Málefni Hraunbúða tekin fyrir á aukafundi bæjarráðs

27.Maí'20 | 18:43
hraunbudir

Hraunbúðir. Ljósmynd/TMS

Boðað var til aukafundar bæjarráðs í dag til þess að leiðrétta rangar upplýsingar sem fram komu á bæjarráðsfundi á mánudaginn var, þann 25. maí, um samning Vestmannaeyjabæjar og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur Hraunbúða.

Frá árinu 2010 hefur Vestmannaeyjabær greitt rúmlega 500 m.kr. með rekstri Hraunbúða, sem lögum skv. ríkið ber ábyrgð á og ríkissjóður á að greiða fyrir. Kröfur ríkisins til þjónustunnar hafa aukist mikið undanfarin ár, en framlög til starfseminnar staðið í stað. Við þetta verður ekki unað og ósanngjarnt að skattgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á.

Fyrirhugaður er fundur bæjarráðs og heilbrigðisráðherra um málefni Hraunbúða. Gert er ráð fyrir að fundað verði í byrjun júní.

Gildir til 31. desember 2021

Hið rétta er að síðasti samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða var undirritaður 19. desember 2019 og gildir hann frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2021. Samningnum má segja upp í heild sinni eða einstökum rýmum með 6 mánaða fyrirvara, miðað við mánaðarmót, þó ekki fyrr en 6 mánuðum eftir undirritun. Uppsögn skal tilkynnt skriflega.

Beðist er velvirðingar á þessum mistökum sem skýrast af mannlegum mistökum.

Knúinn til að skila verkefni á rekstri Hraunbúða í hendur SÍ

Í niðurstöðu segir að bæjarráð samþykki samhljóða að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra um að bærinn segi umræddum samningi upp. Jafnframt verði sömu aðilum tilkynnt að Vestmannaeyjabær sjái sig knúinn til að skila verkefni á rekstri dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða í hendur SÍ og að stofnunin sjálf eða nýir rekstraraðilar taki við. Bæjarstjóra er falið að koma þessum upplýsingum til ráðherra eftir fund bæjarstjórnar þann 28. maí nk.

Niðurstaðan var samþykkt samhljóða

Mikilvægt að kjörnir fulltrúar geti treyst á að upplýsingar sem lagðar eru fram á fundum séu réttar

Í framhaldi bókaði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi D listans í ráðinu. Þar segir að hún harmi að þær upplýsingar sem lagðar voru fram á síðasta fundi bæjarráðs í umræddu máli hafi ekki verið réttar og að samþykkt hafi verið niðurstaða sem efnislega var röng og varð þess valdandi að boða þurfti til aukafundar bæjarráðs. Samkvæmt bæjarmálasamþykkt undirbýr formaður bæjarráðs í samráði við bæjarstjóra bæjarráðsfundi. Nauðsynlegt er að í veigamiklum málum sem lúta að hagsmunabaráttu sveitarfélagsins gagnvart ríkinu sé undirbúningur máls og þekking á samningum fullnægjandi. Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar geti treyst á að þær upplýsingar sem lagðar eru fram á fundum sveitarfélagsins séu réttar.

Ekki er gott að sjá hvernig svona upphlaup þjónar hagsmunum bæjarbúa

Í bókun frá Jónu Sigríði Guðmundsdóttur og Njáli Ragnarssyni fulltrúum E og H lista segir að það sé miður að þeirri góðu samstöðu og samvinnu flokka í bæjarráði og bæjarstjórn í Covid ástandinu í vetur virðist nú vera lokið úr því að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill gera stórmál úr því að verið sé að leiðrétta mannleg mistök sem voru gerð við vinnslu fundargerðar síðasta bæjarráðsfundar. Ekki er gott að sjá hvernig svona upphlaup þjónar hagsmunum bæjarbúa.

Segir að góðri samvinnu og samstarfi sé engan veginn lokið

Í bókun frá fulltrúa D listans segir að góðri samvinnu og samstarfi sé engan veginn lokið a.m.k. af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir aðfinnslur vegna stjórnsýslu síðasta fundar bæjarráðs. Eðlilegt hlýtur að þykja að bæjarfulltrúi bendi á að honum þykir miður hvernig fyrir þessu máli fór.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...