Viðbúið að sjúkraflug aukist verulega

- með tilheyrandi aukakostnaði fyrir ríkissjóð

8.September'20 | 19:07
sjukrafl

Viðbúið er að sjúkraflug til Eyja aukist verulega þar sem áætlunarflugið er nú dottið út. Ljósmynd/TMS

Þegar áætlunarflug milli lands og eyja lagðist af koma upp allskyns vandamál, sem margir bæjarbúar leiða eðlilega ekki hugann að fyrr en á bjátar.

Til að mynda er nokkuð um að skjólstæðingar sjúkradeildarinnar í Vestmannaeyjum sem senda þarf til rannsókna eða meðferðar á Landspítalanum séu sendir í áætlunarflugi. Einnig eru sjúklingar reglulega fluttir til áframhaldandi meðferðar og eftirlits frá Reykjavík til Eyja með áætlunarflugi.

Hafsteinn Daníel Þorsteinsson, yfirlæknir á sjúkradeild HSU í Vestmannaeyjum segir að þetta ástand hafi umtalsverð áhrif á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Sjá einnig: Þurfa 10 milljónir á mánuði til að geta haldið úti Eyjaflugi

Hvert sjúkraflug kostar á sjöunda hundrað þúsund

Hann segir þó nokkuð algengt að sjúklingar fari á milli sjúkrastofnana í áætlunarflugi. Ástand þeirra sé þá nægilega gott til að ekki sé krafist sértæks sjúkraflugs en þeim ekki treyst í Herjólf. „Þeir fá þá fylgd á flugvöll á báðum stöðum.”

Hafsteinn segir að ekki liggi fyrir nákvæmar tölur um fjölda en þetta geti verið allt að 2-3 flug á mánuði og því hlaupið á fleiri tugum tilfella á ári. Það má því leiða líkum að því að í þessum tilfellum þurfa þá hér eftir að notast við sjúkraflugvélina til að koma þessum sjúklingum á milli staða. Þar kostar ferðin 600 - 700.000,- og álagið auk þess mikið nú þegar á sjúkravélina.

Þessu tengt: Tæplega 800 ferðir í sjúkraflugi á síðasta ári

Hefur áhrif á fleira tengt heilbrigðiskerfinu

Enn flugleysið hefur áhrif á fleira tengt heilbrigðiskerfinu. Til að mynda hefur verið notast við farþegavélarnar til flutnings á neyðarblóði. Hafsteinn segir að í Eyjum sé hægt að geyma mest 3-4 poka af blóði, Hann segir að stundum komi upp að viðbót þurfi - og er þessi leið lang oftast notuð.

Einnig bendir hann á að hér í Eyjum sé búsettur einstaklingur sem þarf að fara í blóðskilun á höfuðborgarsvæðið nokkrum sinnum í viku. „Sá einstaklingur hefur notast við flugið hingað til.”

Hafsteinn segir að farþegaflugið sé einnig nýtt í flutningi á ýmsu öðru. S.s blóðprufum sem ekki er hægt að rannsaka hér í Eyjum. Það hefur ekki tíðkast að senda þetta með Herjólfi. Þá segir Hafsteinn að hann búist við að þessi staða komi til með að gera það erfiðara um vik að fá hingað afleysingarfólk sem og sérfræðinga. Sér í lagi þegar að Landeyjahöfn lokast.

Hafsteinn Daníel hefur komið þessum áhyggjum áleiðs til yfirstjórnar HSU. 

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.