Starfshópur skilar af sér um framtíðarskipan 3. hæðar í Fiskiðju

24.Apríl'20 | 09:00
eyjar_fra_her

Starfshópurinn ákvað að leggja ekki til niðurnjörvaða tillögu um grunnstarfsemi, eða hvort ætti að takmarka hana við afmarkaða skilgreiningu, heldur kynna nokkur ólík tækifæri. Ljósmynd/TMS

Um miðjan janúar skipaði bæjarráð starfshóp um framtíðarskipan starfsemi 3. hæðar Fiskiðjuhússins. 

Starfshópurinn hefur nú lagt fyrir bæjarráð skilagrein hópsins þar sem dregnar eru saman tillögur og hugmyndir um slíka starfsemi í húsnæðinu og samantekt á vinnu hópsins.

Í starfshópinn voru skipuð þau Ásgeir Jónsson, Frosti Gíslason, Hólmfríður Sveinsdóttur, Tryggvi Hjaltason og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var Angantýr Einarsson fenginn til að starfa með hópnum.

Eyjar.net birtir hér samantektina sem sett er fram í skýrslunni.

Áskorun

Í Vestmannaeyjum er tiltölulega einhæft auðlindahagkerfi, en slík hagkerfi einkennast gjarnan af sveiflum og óstöðugleika. Á sama tíma stendur samfélagið í Eyjum frammi fyrir lýðfræðilegum áskorunum. Undanfarin ár hefur ungu fólki fækkað í Vestmannaeyjum og hefur fólksfjöldi fyrst og fremst viðhaldist í gegnum erlent vinnuafl, sem að nokkru leyti stefnir ekki á langtímaviðveru í Vestmannaeyjum og gæti því horfið hratt ef slaki kemur í hagkerfið.

Eitt öflugasta vopnið til að sporna við þessari þróun er að fjölga frumkvöðlum í Vestmannaeyjum, þ.e. fjölga einstaklingum sem eru tilbúnir til að taka áhættu á nýjum sviðum og byggja upp nýja langtímagetu í samfélaginu. Til þess að svo geti orðið þarf að hrinda af stað verkefni sem miðar að því að lækka aðgangsþröskulda að aðstöðu að slíkri starfsemi og hvetja einstaklinga til að stunda frumkvöðlastarf og nýsköpun í Eyjum.

Tækifæri

Vestmannaeyjar hafa nær öll tækifæri til að blómleg frumkvöðlastarfsemi geti þrifist. Ágætur aðgangur er að fjármagni, bæjarstjórnin er jákvæð og leitandi að uppbyggingu nýrra verkefna, menningin er afreksdrifin og frumkvöðlahagstæð, Eyjan er barnvæn, mikil nálægð er við náttúru, hagstætt húsnæðisverð er í Eyjum m.v. ýmis önnur svæði á landinu, stuðningur og jákvæðni er í samfélaginu og svona mætti áfram telja.

Annar lykilstyrkleiki er að svo virðist vera sem stór hluti brottfluttra Eyjamanna vilji flytja heim ef efnahagslegur grundvöllur og atvinnutækifæri væru til staðar.

Það er því kröftugt tækifæri til að fjárfesta og stilla upp sóknarleik til að byggja upp ný fyrirtæki í Vestmannaeyjum á grunni hugvits. Fjárfesting í hugviti endist lengur en fjárfesting í fasteignum og skilar meiri verðmætasköpun í litlum samfélögum, bæði til skemmri og lengri tíma.

Starfshópur um framtíðarskipan 3. hæðar Fiskiðjuhússins hefur verið að störfum síðan snemma á þessu ári og velt fyrir sér hugsanlegri nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í aðstöðunni. Hópurinn leggur til þrjár mögulegar sviðsmyndir um nýtingu húsnæðisins og eftirfarandi áherslur í þeirri vinnu sem er framundan. Nánari útlistun á vinnu og tillögum hópsins er að finna í kafla 2. Niðurstöður.

Sviðsmynd 1: Áhersla á frumkvöðla (meiri áhætta)

Áhersla á frumkvöðla og smærri fyrirtæki. Framlag Vestmannaeyjabæjar verður uppbygging og framboð húsnæðis, niðurgreiðsla aðstöðugjalda og þjónusta við frumkvöðla og smærri fyrirtæki. Tryggja sem minnsta mótstöðu við að stofna fyrirtæki. Aðstaða lykilatriði og undir viðskiptavinum komið hvernig fyrirtæki byggjast upp.

Sviðsmynd 2: Áhersla á núverandi styrkleika (minni áhætta)

Vestmannaeyjabær beiti sér fyrir því að draga að borðinu fyrirtæki og fjármagn, sem nú þegar er til staðar í samfélaginu, sem og opinbera aðila. Bærinn leigi út húsnæði til fyrirtækja sem þegar eru í rekstri og hvetji til nýsköpunar sem byggir á þeim styrkleikum og starfsemi sem nú er að finna í samfélaginu, með það markmið að búa til nýjar víddir og tækifæri fyrir þann iðnað sem byggja á sérfræðiþekkingu og aðgangi að hráefnum. 5

Sviðsmynd 3: Blönduð leið frumkvöðla og fyrirtækja sem eru nú þegar í rekstri í Vestmannaeyjum

Fara milliveg og blanda saman sviðsmyndum 1 og 2. Festa ákveðinn rekstur í sessi til þess að geta með markvissum hætti fjárfest í aðstöðu og þjónustu við frumkvöðla, án þess að þurfa einungis að stóla á það. Kosturinn er að dreifa áhættu, en ókosturinn er hugsanlega að vöxtur eins hlutans gæti verið á kostnað hins. Hér væri einnig kostur að ólíkir aðilar kæmu saman og myndu deila ólíkri reynslu og sýn á hlutina sem hefðu í för með sér samlegðaráhrif og nýsköpun ólíkra aðila.

