Fjölmenning í Vestmannaeyjum

- Samfélagið á Íslandi hefur orðið æ fjölbreyttara og litríkara undanfarin ár og áratugi

29.Október'20 | 10:47
IMG_2997

Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll eins, inn við beinið, segir m.a í greininni. Ljósmynd/TMS

Fólk alls staðar að úr heiminum hefur í auknum mæli sest að á litla Íslandi, hvort sem það er í höfuðborginni, Bíldudal, Fáskrúðsfirði eða hér í Vestmannaeyjum. 

Alls staðar hefur þessi viðbót auðgað mannlífið á viðkomandi stöðum. Það getur hins vegar reynst mörgum erfitt að aðlagast nýjum heimkynnum, komast inn í samfélagið og læra nýtt tungumál. Þá kemur að okkur, Íslendingum, að bjóða öll velkomin og hjálpa til við aðlögunina.

Víða á Íslandi hafa sveitarfélög farið þá leið að ráða í sérstakt starf fjölmenningarfulltrúa til að vinna að því markmiði að öll geti fengið sömu tækifæri, geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu sem þau búa í og að vinna gegn fordómum.

Á vormánuðum 2019 var ráðið í stöðu fjölmenningarfulltrúa í Vestmannaeyjum. Sú staðreynd að um 12% íbúa Vestmannaeyja er af erlendum uppruna gerði það augljóst að nauðsynlegt var orðið að byggja brú milli þessa hóps og samfélagsins. Klaudia Wróbel var valin í starfið. Hún fór í fæðingarorlof í apríl 2020 og hefur Drífa Þöll Arnardóttir leyst hana af á meðan.

Starf fjölmenningarfulltrúa er afar fjölbreytt. Í stuttu máli á hann að vinna að stefnumótun, upplýsingagjöf til íbúa og stofnana og benda á ýmislegt í samskiptum sem betur má fara í samfélaginu. Fjölmenningarfulltrúi hefur þannig aðstoðað fólk við að sækja um kennitölur, fæðingarorlof, þekkja rétt sinn, skipta um lögheimili og vera í samskiptum við þjóðskrá og aðrar opinberar stofnanir svo eitthvað sé nefnt. Fjölmenningarfulltrúi Vestmannaeyja hefur einnig unnið samstarfsverkefni varðandi túlkaþjónustu með Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði. Þetta verður kynningarbæklingur fyrir stofnanir og fyrirtæki annars vegar og fyrir túlkaþega hins vegar. Covid hefur haft hamlandi áhrif á það hversu hratt gengur að vinna verkið en vonandi fer bæklingurinn að líta dagsins ljós bráðlega.

Fjölmenningarfulltrúi heldur úti facebook síðunni Multicultural center Vestmannaeyjar þar sem ýmsum upplýsingum er komið á framfæri; auglýst íslenskunámskeið, komið á framfæri upplýsingum varðandi Covid-19, frístundastyrkurinn kynntur og margt fleira.

Fjölmenningarfulltrúar á landinu hafa verið duglegir að bera saman bækur sínar og kynna fyrir stéttarsystkinunum þau verkefni sem gengið hafa vel. Fjölmenningarsetur á Ísafirði bauð hópnum til sín á námskeið haustið 2019 sem heppnaðist með ágætum og styrkti böndin milli fulltrúanna. Það átti að endurtaka leikinn núna í haust en vegna Covid var því aflýst. Fjölmenningarfulltrúarnir héldu einn fjarfund í október sl. þar sem fjölmenningafulltrúi Reykjanesbæjar var með kynningu. Stefnt er að því að halda aðra slíka kynningu í nóvember en þá mun fjölmenningarfulltrúi Akureyrar sýna og segja frá sínu starfi.

Nú fyrir stuttu var samþykkt fjölmenningarstefna Vestmannaeyjabæjar í fjölskyldu- og tómstundaráði og bæjarstjórn staðfesti í framhaldinu samþykktina. Hún er leiðarljós fyrir stofnanir og starfsfólk bæjarins til að koma betur til móts við nýja íbúa bæjarfélagsins af erlendum uppruna. Þessi stefna var unnin af Klaudiu en Drífa lauk við verkefnið. Búið er að birta fjölmenningarstefnuna á vef bæjarins á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Mikill metnaður var lagður í verkið og er það von okkar að stefnan verði það leiðarljós sem henni er ætlað að vera, okkur öllum til gagns og gleði. Við græðum öll á því að nýir íbúar finni að þeir séu velkomnir, að á móti þeim sé tekið með víðsýni og virðingu svo að þeir geti orðið sjálfbjarga og virkir þátttakendur í okkar góða samfélagi.

Því þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll eins, inn við beinið.

Hægt er að skoða fjölmenningarstefnuna hér: 

Fjölmenningarstefna - Íslenska

Multicultural policy of Vestmannaeyjar - English version

Fjölmenningarstefna - Polish

 

Greinin birtist fyrst á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar - vestmannaeyjar.is.

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.