Ásættanleg niðurstaða komin í ákveðin grundvallaratriði samningsins

5.Desember'20 | 17:40
20201123_135356-001

Viðvarandi tap hefur verið á rekstri Herjólfs síðan opinbert hlutafélag í eigu Vestmannaeyjabæjar tók við rekstrinum árið 2018. Ljósmynd/TMS

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður á milli Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs um nýjan rekstarsamning sem gilda á til næstu þriggja ára. Samhliða því fór stjórn Herjólfs í rekstarlega endurskipulagningu.

Vestmannaeyjabær lagði félaginu til 150 milljónir í stofnfé árið 2018, en tap var á rekstrinum það ár uppá 25,5 milljónir króna. Í fyrra tapaði félagið 16 milljónum kr. 

Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Njál Ragnarsson, formann bæjarráðs Vestmannaeyja um stöðu félagsins, hækkun gjaldskrárinnar, og framhaldið.

Á endanum eru það útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum sem borga brúsann

Allt þar til í haust hafa bæjarbúar haft val um flug eða siglingu til tengingar við fastalandið. Nú er ekkert slíkt val.  Er ásættanlegt að um leið skuli gjaldskráin hækkuð jafn mikið og raun ber vitni í ferjuna?

Auðvitað er það þannig að hækkanir á gjaldskrá eru ákveðið neyðarúrræði sem enginn vill þurfa að beita. Engu að síður er mikilvægt að fólk átti sig á þeirri stöðu sem félagið er í. Vestmannaeyjabær ber fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum sem þýðir að tap sem verður á rekstri félagsins á árinu kemur beint inn í samstæðureikning bæjarins. Á endanum eru það útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum sem borga brúsann.

Þetta er sú fjárhagslega áhætta sem var tekin á sínum tíma. Nú fer að klárast samningur milli ríkis og bæjarins um greiðslur m.a. vegna tekjutjóns af völdum Covid sem bæta að hluta fyrir það tjón sem orðið hefur en ljóst er að tapið verður ekki að fullu bætt og því nauðsynlegt að grípa til þessara úrræða, þó vissulega fagni því enginn.

Tap á rekstrinum í ár

Var búið að reyna til fulls að fá meira fjármagn til rekstursins úr ríkissjóði?

Stjórn félagsins og bæjarstjórn telur komna ásættanlega niðurstöðu í ákveðin grundvallaratriði samningsins.

Fyrr á árinu kom styrkur frá ríkinu til Herjólfs ohf. vegna Covid-19. Hversu hár var hann?

Það verður upplýst um samninginn og atriði í honum þegar hann liggur endanlega fyrir. Þangað til bæjarstjórn hefur fengið hann í hendurnar og er tilbúin til að samþykkja nýjan samning er ekki rétt að ég tjái mig frekar um hann. 

Þessu tengt: Viðbótarfjármagn frá ríkinu allt að 260 milljónir

Nú kostar orðið fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem vill heimsækja okkur á bíl (tveir fullorðnir og eitt barn undir 12 ára og eitt yfir 12 ára) 16.000,- fram og til baka.  Telur þú að verðið gæti þýtt færri farþega til okkar næsta sumar?

Ég get ekki svarað þessari spurningu. Fólk þarf að meta það sjálft.

Nú er þetta ár að verða búið. Hvernig sjá menn fyrir sér að þetta ár verði í rekstri Herjólfs ohf.?

Það verður tap á rekstrinum. Það er svo einfalt. Árið er ekki búið og hversu mikið það verður á eftir að koma endanlega í ljós en það er ekkert launungarmál að þetta ár verður erfitt.

Örugglega aldrei verið erfiðara að reka Herjólf en á árinu sem er að líða

Forverar ykkar í bæjarstjórn töluðu oft um að mikilvægt væri að Vestmannaeyjabær ræki nýjan Herjólf fyrst um sinn til að koma á því þjónustustigi sem þörf væri á og síðan væri hægt að skila rekstrinum aftur til ríkisins. Kom ekki til álita nú að klára bara núverandi rekstrarsamning við ríkið og skila svo rekstrinum? 

Ég get þá spurt á móti: Er þetta rétti tímapunkturinn til þess? Það hefur örugglega aldrei verið erfiðara að reka Herjólf en á árinu sem er að líða. Eru þær aðstæður sem nú eru uppi rétti tímapunkturinn til þess að segja að þetta sé ekki hægt?

Það er ekki sjálfgefið að það séu sigldar sex ferðir yfir vetrarmánuðina. Ef við viljum nota þennan tímapunkt til þess að gefast upp fyrir verkefninu er ég algerlega viss um að við fáum aldrei aftur þá þjónustu sem við höfum vanist undanfarin tvö ár. Aldrei!

Það væri grátlegt til þess að hugsa að Covid 19, ofan á allt annað, kæmi í veg fyrir það til framtíðar að þjóðvegurinn okkar sé svona mikið opinn og þjónustan sé svona góð.

Hefði ekki þurft að koma til þessara gjaldskrárhækkana í eðlilegu ári

Í nýjum samningi við ríkið og með þessum aðgerðum sem nú er farið í, eru bæjaryfirvöld þá að horfa til þess að rekstur félagsins verði í jafnvægi á komandi árum?

Ég er sannfærður um það að í eðlilegu ári er hægt að reka skipið sómasamlega án þess að tap sé á rekstrinum. Ég er sannfærður um það að ef allt hefði verið eðlilegt, Landeyjahöfn undantekningalítið opin frá því í lok mars og fram í nóvember, óraskaður straumur erlendra ferðamanna og ekkert Covid, hagrætt í ákveðnum þáttum rekstarins, siglt á rafmagni bæði frá Eyjum og frá Landeyjum þá hefði ekki þurft að koma til þessara gjaldskrárhækkana.

Það er enginn vafi í mínum huga að okkur tekst þetta. Þess vegna vildi bæjarstjórn fara í þá vegferð að lengja samningstímann til þess að eiga möguleika á því að vinna til baka það sem óumflýjanlega tapast á þessu ári. Og við getum það!

Voru þingmenn kjördæmisins hafðir með í ráðum vegna stöðunnar sem upp var komin í rekstri Herjólfs?

Bæjarstjórn hefur boðað alla þingmenn Suðurkjördæmis á fundi um stöðuna. Ég hef átt samtöl við þingmenn, bæjarstjóri hefur talað við flestalla þingmenn kjördæmisins, vinir mínir í minnihlutanum hafa talað við sitt fólk, það eru allir að leggjast á eitt.

Stjórn Herjólfs samstíga

Njáll vill nota þennan vettvang til þess að þakka samninganefnd Herjólfs og stjórn félagsins fyrir þrotlausa vinnu undanfarnar vikur og mánuði.

„Ég veit hversu mikið hefur mætt á þessu fólki og hversu gríðarlega mikið og óeigingjarnt starf þau hafa unnið fyrir samfélagið okkar. Jafnvel þó að það sé stundum erfitt að horfast í augu við stöðuna þurfum við öll að trúa því að bjartari tímar séu framundan og við náum okkur upp úr þessum skafli.

Það er til algerar fyrirmyndar hversu samstíga stjórn Herjólfs hefur verið í þessum viðræðum og raunar öllum málum frá upphafi. Stjórnin öll áttar sig á tækifærunum sem felast í því að við ákveðum sjálf það þjónustustig sem er á þjóðveginum okkar og vinnur eftir því.

Við megum ekki gefast upp þegar á móti blæs heldur takast á við erfiðleikana og berjast fyrir því sem á endanum bætir lífsskilyrði íbúa í Vestmannaeyjum.”

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.