Milljarður í framkvæmdir á næsta ári

7.Desember'20 | 08:53
20201101_133400

Bærinn áætlar að verja rúmum einum milljarði til ýmissa framkvæmda á næsta ári. M.a byggingu slökkvistöðvar, endurbyggingu ráðhússins, ljósleiðaravæðingu og framkvæmdir við aðstöðu fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf

Samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar verða tekjur á næsta ári um 6,7 milljarðar og gjöldin verða svipuð. Niðurstaða ársins er jákvæð um rúmar 100 milljónir og verður handbært fé í lok næsta árs verði um 2,6 milljarðar króna.

Á fundi bæjarstjórnar gerði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2021 frá fyrri umræðu.

Þrátt fyrir efnahagsleg og samfélagsleg áföll sem dunið hafa yfir á þessu ári vegna Covid-19, stendur bæjarsjóður Vestmannaeyja traustum fótum, hvort heldur litið er til reksturs, eigna eða skulda. Við rekstur sveitarfélagsins á næsta ári verður áhersla lögð á ábyrg fjármál og hagkvæman rekstur, en ekki síður að veita góða þjónustu. Jafnframt er þess gætt að stilla álagningu skatta og opinberra gjalda í hóf.

Þrýstingur á aukna fjárfestingu bæjarins

Sveitarfélögin á landinu hafa verið að glíma við gríðarlega erfiðar áskoranir í rekstri og fjármögnun lögbundinna verkefna, með tilheyrandi lausafjárvanda, rekstrartapi og skuldasöfnun. Eins og önnur sveitarfélög þarf Vestmannaeyjabær að takast á við slíkar áskoranir. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa t.a.m. lækkað töluvert milli ára og loðnuvertíð haft áhrif á útsvarstekjur. Þá hefur þrýstingur á aukna fjárfestingu bæjarins aukist, til þess að viðhalda og efla atvinnu. Jafnframt hafa kjarasamningar opinberra starfsmanna leitt til aukins rekstrarkostnaðar. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að staða bæjarsjóðs Vestmannaeyja verði áfram traust. Áhrif af Covid-19 gera það hins vegar að verkum að rekstrarafkoma bæjarsjóðs verður lægri en undanfarin ár. Mikilvægt er að ekki stendur til að skerða þjónustu við bæjarbúa, né grípa til uppsagna starfsfólks. Þá er gert ráð fyrir myndarlegri fjárfestingu í framkvæmdir á næsta ári og hluti af þeim framkvæmdum stýrð með hliðsjón af atvinnuástandi og horfum á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði rúmar 30 m.kr. og hjá samstæðunni tæpar 104 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 488 m.kr. hjá A-hluta og tæpar 680 m.kr. í samstæðureikningi.

279 milljónir til ýmissa gjaldfærðra verkefna sem ekki tilheyra lögbundnum verkefnum

Gert er ráð fyrir tæpum 1.015 milljónum í eignfærðar framkvæmdir á næsta ári. Er þar um að ræða fjölda verkefna sem skapa vinnu í Vestmannaeyjum, en jafnframt verðmæti fyrir Vestmannaeyinga, svo ljósleiðaravæðingu, aðstöðu fyrir nýsköpun- og frumkvöðlastarf og aðra mikilvæga starfsemi. Þá er gert ráð fyrir tæpum 279 m.kr. til ýmissa gjaldfærðra verkefna, svokallaðra sérsamþykkta, sem ekki tilheyra lögbundnum verkefnum og reglubundnum grunnrekstri sveitarfélagsins. Um er að ræða ýmis átaksverkefni, heilsueflingu, bætt umhverfi og aðstöðu fyrir Vestmannaeyinga, spjaldtölvuvæðingu í grunnskólunum, áframhaldandi átak á ferðamálum og ýmis önnur framfaraverkefni.

Staða bæjarsjóðs verður því áfram sterk. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu, áframhaldandi góðri þjónustu við bæjarbúa, hagkvæmni í rekstri, hóflegum sköttum og opinberum gjöldum, öflugri fjárfestingu og atvinnusköpun.

Nokkrar breytingartillögur voru lagðar fram á fundinum og verður fjallað um þær næstu daga hér á Eyjar.net. Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar var samþykkt með fjórum atkvæðum E og H lista. Þrír bæjarfulltrúar D lista sátu hjá.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.