Óvissunni verður að ljúka

Þingmaður hefur sent Sjúkratryggingum Íslands fyrirspurn um hvaða kostnaðaráhrif niðurlagning áætlunarflugs hafi á sjúkraflugið til Eyja

9.September'20 | 07:53
ernir_farthegar_19

Margir Eyjamenn hafa verið sendir til lækninga eða sýnatöku með áætlunarflugi af læknum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

Staða Vestmannaeyja versnaði svo um munar um helgina þegar fastar flugferðir lögðust af til Eyja. Eyjar.net hefur kannað betur hvaða afleiðingar þessi þjónustuskerðing hefur í för með sér fyrir Eyjamenn.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Suðurkjördæmis segir í samtali við Eyjar.net að það sé mikilvægt að það verði skoðað og tekið út hið fyrsta hvernig kostnaður vegna sjúkraflugs til Vestmannaeyja eykst vegna niðurfellingar áætlunarflugs.

Hefur sent Sjúkratryggingum Íslands fyrirspurn

„Það liggur fyrir að margir Eyjamenn hafa verið sendir til lækninga eða sýnatöku með áætlunarflugi af læknum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Einnig hafa þeir sem sótt hafa sjúkrahús- og læknaþjónustu til Reykjavíkur verið sendir heim með áætlunarflugi. Það hefur sparað dýrt sjúkraflug og minnkað álag á þeirri þjónustu. Líklegt er að sá sparnaður skipti milljónatugum á hverju ári og væri betur komin sem styrkur við áætlunarflug til Eyja svo spara megi í sjúkraflugi og álagi á þá þjónustu. Ég hef þegar sent Sjúkratryggingum Íslands fyrirspurn um hvaða kostnaðaráhrif niðurlagning áætlunarflugs hafi á sjúkraflugið til Eyja.”

Sjá einnig: Viðbúið að sjúkraflug aukist verulega

Stóra vandamál innanlandsflugsins er skattlagning

Verður ekki að horfa til sérstöðu Vestmannaeyja þegar kemur að ásættanlegum samgöngum, að ekki sé talað um að fyrir liggur að frátafir í Landeyjahöfn verða áfram töluvert miklar yfir veturinn, þrátt fyrir nýja ferju?

Áætlunarflug til Eyja er mikilvægur þáttur í samgöngum við samfélagið. Það hefur að vísu dregið mjög úr því að Eyjamenn nýti flugið sem samgöngukost en margskonar þjónusta við atvinnulífið nýtir flugið. Stóra vandamál innanlandsflugsins er skattlagning þess og mikilvægt að ríkisvaldið skoði nú alvarlega hvernig lækka megi álögur á rekstur innanlandsflugsins svo það verði áfram lykillinn í almenningssamgöngum á landsbyggðinni.

Skoska leiðin leysir ekki rekstrarvanda innanlandsflugsins nema að litlu leiti

Telur þú að það þurfi að koma til fjármagn frá ríkinu umfram það sem boðað er í skosku leiðinni svo að hægt verði að halda uppi samgöngum í lofti milli lands og Eyja?

Skoska leiðin er frábært verkefni til að styðja við fólk á landsbyggðinni að geta nýtt sér flugið sem almenningssamgöngur. Til að auka tengsl innan fjölskyldna og gera fólki kleift að sækja fjölþætta þjónustu til höfuðborgarsvæðisins sem annars væri fólki torsótt vegna kostnaðar. á næstu árum er gert ráð fyrir hundruð milljóna á ári í þessar niðurgreiðslur á flugkostnaði einstakling og vonandi verður það til þess að auka nýtingu í innanlandsfluginu. En skoska leiðin leysir ekki rekstrarvanda innanlandsflugsins nema að litlu leiti. Skoska leiðin er samt mikilvægt skref til að auka fjölda fjölda þeirra sem nýta sér innanlandsflugið og hefur tekist afar vel í nágranalöndum okkar.

Þessu tengt: Þurfa 10 milljónir á mánuði til að geta haldið úti Eyjaflugi

Hugmynd sem náði engu flugi enda kannski of góð til að vera sönn

Ásmundur segir að þegar hann var formaður Samgönguráðs 2016-2018 og skoska leiðin var að koma fyrst til tals í kerfinu fyrir áeggjan Austurbrúar og dugmikils fólks í ferðaþjónustunni á Austurlandi hafi hann varpað fram hugmynd.

„Hún byggði á því að Vestmannaeyjingar sem þá ætluðu að sjá um rekstur Herjólfs fengju úthlutað fjárupphæð á hverju ári til niðurgreiðslna á samgöngum til og frá Vestmannaeyjum. Fjárhæðin átti að dekka stóraukna þjónustu Herjólfs við Eyjamenn og svigrúm til að styrkja innanlandsflugið. Það væri sem sagt í höndum heimamanna sjálfra hvernig þeir skiptu þeirri kökunni á milli siglinga Herjólfs og áætlunarflugs. En reglulega kemur upp að Herjólfur fer í slipp og aðrar frátafir sem valdið hafa þjónustuskerðingu í samgöngum við Eyjar. Þá hefði verið gott að hafa slíkt svigrúm til að færa til fé. Þessi hugmynd náði engu flugi enda kannski of góð til að vera sönn.”

Hann segir að sú óvissa sem vomir yfir rekstri Herjólfs og flugsamgöngum þurfi að ljúka sem fyrst. „Það er ekkert verra en óvissa með samgöngur um lífæðar Vestmannaeyja og því óvissuástandi verður að ljúka sem fyrst. Að því er unnið á mörgum stöðum af skilningi.”

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.