Ef við getum komið allri þessari starfsemi fyrir í þessum tveimur húsum er lausnin fundin

- vísar hann annars vegar til ráðhússins og hins vegar til Íslandsbankahússins sem Vestmannaeyjabær hyggst kaupa undir hluta bæjarskrifstofanna

2.Júní'20 | 15:45
IMG_1202

Njáll Ragnarsson

Talsverð umræða hefur skapast um framtíðarsýn Vestmannaeyjabæjar í húsnæðismálum. 

Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru umræður um kaup bæjarins á Íslandsbankahúsinu svokallaða. Málinu var frestað til að kynna mætti það betur. 

Eyjar.net sendi spurningar á Njál Ragnarsson, oddvita Eyjalistans og formann bæjarráðs um málið. Hann segir að nettóverðið á Íslandsbankafasteigninni séu 100 milljónir. Þá segir hann að eignin á annnari hæð hússins verði seld.

Þessu tengt: Bæjarskrifstofurnar í Íslandsbankahúsið?

Hvað varðar viðhald á umræddri húseign þá er ljóst að það þarf að skipta um þak. Áætlaður kostnaður við það eru 26 milljónir sem skiptist eftir eignarhlutum í húsinu.

Hægt að flytja inn með tiltölulega litlum tilkostnaði þar sem jarðhæðin er nánast tilbúin

Nú er stjórnsýsla Vestmannaeyjabæjar dreifð á þremur stöðum í bænum, með tilheyrandi óhagræði. Verður breyting á því með kaupum á Íslandsbankahúsinu?

Hugmyndin með kaupum á kjallara, jarðhæð og hluta annarrar hæðar í Íslandsbanka er þangað geti flutt starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs eins og hún leggur sig. Í dag er sú starfsemi á Rauðagerði sem hentar illa undir slíka starfsemi bæði hvað varðar móttöku þjónustuþega eða aðbúnaðar fyrir starfsfólk.

Kosturinn við húsnæði Íslandsbanka er að hægt er að flytja inn með tiltölulega litlum tilkostnaði þar sem jarðhæðin er nánast tilbúin undir okkar starfsemi. Þegar öllu er á botninn hvolft þurfum við að koma starfseminni fyrir í hentugu húsnæði en við þurfum sömuleiðis að meta kostnað. Eins og þetta liggur fyrir var kostnaðurinn við þriðju hæðina í Fiskiðjunni áætlaður um 300 milljónir, þ.e. innréttingar og uppbygging þar. Það að auki var búið að ákveða að gera upp gamla ráðhúsið og var kostnaður við það áætlaður um 350 milljónir. Heildarpakkinn hefði því verið um 650 milljónir.

Með því að gera þetta svona sparast 200 – 250 milljónir

Með því að fara þá leið að færa stjórnsýslu- og fjármálasvið og umhverfis- og framkvæmdasvið í gamla Ráðhúsið og fjölskyldu- og fræðslusvið í annað húsnæði, t.a.m. húsnæði Íslandsbanka er áætlað að kostnaður við þá leið nemi á bilinu 400-450 m.kr. Með því að gera þetta svona sparast því 200 – 250 milljónir af sameiginlegum sjóðum bæjarbúa. Hvað varðar útgjöld úr bæjarsjóði finnst mér þetta skynsamlegra.

Við þessar breytingar losnar allt húsnæði Rauðagerðis og allt húsnæði umhverfis- og framkvæmdasviðs við höfnina. Við þetta skapast heilmikil tækifæri á að koma umræddum eignum í verð, eða ákveða um framtíðarskipan þessar svæðis með öðrum hætti.

Fallegasta bygging bæjarins og á sér merkilega sögu

Nú er búið að skrifa undir kaupsamning með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar um kaup Vestmannaeyjabæjar á húsnæði Íslandsbanka við Kirkjuveg. Eru þið að hugsa þessi kaup sem lausn á húsnæðisvanda sveitarfélagsins til frambúðar?

Ef þessi leið er farin sé ég fyrir mér þetta sem framtíðarlausn á húsnæðismálum bæjarskrifstofanna. Með þessu móti er starfsemin á tveimur stöðum, í Ráðhúsinu og í Íslandsbanka. Við það losna Rauðagerði og tæknisviðið við höfnina. Ég sé fyrir mér að taka Rauðagerði hreinlega í burtu og skipuleggja þar einbýlishúsalóðir á góðum stað.  

