Georg Eiður Arnarson skrifar:

Lundasumarið 2020

12.September'20 | 23:30
lundar_sili_ruth

Margir voru undrandi á því að sjá svona mikið af lunda í Eyjum í ágúst, en þetta er algjörlega í samræmi við það sem greinahöfundur hefur spáð fyrir um undanfarin ár. Ljósmynd/Ruth Zohlen

Ekkert lundaball í ár og síðustu pysjurnar að mæta í bæinn þessa dagana og því rétt að gera sumarið upp.

Það sem kannski kom mér mest á óvart í sumar er það, hversu margir voru undrandi á því að sjá svona mikið af lunda hér í Eyjum í ágúst, en þetta er algjörlega í samræmi við það sem ég hef spáð fyrir um undanfarin ár og að mínu mati augljóst, að að sjálfsögðu skilar pysjan okkar sér í fjöllin okkar og það sem gerir þennan frábæra uppgang síðustu árin enn betri núna er, að þetta er sjötta árið í röð, sem þýðir að bæjarpysjan 2015, sem taldi í kringum 5000, sem aftur þýðir að heildar pysjufjöldinn í Vestmannaeyjum 2015 sem er þá í kring um 500 000, mun skila sér að fullu inn í lundastofninn í Eyjum næsta sumar sem kynþroska lundi, þannig að börnin í Vestmannaeyjum mega búast við því, að á næstu árum haldi þessi uppgangur lundans áfram með enn meira af pysju næstu árin. 

Stærstu fréttirnar að mínu mati eru kannski viðtal sem tekið var við Erp í byrjun ágúst, en á meðan ég sat í stjórn Náttúrustofu Suðurlands, þá reifst ég reglulega við forstöðumann stofunnar um það, hvernig túlka skyldi vægi bæjarpysjunnar. Ég vildi tala um hana sem 1%, en þeir í kring um 10%, en í viðtalinu við Erp kemur hann einmitt inn á, að samkv. hans útreikningum, þá reiknar hann bæjarpysjuna sem tæplega 1%.

Stærstu fréttirnar eru þær, að sé pysjufjöldinn hér í Eyjum lagður saman frá 2015 til og með 2020, þá telur þetta um og yfir 4 milljónir og því lundastofninn hér í Vestmannaeyjum sennilega einhvers staðar í kringum 6 milljónir, sem aftur vekur upp spurningu sem að ég ætla hér með að skora á Erp að svara. 

Ef rýnt er í tölurnar sem fram koma í viðtalinu við Erp frá því í byrjun ágúst, sem eru nokkuð nálægt því sem ég set hérna fram, þá vaknar strax ein mikilvæg spurning. Í nóvember sl. var viðtal í sjónvarpsfréttum Rúv þar sem rætt er við fuglafræðing frá Nárrúrufræðistofu Íslands (það var reyndar aðeins komið inn á þetta í 10 fréttunum s.l. fimmtudagskvöld) en þar kemur fram, að búið sé að setja lundann á válista á Íslandi, vegna þess að stofninn sé kominn niður í 2 milljónir para. Nú er flestum ljóst að þetta byggir allt saman á útreikningum frá Erpi, svo ég hlýt því að spyrja Erp, hvort það sé ekki kominn tími til að fara að leiðrétta þessa vitleysu?

Ef rýnt er nánar í tölulegar útreikningar Erps í viðtalinu í ágúst, þá er ekkert flókið mál að fá það út, að stofninn á Íslandi sé a.m.k. 10 milljónir. Mín skoðun er hins vegar óbreytt, ég tel að lundastofninn á Íslandi sé frekar nær 30 milljónir frekar en 20.

Erpur setur fram í þessu ágæta viðtali við eyjar.net að bæjarpysjan í ár verði 6300 eða 20% minna heldur en í fyrra, en í þessum skrifuðum orðum skráðar pysjur 7300, reyndar hefði ég borgað Erpi stór fé fyrir að fylla út fyrir mig lottómiða ef hann hefði haft rétt fyrir sér, en það var að sjálfsögðu aldrei möguleiki á því.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hver hin raunverulega tala er, en miðað við um 8000 pysjur í fyrra, þá taldist mér til að þetta væri um 10000 þá, miðað við að 15-20% væri ekki vigtað eða skráð, en flestir þeir sem ég hef rætt þetta við að undanförnu telja að þetta sé amk. 30%, en ef við setjum þetta svona ca. þá er bæjarpysjufjöldinn í ár amk. liðlega 9000.

Þegar lundinn settist upp í vor, skrifaði ég í grein mína þá að ég óska þess að við fengjum að sjá meira af lunda í júní og júlí, en það gekk ekki eftir. 

Í júlí fylgdist ég alveg sérstaklega með lundanum og makrílflotanum. Makrílflotinn hélt sig suður af eyjum fram undir miðjan júlí, fór þá um það leitið hálfa leiðina til Færeyja. Um leið fór að sjást aðeins af lunda hér í fjöllunum, en þá kom makríllinn aftur í nokkra daga og alveg fram undir 25. júlí, en þá hvarf makríllinn og fór alla leið austur í smugu og um leið fylltust fjöllin okkar af lunda. Ekki veit ég hvers vegna þetta er svona, en ég réri líka svolítið síðasta sumar og maður sá oft lengst úti á sjó mjög mikið af lunda, en ekki settist hann upp. 

Sumarið hjá mér var eins og síðustu ár, en þetta var 6. árið í röð sem ég fer til Grímseyjar. Ég held að við Eyjamenn munum seint ná að þakka fyrir þann velvilja sem grímseyingar hafa sýnt okkur og m.a.s. erum við félagarnir búnir að panta í Grímsey næsta sumar, en árið í ár var 12. árið í röð sem ég veiði ekkert í Vestmannaeyjum og í raun og veru er ég bara ekkert viss um það, hvort ég eigi eftir að veiða oftar hér í Eyjum, en það kemur þá bara í ljós.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Glæný fýlsegg

17.Maí'22

Er kominn með glæný fýlsegg. Upplýsingar í síma 8693499, Georg.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...