Njáll Ragnarsson skrifar:

Stór dagur fyrir lýðræðið í Vestmannaeyjum

12.Júní'20 | 08:35
IMG_2770

Greinarhöfundur í ræðustól á fundi bæjarstjórnar í gær. Ljósmynd/TMS

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var í gærkvöldi var til umræðu endurskoðuð samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar. Hljómar vafalaust ekki spennandi í eyrum allra en umræðan var engu að síður áhugavert og skemmtilegt!

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur verið skipuð 7 fulltrúum allt frá kosningum 1994 þegar bæjarfulltrúum var fækkað úr 9 í 7 en fyrir þann tíma höfðu bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Vestmannaeyja verið 9. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hversu margir fulltrúar sitja í sveitarstjórn en það skal þó það vera innan ákveðinna marka. Séu íbúar í sveitarfélagi á bilinu 2.000 – 9.999 skulu vera 7–11 aðalmenn í sveitarstjórn. Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum í lok fyrsta ársfjórðungs 2020 var 4.370 og fjölgar ár frá ári sem er mikið gleðiefni.

Til glöggvunar sýnir myndin hér að neðan fjölda íbúa við lok árs 2019 og fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í þeim sveitarfélögum þar sem íbúafjöldi er á því bili sem nefnt var hér að ofan, þ.e. 2.000 – 9.999 íbúar. Sömuleiðis má sjá í súluritinu hversu margir íbúar eru bak við hvern bæjarfulltrúa.

Í Vestmannaeyjum eru í dag 622 íbúar pr. bæjarfulltrúa en að meðaltali eru í þessum sveitarfélögum 466 íbúar á hvern fulltrúa. Skipuðu 9 fulltrúar bæjarstjórn Vestmannaeyja væru 483 íbúar á hvern bæjarfulltrúa sem er eftir sem áður fyrir ofan meðaltal þessara sveitarfélaga.

Fjölmörg rök hafa verið færð fyrir fjölgun bæjarfulltrúa og á fundi gærkvöldsins voru nokkur þeirra rakin. Til að mynda hefur Dr. Gunnar Helgi Kristinsson hefur gert viðamiklar rannsóknir á sveitarstjórnarstiginu og telur að fjölgun sveitarstjórnarfulltrúa sé almennt talið styrkja lýðræði á sveitarstjórnarstiginu. Fyrir því eru nefndar ýmsar ástæður, meðal annars að með fleiri fulltrúum sé meiri möguleiki á að endurspegla félagslega skiptingu og hugmyndir kjósenda. Sömuleiðis hafa rök verið færð fyrir því að fleiri fulltrúar skapi skilyrði fyrir nánara sambandi milli íbúa og sveitarstjórnarfólks.

Bent hefur verið á að fleiri bæjarfulltrúar séu hvati að fjölgun framboða og komi þannig í veg fyrir kerfi fárra en stórra flokka en slíkt póli­tískt lands­lag hefur mynd­ast hér á landi þó það hafi verið á undanhaldi á undanförnum árum í takt við þróun lýðræðisins. Sömuleiðis er ljóst að færri atkvæði í kosningum „falli dauð niður“ eftir því sem bæjarfulltrúum fjölgar við það að færri atkvæði þarf á bakvið hvern fulltrúa í sveitarstjórn. Fjölgun bæjarfulltrúa hefur það einnig í för með sér að rétt­ari mynd er gefin af vilja kjós­enda sem styrkir betra og sterkara lýð­ræði. 

Krafa nútímans er að kalla eftir sem breiðastri skírskotun á vettvangi stjórnmála, hvort sem um er að ræða samsetningu mismunandi aldurshópa, kynja, atvinnu, menntunar o.s.frv. Hugsanlega kæmu fram í sviðsljósið framboð sem markvisst eru stofnuð til að tryggja raddir ákveðinna hópa í bæjarstjórn, hópa sem í dag hafa ekki rödd.

Sveitarstjórnarstigið er lýðræðislegur vettvangur og er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ætlað að endurspegla vilja íbúa. Eftir sem íbúum í Vestmannaeyjum fjölgar og fjölbreytileikinn eykst í samfélaginu er mikilvægt að bæjarstjórn tryggi tækifæri allra til þess að láta rödd sína heyrast. Fjölgun bæjarfulltrúa styrkir lýðræðið í nærsamfélaginu. Tillagan er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og þeim reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.

Þess vegna bar ég upp við bæjarstjórn eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir, til viðbótar við þau drög sem liggja fyrir fundinum, breytingu á 1. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, þannig að kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn Vestmannaeyja fjölgi úr 7 í 9“.

Ég bauð bæjarstjórn að fresta tillögunni til næsta fundar til þess að geta rætt hana betur og mótað okkur skoðanir á henni en ekki var einhugur um það. Tillagan var samþykkt.

Þó svo að breytingin taki ekki gildi fyrr en um næstu bæjarstjórnarkosningar lít ég engu að síður svo á að gærdagurinn hafi verið stór dagur fyrir lýðræðið í Vestmannaeyjum!

 

Njáll Ragnarsson.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).