Mikið af slysum í spröngunni í sumar

30.Júlí'20 | 07:30
spranga_sjukrab

Síðasta slys í spröngunni var nú í vikunni. Ljósmynd/TMS

„Við höfum ekki nákvæmar tölur en við höfum tekið eftir töluverðum fjölda "sprönguslysa" í sumar, líklega milli 15-20 tilvik.” segir Davíð Egilsson, yfirlæknir heilsugæslunni í Vestmannaeyjum í samtali við Eyjar.net.

Aðspurður um hvort þetta séu fleiri slys nú en á undanförnum árum segir Davíð að hann hafi rætt þetta við þá starfsmenn sem hafa verið mest á bráðamóttökunni undanfarnar vikur og er það þeirra tilfinning að þetta séu fleiri slys en í venjulegu sumri. „Tilgátan er sú að það tengist auknum fjölda íslenskra ferðamanna í Eyjum. Til að fá það á hreint þyrfti þó að leggjast í smá rannsóknarvinnu.”

Fólk þarf að vera upplýst um hættuna sem fylgir sprangi og þekkja takmörk sín

Hafa þetta verið alvarleg slys?

Því miður hafa verið a.m.k 2 slys sem hafa krafist aðgerðar vegna beinbrota síðustu vikur. Flest eru þó minniháttar; tognanir og minni áverkar, en einnig beinbrot. Við sjáum að þetta er fyrst og fremst fullorðið fólk sem er að fá þessa verri áverka, frekar minniháttar meiðsl hjá krökkunum.

Hvað er hægt að gera til að reyna að sporna við því að fólk slasi sig í spröngunni?

Ég segi stundum að eina leiðin til að losna við íþróttameiðsl sé að sleppa því að stunda íþróttir. En lífið er víst ekki svo einfalt. Fyrst og fremst þarf fólk að vera upplýst um hættuna sem fylgir sprangi og þekkja takmörk sín. Það þarf talsverðan styrk og snerpu til að spranga og Það þarf ekki fall úr mikilli hæð fyrir fullorðinn einstakling til að hljóta slæman áverka. Eins er líklegra öruggara að hafa einhvern vanann með sér til að sýna handbrögðin og leiðbeina.  

Gera ráð fyrir erilsamri helgi

Hvernig verður málum háttað á heilsugæslunni um verslunarmannahelgina. Verður bætt við mannskap?

Fyrir Þjóðhátíð er viðbúnaður aukinn í samvinnu við ÍBV og að hluta til kostaður af félaginu. Þar sem Þjóðhátíðinni í ár hefur verið aflýst þýðir það töluvert minni viðbúnað á eyjunni yfir komandi verslunarmannahelgi en á venjulegri Þjóðhátíð. Við gerum þó ráð fyrir erilsamri helgi og bætum í hjúkrunarmönnun og dreifum álaginu á fleiri lækna en á venjulegri helgi.  

Þá er rétt að minna á að við slys eða veikindi þá skal hafa samband við 1700 eða 112 í neyðartilfellum. Aðgangur inn á sjúkrahúsið og heilsugæsluna verður takmarkaður um helgina og ekki ætlast til að fólk mæti beint á heilsugæsluna án þess að hafa fyrst haft samband eftir þessum leiðum.  

Að endingu vill Davíð hvetja fólk til að njóta helgarinnar í faðmi fjölskyldunnar og passa upp á hvert annað.

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.