp það fjárhagslega tjón sem varð vegna Covid. Það er alveg ljóst í mínum huga að þeir einstaklingar sem stóðu í þessum viðræðum hafa unnið gríðarlegt mikið starf og þeirra framlag til samgöngumála við Vestmannaeyjar verða seint fullþökkuð.

Fyrir skemmstu lét Guðbjartur Ellert Jónsson af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins eftir að hafa gegnt starfinu í tvö ár. Ég vill nota þetta tækifæri og þakka Guðbjarti fyrir hans störf fyrir félagið og í þágu öflugra samgagna við Vestmannaeyjar. Um leið óska ég nýjum framkvæmdastjóra, Herði Orra Grettissyni velfarnaðar í starfi.

Rekstrarerfiðleikar voru víðar en hjá Herjólfi og í haust ákváðu forsvarsmenn flugfélagsins Ernis að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja eftir að hafa skert verulega flugáætlun hingað síðasta vetur. Í kjölfarið tilkynnti ISAVIA að starfsmönnum á Vestmannaeyjaflugvelli yrði sagt upp. Þetta voru ákaflega erfiðar fréttir að meðtaka.

Í framhaldinu hófst samtal, bæði við fulltrúa ISAVIA sem og Air Iceland Connect. Úr varð að ISAVIA dró til baka uppsagnir sínar enda mikilvægt að vellinum sé haldið opnum, t.d. vegna sjúkraflugs. Þá mun Air Iceland hefja flug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum næsta vor.

Samtal við samgönguráðherra skilaði svo því að ráðuneyti hans fór í verðkönnun og samdi í framhaldinu við Air Iceland um lágmarksflug til Eyja til vorsins og hófst flugið nú fyrir jól. Fyrir þetta vil ég þakka Sigurði Inga fyrir skjót viðbrögð og áframhaldandi baráttu hans fyrir öflugum samgöngum við Vestmannaeyjar.  

Kannski verður það áramótaheit mitt að hrósa reglulega þeim sem eiga það skilið. Í þessu máli ætla ég að hrósa Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra fyrir vasklega framgöngu í málinu. Það geta fáir eignað sér heiðurinn af því að áætlunarflug verður til Vestmannaeyja á næsta ári og bæjarstjóri stóð sig ákaflega vel í þessu máli líkt og svo oft áður.

Framtíðin er björt

Hér í Vestmannaeyjum eru ótal tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar samfélagsins. Ég hef trú á því að þegar okkur tekst að sigrast á veirunni mun samfélagið okkar blómstra sem aldrei fyrr. Til þess höfum við allt sem þarf.

Oft er það þannig að glöggt er gests augað og upplifun „aðkomumanna“ af því að koma til Eyja er svo sterk að okkur hættir til þess að sjá ekki þá miklu fegurð sem er allt í kringum okkur. Í haust lýstu stórhuga aðilar áhuga sínum á því að fara í mikla fjárfestingu í baðlóni á nýja hrauninu. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem vonandi verður að veruleika í náinni framtíð. Mun það auka svo um munar þá afþreyingu sem til staðar er hér í Eyjum og styrkja enn fremur ferðamennsku sem framtíðar atvinnugrein allt árið um kring. Til þess þarf margt að ganga upp og er það okkar bæjarfulltrúa að berjast áfram fyrir hagsmunum samfélagsins.

Ég óska öllum Vestmannaeyingum, nær og fjær gleðilegs árs.

Megi árið 2021 færa okkur öllum hamingju, gleði og samverustunda sem við höfum saknað svo mikið á árinu sem er að líða.

 

Njáll Ragnarsson

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).