Mikil vonbrigði og ekki til þess fallið að draga úr óvissu

Á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá fundi fulltrúa Vestmannaeyjabæjar með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hafa engin önnur viðbrögð komið frá ráðuneytinu við erindi bæjarins en að svarið berist á næstu dögum

9.September'20 | 18:37

Samgöngur milli lands og Eyja eru í óvissu vegna rekstarerfiðleika Herjólfs ohf. og vegna þess að ekkert áætunarflug er lengur milli lands og Eyja.

Á fundi bæjarráðs í dag gerði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri grein fyrir samtölum sem bæjarfulltrúar hafa átt við samgönguráðherra, fjármálaráðherra og vegamálastjóra um stöðu samgangna til og frá Vestmannaeyjum. 

Þ.m.t. samtölum við ráðherra og vegamálastjóra um stöðu flugsamgangna eftir að flugfélagið Ernir ákvað á dögunum að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja og samtölum sem átt hafa sér stað vegna fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. og óvissu um sértekjur Herjólfs og fjárheimildir úr ríkissjóði til reksturs félagsins skv. þjónustusamningi.

Á dögunum átti bæjarstjórn góðan fund með þingmönnum Suðurkjördæmis um stöðuna bæði í flugi og á sjó. Þingmenn kjördæmisins tóku undir áhyggjur bæjarfulltrúa.

Kynntu lögfræðiálit er varðar greiðslur ríkisins vegna grunnvísitölu og öryggismönnunar Herjólfs

Í niðurstöðu bæjarráðs vegna málsins segir að þann 17. ágúst sl. átti bæjarráð fund með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. þar sem meðal annars var kynnt lögfræðiálit er varðar greiðslur ríkisins vegna grunnvísitölu og öryggismönnunar á skipinu. Á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá fundinum hafa engin önnur viðbrögð komið frá ráðuneytinu við erindi bæjarins en að svarið berist á næstu dögum og eru það mikil vonbrigði og ekki til þess fallið að draga úr óvissu fyrir framhaldinu.

Krefjast þess að reglulegum flugsamgöngum verði komið á eins fljótt og mögulegt er

Hvað varða ákvörðun flugfélagsins Ernis um að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá 4. september þá eru mikil vonbrigði fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum, bæði fyrir íbúa og atvinnulíf, að flugfélagið sjái sér ekki hag í því að halda fluginu áfram. Ljóst er að ríkið þarf að bregðast við stöðunni og liðka fyrir áframhaldandi flugsamgöngum við Vestmannaeyjar.

Sveitarfélagið hefur komið skýrt á framfæri sjónarmiðum sínum við ráðherra, þingmenn og vegamálastjóra, um mikilvægi þess að áætlanaflug sé til og frá Vestmannaeyjum og óskað eftir að ríkið og Vegagerðin leysi úr málinu fljótt og örugglega. Ríkið ber ábyrgð á að tryggja samgöngur á landinu. Vestmannaeyjabær gerir þá eðlilegu kröfu að reglulegum flugsamgöngum verði komið á að nýju eins fljótt og mögulegt er, segir að endingu í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.