Hörður Orri ráðinn framkvæmdastjóri Herjólfs

11.Desember'20 | 16:55
Hordur_orri_cr

Hörður Orri Grettisson.

Stjórn Herjólfs ákvað samhljóða að ráða Hörð Orra Grettisson í starf framkvæmdastjóra félagsins. Hörður Orri er 37 ára að aldri og er fæddur og búsettur í Vestmannnaeyjum. 

Í tilkynningu frá stjórn Herjólfs segir að staða framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. hafi verið auglýst laus til umsóknar á dögunum og var umsóknarfrestur til og með 5. desember sl. Samkvæmt auglýsingunni hefur framkvæmdastjóri Herjólfs umsjón með stjórnun og rekstri félagsins í samvinnu við stjórn Herjólfs ohf.

Alls sóttu 38 einstaklingar um starfið; 4 konur og 34 karlar. Stjórn Herjólfs ohf. þakkar þeim sem sóttu um starfið og þann áhuga sem þau sýndu.

Eftir mat á umsóknum, viðtöl við umsækjendur og umsagnir aðila hefur stjórn Herjólfs ohf. ákveðið samhljóða að ráða Hörð Orra Grettisson í starf framkvæmdastjóra félagsins. Hörður Orri er 37 ára að aldri og er fæddur og búsettur í Vestmannaeyjum. Hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007 og meistaragráðu í hagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Árósum árið 2010. Hörður Orri hefur m.a. starfað sem forstöðumaður hagdeildar hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og sem framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags frá árinu 2019.

Stjórn Herjólfs býður Hörð Orra velkominn til starfa. Stjórn Herjólfs ohf. hefur ákveðið að birta ekki lista yfir umsækjendur um starf framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál er opinberum hlutafélögum ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um auglýst störf. Það er mat stjórnar Herjólfs ohf. að óskir umsækjenda um nafnleynd og persónuverndarsjónarmið vegi þyngra en upplýsingagjöf til almennings um hverjir voru meðal umsækjenda, segir í tilkynningunni.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.