Arnar Pétursson skrifar:

Lífróður í ólgusjó verkfalla

17.Júlí'20 | 11:25
IMG_2102

Herjólfur. Ljósmynd/TMS

Alvarleg staða ríkir í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Herjólfur er okkar þjóðvegur og gegnir lykilhlutverki í samgöngum við Eyjar. 

Herjólfur er á sama tíma undirstaða ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum og stjórn Herjólfs gerir ráð fyrir ákveðnum fjölda ferðamanna í sínum rekstraráætlunum. Rétt eins og hótel, veitingastaðir, verslanir og önnur fyrirtæki sem hafa lifibrauð sitt af þjónustu við ferðamenn sem heimsækja Vestmannaeyjar rær Herjólfur ohf. lífróður. Forsendur rekstrarins eru brostnar, eigið fé félagsins uppurið og í vor var staðan orðin þannig að án aðkomu Vegagerðarinnar og stuðnings úr neyðarsjóði fjármálaráðuneytisins hefði aldrei verið hægt að halda úti áætlun með sex ferðum daglega í sumar.

En félagið lifir ekki af þessa fordæmalausu tíma án frekari stuðnings ríkisvaldsins. Taprekstur á þessu ári verður 350-400 m.kr. ef spár ganga eftir og nauðsynlegt að ríkisvaldið komi með frekari framlög umfram þær 650 m.kr. sem kveðið er á um í þjónustusamningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar.

Ólíkt mörgum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum sem eiga í miklum fjárhagserfiðleikum og hafa flest neyðst til að segja upp starfsfólki, lækka laun eða breyta vinnuskipulagi hefur Herjólfur ohf. ekki gripið til slíkra aðgerða. Í ferðaþjónustunni, sem rær lífróður, er Herjólfur ohf. eina fyrirtæki sem stendur í verkfallsátökum við Sjómannafélag Íslands (SÍ)  sem krefst þess að vinnumánuður verði styttur um 25% án launaskerðingar, þ.e. í stað 20 daga verði 15 unnir fyrir sömu laun.  

Heildarútgjöld Herjólfs ohf. á þessu ári eru áætluð 1.400 m.kr. Stærsti hluti útgjalda eru laun og launatengd gjöld, rúmar 700 m.kr. Krafa SÍ um 15 vinnudaga í stað 20 á sömu launum kostar félagið 175 m.kr. ef gert er ráð fyrir að sama gangi yfir alla starfsmenn um borð. Ef öllum kröfum SÍ yrði mætt yrði útgjaldaaukningin yfir 200 m.kr. Augljóst er að það gengur ekki. Forsendubrest á þjónustusamningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar, og bætur vegna hans,  má ræða við ríkisvaldið en bætur vegna launahækkana langt umfram það sem um hefur samist á almennum vinnumarkaði verða torsóttar.

Þjónustuskerðing með fækkun ferða og hækkun fargjalda eru afarkostir sem ekki er hægt að sætta sig við enda er þjóðvegurinn okkar nú þegar lokaður hluta úr sólarhring. 

Öllum undirmönnum á Herjólfi hefur verið boðinn sambærilegur kjarasamningur og samþykktur hefur verið af sjómannafélaginu Jötni. Allir félagsmenn SÍ hafa fengið greitt samkvæmt þeim samningi og fengið launahækkanir samkvæmt honum. Sá kjarasamningur byggir á Lífskjarasamningnum sem skrifað var undir í apríl 2019. Hann er yfirskrift þeirra fjölmörgu samninga og aðgerða sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld sammæltust um fyrir komandi ár  og hefur þegar sannað gildi sitt með því að skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum og stöðugu verðlagi . Lífskjarasamningurinn hefur verið samþykktur í langflestum stéttarfélögum, og í öllum félögum verkafólks, með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Hann nær nú til 152 þúsund starfsmanna sem starfa samkvæmt 220 kjarasamningum, þar af 111 þúsund á almennum vinnumarkaði og 41 þúsund hjá ríki og sveitarfélögum.

Fimmtudaginn 9. júlí var samninganefnd SÍ boðinn þessi sami kjarasamningur og hún beðin um að kynna hann fyrir sínum félagsmönnum. Því boði var hafnað.

Ríkissáttasemjari, sem síðast var í sambandi við deiluaðila í gær (fimmtudaginn 16.07.2020), telur ekki ástæðu til að halda formlega fundi eins og er þar sem SÍ heldur fast í allar sínar kröfur. Þar er efst á blaði krafan um að vinnumánuður verði styttur um 25% án launaskerðingar.

Ég hvet félagsmenn SÍ sem starfa á Herjólfi að kynna sér kjarasamninginn sem þeim stendur til boða og er í samræmi við kjarasamning sem þorri launamanna á Íslandi hefur samþykkt. 

 

Arnar Pétursson

 

Höfundur er formaður stjórnar Herjólfs ohf.

Tags

Herjólfur

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...