Sigurður Hjörtur Kristjánsson:

COVID-19 faraldurinn sýnir mikilvægi þess að hafa öflugar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni

18.Júní'20 | 09:45
hjortur_kr

Sigurður Hjörtur Kristjánsson

Af þeim 105 sem veiktust af COVID-19 í Vestmannaeyjum lögðust aðeins þrír á sjúkrahús. Enginn þurfti á gjörgæslu. Framkvæmdastjóri lækninga segir fjarlækningar ekki eiga að leysa landsbyggðarsjúkrahúsin og heilsugæsluna af hólmi heldur nýtast til að styrkja þjónustu þeirra.

COVID-19 faraldurinn sýnir hvað það er mikilvægt að hafa öflugar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Þetta segir Sigurður Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi í ítarlegu viðtali í nýjasta Læknablaðinu. Hjörtur var endurráðinn framkvæmdastjóri til 5 ára síðastliðið haust.

„Erfiðara hefði verið að takast á við faraldurinn ef þessi mannauður og aðstaða hefðu ekki verið fyrir hendi,“ segir Hjörtur, sem hóf störf á á sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja 2001 eftir sérnám í lyf- og hjartalækningum á Íslandi og í Noregi. Síðan þá hefur stofnunin verið sameinuð heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) sem er nú með 10 starfsstöðvar í heilsugæslu.

„Haustið 2014 rann Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja saman við HSU og eftir að Hornafjörður kom að fullu inn nú eftir áramótin þá sinnir ein stofnun öllu heilbrigðisumdæmi Suðurlands,“ lýsir hann. Hvernig kemur sameining svæðisins út?

„Það eru kostir og gallar,“ segir Hjörtur. Hætta sé á að miðsóknaraflið verði of ríkjandi og jaðarinn útundan sé ekki gætt að því. „En að sama skapi myndast hagræðing,“ segir hann og nefnir til að mynda samninga um tölvukerfi, lyfjakaup og eflingu á ýmsum faglegum þáttum.

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að skýr stefna liggi fyrir um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. „Það er mjög erfitt að fá gott fólk til skuldbinda sig til að vinna við aðstæður með óljósa framtíð.“

Heimsfaraldur í Eyjum

Kastljós fjölmiðla beindist að Vestmannaeyjum nú í kórónuveirufaraldrinum þegar upp kom fjöldi smita í Heimaey. „Fyrsta tilfellið greindist 15. mars,“ lýsir hann. „Á fyrstu 10 dögunum fórum við síðan hratt úr einu tilfelli í 51. Margir fóru á stuttum tíma annaðhvort í einangrun eða sóttkví.“ Þá þegar hafi verið búið að skipuleggja starfsemina og gera áætlanir.

„Við lagskiptum þjónustunni og hólfaskiptum aðgangi starfsfólks innan laga þar sem það var hægt. Við reyndum að hafa legudeildina afmarkaða með því að aðskilja starfsfólk.“ Það sama hafi gilt um heilsugæsluna. „Við tókum COVID- og COVID-grunsamleg vandamál út fyrir sviga,“ segir hann og lýsir því hvernig þeir sem stóðu vaktina hafi gert allt til að láta hlutina ganga.

„Menn unnu myrkranna á milli þarna í nokkrar vikur. Einn læknirinn okkar er á ónæmisbælandi lyfjum. Hann hélt samt ótrauður áfram, setti upp veirugrímu í febrúar og var með til skamms tíma,“ lýsir hann.

„Í nokkrar vikur sá hann að mestu leyti um vaktþjónustu fyrir önnur vandamál en öndunarfærasýkingar, á meðan hinir tveir föstu læknarnir í vaktlínunni sinntu COVID-tengdum málum; móttöku, vitjunum, sýnatöku og þess háttar. Í raun lagði allt starfsfólkið á sig aukið álag með ýmsum hætti. Mjög ánægjulegt var að sjá hvað allir voru samtaka í því að láta hlutina ganga.“

Enginn læknir veiktist af veirunni en einn fór í samtals mánaðarsóttkví vegna útsetningar utan stofnunar. Fimm starfsmenn, þar af þrír hjúkrunarfræðingar, smituðust og talsverður fjöldi var í sóttkví. Þá komust afleysingalæknar erlendis frá ekki í fyrirhugaðar afleysingar. Keyrt var á takmörkuðum mannafla sem þó var samhentur.

„Við urðum að bregðast við þessu en í 4-6 vikur var ansi mikið að gera hjá þeim sem eftir stóðu,“ segir hann. Hjálp kom einnig annars staðar frá. Þrír hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar komu af fastalandinu í tæpa viku og geislafræðingur úr Reykjavík leysti af í vikutíma.

„Reyndur lungnalæknir af Landspítala, sem var í leyfi þaðan, kom með stuttum fyrirvara inn í samtals tæpar tvær vikur og dekkaði sjúkrahúsvaktina, þar sem áður fyrirhuguð afleysing brást vegna ástandsins,“ segir hann.

„Við fórum að sinna fólki í mun meira mæli í gegnum síma og einhverju leyti með myndsímtölum og þar gátum við nýtt okkur starfsfólk sem var í sóttkví.“ Álag vegna annarra heilsufarsvandamála hafi minnkað af ýmsum sökum, sem hafi hjálpað til.

Hann segir að til að takast á við veiruna hafi HSU fengið lánaða gáma hjá Vestmannaeyjabæ og fyrirtækjum í bænum og spyrt við heilsugæsluna. Þar hafi öndunarfæra- og COVID-móttaka verið sett upp og þannig aðskilin annarri heilsugæslustarfsemi eins og hægt var. Eins hafi gámar verið notaðir við sýnatökur.

Erfitt hafi verið að vita hvert stefndi þegar tilfellin voru á stuttum tíma orðin 51. „Við urðum að takast á við vandann eins hratt og hægt var.“ Kraftur hafi verið settur í skimanir sem þó hafi í upphafi liðið fyrir að ekki voru til sýnapinnar og glös. Samstarf við Íslenska erfðagreiningu hafi hjálpað mikið til við að stöðva útbreiðsluna. Um 1500 einstaklingar voru skimaðir með sýnatöku dagana 2.-3. apríl og 33 smit greind.

„Eftir það hafa einungis greinst tveir jákvæðir. Báðir einkennalausir. Eftir 20. apríl hafa engin smit greinst í Vestmannaeyjum þrátt fyrir dugnað við sýnatökur.“ Af öllum smituðum voru einungis þrír lagðir inn á sjúkrahús og enginn á gjörgæslu.

Hjörtur segir að samstaða fólks í bænum hafi verið aðdáunarverð. „Samfélagið er með afmarkaða, þéttriðna og virka samsfélagsgerð sem skýrir ef til vill hvers vegna smitið fór svo hratt um.“ Svo spili tilviljanir inn í, en rétt eins og smit hafi ferðast hratt um hafi það með samhentu átaki verið stöðvað.

Allt viðtalið við Hjört má lesa hér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.