Áherslur

Starfshópurinn telur mikilvægt að eftirfarandi áherslur séu hafðar að leiðarljósi við ákvarðanatöku og framkvæmd:

  • Sterkur leiðtogi; lykilatriði er að finna sterkan og hæfan leiðtoga til að stýra verkefninu, efla frumkvöðlamenningu og tengslamyndun, veita innsýn og þjónusta þá starfsemi.
  • Fagleg stjórn; skipuð fag- og hagsmunaaðilum, svo sem frá Vestmannaeyjabæ, atvinnulífinu og rannsóknarstofnunum.
  • Ný sýn; að starfsemin á 3.hæðinni sé ekki einungis framlenging á núverandi (og mikilvæga) starfi Þekkingarsetursins, þ.e.a.s. að núverandi þörf ÞSV fyrir aukið húsnæði vegi ekki þyngra og takmarki þannig þróunarmöguleika frumkvöðlastarfsemi
  • Skipuleggja og greina tækjakaup vel; lögð verði áhersla á vel hannað húsnæði með góðri aðstöðu fyrir nútímalega kröfur, svo sem fundaraðstöðu fyrir stóra og litla fundi, sem og fjarfundi. Fjárfest verði í tækjabúniði sem styður við þróunar- og frumkvöðlastarfsemi.
  • Taka frumkvæðið; framundan eru miklar breytingar vegna þeirra þrenginga sem COVID19 hefur haft í för með sér, bæði með meiri áherslu á fjarvinnu, sem er sóknartækifæri fyrir landsbyggðina, og meiri áherslu á nýsköpun. Þessar breytingar, ásamt áherslubreytingum ríkisins með lokun Nýsköpunarmiðstöðvar, skapar ákveðna óvissu, en veitir einnig tækifæri til að fjármagna og reka verkefni líkt og þetta, með skýrri áætlun um næstu skref. Þar fyrir utan boðaði ríkisstjórnin aðgerðarpakka í kjölfar óveðursins sem reið yfir Ísland í desember 2019 upp á 900 milljarða króna næstu 10 árin til að tryggja öryggi og jöfn tækifæri fólks um allt land.
  • Markaðssetning; Það eru margir styrkleikar í Vestmannaeyjum og með markvissum stuðningi fyrir frumkvöðlastarf er ekki ólíklegt að einstaklingar utan og innan hagkerfisins séu reiðubúnir að hefja nýsköpun í Eyjum. Slíkt gerist þó ekki sjálfkrafa þó að flott fyrirkomulag verði sett upp. Mikilvægt er að markaðssetja tækifærin og möguleikana sem boðið verður upp á í Eyjum.
  • Öflugt samstarf; Góð samskipti og öflugir samstarfsaðilar eru lykilforsenda þess að útfærsla á frumkvöðlasókn í Eyjahagkerfinu gangi vel. Heilmikill styrkur fælist í því að eiga samstarf við ríkið og kortleggja aðra mögulega samstarfsaðila, eins og fyrirtæki í Eyjum, fjármögnunaraðila, hugsanlegar stofnanir og aðra rekstraraðilar sem gætu aukið þekkingu eða eflt tengsl.

Þar sem ekki liggja fyrir nánari skilgreindar forsendur um stærð starfseminnar, mögulegir samstarfsfletir sveitarfélagsins, ríkisins og atvinnulífsins, upphæðir fjárheimilda og fjármögnun starfseminnar, eða önnur ákveðin afmörkun, vill starfshópurinn leggja áherslu á þrjár sviðsmyndir og tiltölulega fjölbreytta starfsemi. Starfshópurinn ákvað að leggja ekki til niðurnjörvaða tillögu um grunnstarfsemi, eða hvort ætti að takmarka hana við afmarkaða skilgreiningu, heldur kynna nokkur ólík tækifæri. Áður en lengra er haldið um útfærslu einstakra hugmynda og samsetningu verkefna/starfa í aðstöðu 3. hæðar Fiskiðjunnar, telur hópurinn mikilvægt að Vestmannaeyjabær kanni áhuga fyrirtækja, stofnana og þekkingarsamfélagsins í bænum um samstarf á þessu sviði, ákveði fjármögnun og framlag til starfseminnar og myndi sér skoðun á því hvaða sviðsmyndir kæmu helst til greina. Með því væri einfaldara að stilla upp og útfæra einstakar hugmyndir sem og tegund, eðli og umfang starfseminnar. 

Skýrslan öll.

Bæjarráð þakkar starfshópnum fyrir skilagreinina og góða vinnu undanfarna mánuði og vísar skilagreininni til umræðu í bæjarstjórn.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).