Mokfiskerí hjá Þórunni Sveinsdóttur
5.Nóvember'20 | 17:03Vel hefur gengið á Þórunni Sveinsdóttur VE eftir að skipið kom úr lengingu frá Danmörku fyrir rúmu ári. Nýlega landaði skipið 200 tonnum eftir tæpa fimm daga á veiðum.
Rætt er við Gylfa Sigurjónsson skipstjóra á vef Fiskifrétta. Haft er eftir honum að góður gangur hafi verið í veiðunum.
Skipið var lengt um 6,6 metra sem skilaði meðal annars plássi fyrir 200 viðbótarkör í lest. Þá var sett í það forkæling upp á dekki þannig að nú fer allur fiskur við núll gráður ofan í lest. Það er því kjör hráefni sem Þórunn Sveinsdóttir kemur með að landi.
„Þetta var bara mokfiskerí en við vorum svo sem heppnir líka og náðum þarna í um 90 tonn af ufsa þannig að við kvörtum ekki. Við byrjuðum á Breiðamerkurdýpi og fórum svo út á Pung og á Verkamannabanka. Við fórum því víða og það var töluvert um keyrslu. Við þurfum að gera þetta svona á þessum árstíma og þetta er alltaf sólarhringskeyrsla hvora leið á miðin,” segir Gylfi.
Smærri þorskurinn, ufsinn og annað fer til vinnslu í Eyjum
Hann segir óvenjumikinn ufsa hafa fengist og þetta hafi allt verið stór ufsi; tveggja handa ufsi eins og hann kallast. Annars var aflinn blanda af þorski, ýsu og karfa, allt saman mjög vænn fiskur. Gylfi kveðst ekki muna eftir jafngóðri veiði áður á þessum árstíma og það óvenjulega hafi líka verið hve blandaður aflinn var.
„Við seljum stærsta fiskinn út og erum að fá alveg dúndurverð fyrir hann. Þeir biðja um einn gám á viku og vilja ekki meira og við erum að fá miklu hærra verð en á mörkuðunum hérna heima. Þetta eru bein viðskipti með óunninn fisk við framleiðanda Fish&Chips á Bretlandi og þeir vilja bara fisk frá okkur. Við þurfum að eiga fyrir þá alltaf nálægt 18 tonnum af stórum fiski í hverri viku. Allur smærri þorskurinn, ufsinn og annað fer til vinnslu hérna. Milli 60-70% af því sem við fengum síðast fór til vinnslu hjá Leo Seafood hérna í Eyjum,“ segir Gylfi.
Tags
Þórunn Sveinsdóttir
Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.
Má bjóða þér að auglýsa hér?
23.Júní'22Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.