Ási í Bæ við sjávarsíðuna í Eyjum

18.Nóvember'20 | 15:15
20201118_130451

Styttan góða er við smábátahöfnina. Ljósmyndir/TMS

Búið er að koma upp styttu af Ása í bæ við smábátahöfnina í Eyjum. Það voru starfsmenn Ísfélagsins sem önnuðust uppsetninguna. Styttan er öll hin glæsilegasta og ekki skemmir umhverfið. 

Hægt verður að tilla sér við hlið styttunnar og hægt verður að hlusta á lög og sögur frá Ása með því að þrýsta á hnapp sem er á bekknum. Höggmyndina gerði Eyjamaðurinn Áki Gränz, listmálari og myndhöggvari að beiðni Árna Johnsen. Ísfélagið annaðist svo uppsteypu verksins í kopar.

Fjallað var um styttugerðina í Morgunblaðinu árið 2006. Þar segir meðal annars að Áki Gränz, listamaður í Njarðvík sé langt kominn með að gera styttu af Ása heitnum í Bæ í fullri líkamsstærð. Áki sagði að Árni Johnsen hafi leitað til sín og beðið sig að gera styttuna. Til hliðsjónar hafði Áki ljósmynd eftir Sigurgeir Jónasson ljósmyndara frá Skuld í Vestmannaeyjum. Myndin var tekin um borð í Hlýra VE, báti Jóns í Sjólyst, en Ási reri oft með Jóni á vordögum.

Landskunnur texta- og lagasmiður, vísnasöngvari, afkastamikill rithöfundur og í flokki mestu færamanna á Eyjamiðum

Ástgeir Kristinn Ólafsson, betur þekktur sem Ási í Bæ, fæddist þann 27. febrúar 1914 og lést í Reykjavík 1. maí 1985, 71 árs að aldri. 

Á vefnum Heimaslóð segir að Ási hafi ungur að aldri byrjað sjóróðra með föður sínum á opnum vélbáti. Hann útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1940. Hann vann sem skrifstofumaður í Vestmannaeyjum um hríð en starfaði þó lengst af á sjónum, oftast sem matsveinn eða háseti. Hann eignaðist vélbátinn m/b Herstein ásamt öðrum félaga sínum 1955. En árið 1959 keypti hann vélbátinn m/b Ugga. Hann var einnig formaður á Hugin.

Ási varð snemma aflakóngur og var talinn í flokki mestu færamanna á Eyjamiðum. Árið 1968 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og vann þar um tíma sem ritstjóri Spegilsins.

Á sínum yngri árum tók Ási mikinn þátt í leiklistarlífi í Vestmannaeyjum og var það algengt í Litlabæ, en föðurbræður hans, Valdimar og Kristinn, sem á efri árum var þekktur fyrir málverk sín, og uppeldisbróðir ömmu hans, Guðlaugur Hansson, voru miklir leikarar og voru mjög virkir í starfi Leikfélagsins.

Ási var landskunnur texta- og lagasmiður, vísnasöngvari og afkastamikill rithöfundur og lét mikið að sér kveða en þó sérstaklega eftir að hann lét af sjómennsku. Hann var í þeim margrómaða mannræktarkvartett með Árna úr Eyjum, Lofti Guðmundssyni og Oddgeiri Kristjánssyni, sem kallaðir eru feður hinna sígildu þjóðhátíðarlaga og hafa lifað sem ný um áratuga skeið. Samstarf þeirra Ása í bæ og Oddgeirs varð víðfrægt og úr því urðu til landsþekkt lög, t.d. Sólbrúnir vangar og Ég veit þú kemur.

Hann skrifaði margar bækur og rit m.a. Sá hlær best þar sem hann fjallar um lífsbaráttu sína, Granninn í vestri sem er ferðabók um Grænland, Breytileg átt sem er skáldsaga, Eyjavísur og smásagnasafnið Sjór, öl og ástir. Hann gaf einnig út hljómplötu þar sem hann söng og spilaði eigin lög og texta.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).