Hertar samkomutakmarkanir taka gildi á mánudag

3.Október'20 | 18:30
maski_2020

Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu Covid-19. 

Ný reglugerð þess efnis tekur gildi mánudaginn 5. október og verður birt á morgun. Stærstu einstöku breytingarnar verða 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum en þar má nefna 50 manna hámark í útförum og 100 manna hámark í tilteknum verslunum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað.

Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum, eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi. Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla, segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Í framhalds- og háskólum munu gilda 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjarstærð. Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Gerð verður sérstök grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum. Starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu.

Vakin er athygli á því að vikið er frá tillögum sóttvarnalæknis að því leyti að í framhalds- og háskólum verður miðað við 25 manna fjöldatakmörk í stað 20 manna og 50 manna fjöldatakmörk í útförum.

Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er rakin þróun COVID-19 faraldursins hér á landi að undanförnu. Þar kemur fram að frá 15. september til 1. október hafi um 560 einstaklingar greinst innanlands, daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví verið um 50%.

Á sama tíma hafi fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega aukist og um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda: „Í ljósi þess að faraldurinn er nú í línulegum vexti og fyrirsjáanlegt er að álag á sjúkrahúskerfið getur farið yfir þolmörk varðandi COVID og önnur verkefni, þá leggur sóttvarnalæknir til að gripið verði til harðari samfélagslegra aðgerða til bæla faraldurinn sem mest niður“ segir meðal annars í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Tags

COVID-19

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...