Í mínum huga er ráðhúsið við Stakkagerðistún fallegasta bygging bæjarins. Það á sér merkilega sögu og mér finnst nauðsynlegt að koma starfsemi í húsið að nýju. Það geta ekki öll sveitarfélög státað sig af því að eiga glæsilegt ráðhús, ekki einu sinni ráðhús. En við höfum tækifæri til þess að eiga ráðhús í staðinn fyrir að eiga bæjarskrifstofur. Það er stigmunur þar á.

Spennandi tímar framundan

Nú var Vestmannaeyjabæ gefið fágætissafn Ágústar Einarssonar fyrir nokkrum árum gegn því að það fengi veglegan sess í húsakynnum bæjarfélagsins. Forverar ykkar ákváðu að það safn fengi pláss í Ráðhúsinu. Verður það þar eða á það að fara annað?

Það er vel hægt að nota hluta rýmis ráðhússins fyrir merkilega muni í eigu bæjarins. Það er hreinlega ekki búið að klára hönnun á ráðhúsinu en þetta er alveg inni í  myndinni.

Ég er reyndar með ákveðnar hugmyndir um það hvernig við gætum með litlum tilkostnaði aukið notagildi safnahússins, þ.e. kjallarans til þess að opna á sýningar á verkum í eigu Vestmannaeyjabæjar. Bærinn er t.a.m. einn stærsti eigandi Kjarvalsverka á landinu utan Kjarvalsstaða. Auk þess á bærinn stórt og mikið myndlistasafn. Það er sorglegt að það sé ekki opið almenningi.

Aðalatriðið er að líf sé í þeim húsum sem eru í eigu bæjarins. Ég sé fyrir mér að með því að gera þetta svona verðum við með alla safnastarfsemi á einum stað, þ.e. Sagnheima, bókasafn, fágætissafn o.fl. Hægt væri að koma fyrir verönd fyrir sunnan safnahúsið þar sem hægt væri að fá sér kaffibolla á milli þess sem gestir njóta þeirra muna sem til sýnis eru í húsinu. Þetta eru framtíðarpælingar en vissulega er margt hægt að gera og það eru spennandi tímar framundan.

Selja aftur frá sér stærstan hluta annarar hæðar

Fram kom á fundi bæjarstjórnar að til standi að selja aftur hluta af annarri hæð Íslandsbankahússins til þriðja aðila. Er það rétt?

Já, gert er ráð fyrir því að húsráðendur á annarri hæð kaupi stærstan hluta hæðarinnar. Þannig verði nægt pláss á jarðhæð fyrir starfsemi fjölskyldu- og fræðslusviðs en á annarri hæðinni er gert ráð fyrir kaffistofu og starfsmannaaðstöðu þó það sé ekki ákveðið og í raun geti allt rúmast á jarðhæðinni.

Sjá einnig: Ákvörðun um húsakaup frestað

Skýr vilji allrar bæjarstjórnar að fækka húsnæði í eigu bæjarins

Hver er framtíðarsýn Vestmannaeyjabæjar í húsnæðismálum sveitarfélagsins?

Þegar við ræddum fjárhagsáætlun síðasta haust var það skýr vilji allrar bæjarstjórnar að fækka húsnæði í eigu bæjarins. Tónlistaskólinn, Þórsheimilið, Rauðagerði, gamla slökkvistöðin og tæknideildin eru allt hús sem koma til með að losna á næstu árum. Í öllum þessum húsum er starfsemi í dag en þegar að því kemur að þau losna þarf að ákveða hvað gert verður við öll þessi hús. Það eru fjöldi tækifæra sem leynast í þessum eignum fyrir áhugasama eða að eitthvað af þeim verði hreinlega tekin í burtu og svæði skipulögð upp á nýtt sbr. til dæmis Rauðagerði.

