Jólaminning

26.Desember'20 | 11:59
jólatre

Ljósmynd/TMS

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja skrifar jólaminningu á vef Vestmannaeyjabæjar frá því að fyrsta jólatréð var sett upp í Vestmannaeyjum.

Jólaminninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Það þarf ekki allt að vera stærst og mest til að gleðja og næra. Til eru skemmtilegar heimildir um fyrsta jólatréð sem var sett upp í Vestmannaeyjum af sýslumannshjónunum Maríusi og Agnesi Aagaard sem hér bjuggu á árunum 1875-1890. 

Þær sýna vel hversu litlir hlutir geta veitt bæði þeim sem gefa og hinum sem þiggja birtu og yl. Agnes hélt dagbók sem enn er varðveitt og þar veitir hún okkur innsýn til jólanna 1878 er fyrsta tréð var sett upp. Agnes segir í dagbókinni sinni:

Á jóladag vorum við Signe [vinnukonan] önnum kafnar við jólatréð. Það var eins bert og hönd mín. Hvergi sást á því barr. Ætlunin hafði verið að þekja það með lyngi, en frostið kom í veg fyrir að hægt væri að ná í það. Hálfum mánuði áður hafði ég náð í lítilsháttar af lyngi og með því vöfðum við toppinn. Þó að það væri ljótt og visið, var það þó betra en ekki neitt.

Það getur verið áhugavert fyrir okkur í nútímanum að gægjast inn fyrir á jóladaginn hjá sýslumannshjónunum, sem þá voru flutt í nýbyggða Uppsali milli Vestmannabrautar og Faxastígs, og sjá hvernig dagurinn leið:

Jólamorguninn færði Signe okkur te í rúmið. Kl. 2 borðuðum við morgunverð og læknirinn [Þorsteinn Jónsson], borðaði með okkur. Um kvöldið átti aftur að kveikja á jólatrénu fyrir 11 gestkomandi börn. Þau komu kl 4 og læknirinn, Bjarnasen [Gísli, verslunarstjóri] og kona hans [María Ásmundsen]. Fyrst gáfum við þeim kaffi. Síðan var þeim hleypt þar sem jólatréð stóð og voru þau alveg undrandi yfir þeirri sjón, sem þau sáu. Enginn hér í eyjunni hefur nokkru sinni fyrri séð jólatré og öll voru þau stórhrifin.

Við gáfum hverju barni smáhlut, sem við höfðum gert, auk fléttaðra krossa, rósa og slíkra muna. Veitingarnar voru: Piparhnetur, rúsínur og brjóstsykur, sem Maríus hafði soðið. Ég held að kvöldið hafi verið öllum ánægjulegt.

Þessi litla saga úr fjarlægri fortíð Eyjanna sýnir okkur að þrátt fyrir allt sem fylgt hefur í kjölfarið á Covid-19 þá er samt það sem skiptir í raun eitt máli ennþá eftir til allrar Guðs mildi hjá flestum okkar: Við eigum hvert annað.

Jóla- og nýarskveðja

 

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.