Mikið af ónotuðu húsnæði eða að losna á næstu misserum

Nú er talsvert af húsnæði bæjarins að losna vegna breytinga. Má þar nefna núverandi slökkvistöð, Tónlistarskólahúsnæðið, Þórsheimilið á veturnar og með kaupunum á Íslandsbanka bætist Rauðagerði við. (Fyrir var laust þriðja hæð Fiskiðjunnar og önnur hæð Miðstöðvarinnar) Er búið að ákveða hvað verður í öllu ofangreindu húsnæði?

Ég get bætt við skrifstofurými á hafnarsvæðinu undir tæknideildina sem færi upp í ráðhús.

Nei, formleg ákvörðun hefur ekki verið tekin. En ég er þeirrar skoðunar og ég veit að það er ekki deilt um það í bæjarstjórn að það er algerlega ástæðulaust fyrir bæinn að eiga eignir sem hann notar ekki. Þannig sé ég fyrir mér að við getum losað okkur við þessar eignir og e.t.v. komið einhverjum þeirra í verð.

Enn ekki endanlega ákveðið hvað fari inn í þriðju hæð Fiskiðjunnar

Gæti verið hugmynd að setja á laggirnar starfshóp á vegum Vestmannaeyjabæjar til að fara ofan í húsnæðismál bæjarfélagsins. Þar á ég við að meta húsnæðisþörf með tilliti til stjornsýslulegs hagræðis og rekstrarkostnaðar?

Nú liggur fyrir bæjarstjórn minnisblað um Íslandsbanka og Ráðhúsið og þá kosti sem eru í stöðunni fyrir skrifstofur Vestmannaeyjabæjar. Á milli funda gefst bæjarfulltrúum og öllum bæjarbúum kostur á því að meta fyrir sig framhaldið.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi 31. október að hætta við áform að fara á þriðju hæð Fiskiðjunnar og skoða frekar aðra kosti. Mér finnst mjög spennandi að byggja þar upp aðstöðu til frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi sem nýtur tengingarinnar við Þekkingasetur Vestmannaeyja á annarri hæðinni. Það er í mínum huga besta mögulega starfsemin á þessum stað, hvort sem um verður að ræða háskólasetur, Fab-lab eða hverja þá leið sem þar verður farin. Starfshópi á vegum Vestmannaeyjabæjar var falið að skoða þessa kosti og skilaði hópurinn af sér á dögunum. Framhaldið verður síðan ákveðið í samstarfi við Þekkingasetrið.

Aldrei fyllilega skilið þau rök að það sé eitthvað lykilatriði að allir starfsmenn séu á sama stað til þess að tryggja sem besta starfsemi

Telur þú rétt og hagkvæmt að hafa skrifstofur sveitarfelagsins allar undir sama þaki? 

Ég ætla bara að segja eins og er að ég hef aldrei fyllilega skilið þau rök að það sé eitthvað lykilatriði að allir starfsmenn séu á sama stað til þess að tryggja sem besta starfsemi. Sjálfur starfa ég hjá stofnun sem er staðsett á sex stöðum víðsvegar um landið. Mest vinn ég með manni sem staðsettur er á Hornafirði svo dæmi séu tekin. Þetta hamlar okkur ekki í okkar störfum heldur býður tækni nútímans upp á það að hægt sé að vinna störf nánast hvar sem er. Þannig sé ég ekki að félagsþjónusta og skipulagsfulltrúi þurfi að starfa hlið við hlið. Eða að bókarinn þurfi að vera með skrifstofu við hliðina á fjölmenningarfulltrúa. Nútíminn er þannig að allir eru aðgengilegir, hvar í heiminum sem þeir eru og hjá lítilli einingu eins og stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar er þessu ekkert öðruvísi farið.

Nýbygging er að mínu viti óþörf á meðan að við höfum aðra góða kosti í stöðunni

Hefur aldrei komið til tals að byggja nýtt húsnæði sem myndi uppfylla allar þarfir bæjaryfirvalda er kemur að aðstöðu fyrir stjórnsýsluna? 

Ég er ekki talsmaður þess að eyða miklum fjármunum í yfirbyggingu stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar. Nýbygging er að mínu viti óþörf á meðan að við höfum aðra góða kosti í stöðunni sem uppfylla kröfur nútímans. Og ef við getum komið allri þessari starfsemi fyrir í þessum tveimur húsum er lausnin fundin, segir Njáll Ragnarsson að lokum.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).