Ítreka óánægju og áhyggjur vegna vinnulags starfshóps

30.Mars'20 | 10:15
hofn_yfir

Ljósmynd/TMS

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri lagði fyrir bæjarráð í síðustu viku umsögn Vestmannaeyjabæjar til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um vinnu við endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda.

Segir vinnubrögð fyrir neðan allar hellur

Í umsögn bæjarstjóra til ráðherra kemur m.a. fram að sjávarútvegur sé undirstöðuatvinnuvegur í Vestmannaeyjum. Frá upphafi byggðar í Eyjum hefur sjávarútvegur sem atvinnugrein skipt samfélag og atvinnulíf mestu máli. Aðrar atvinnugreinar í Eyjum eru gríðarlega háðar sjávarútveginum. Segja má að hagkerfið í Eyjum sveiflast með gengi sjávarútvegsins.  Vestmannaeyjabær er stærsti útgerðarbær landsins hvað aflaheimildir varðar.

Þrátt fyrir þá staðreynd, þá lítur ANR ekki á Vestmannaeyjabæ sem einn af helstu hagsmunaðilum varðandi endurskoðun á 5,3% veiðiheimildunum. Það kristallaðist best í því að ANR óskaði eftir því með formlegum hætti við helstu hagsmunaðila (skilgreinda af ANR) að þeir myndu koma fram með ábendingar varðandi skýrslu starfshópsins.  Hvorki Vestmannaeyjabæ né SASS var boðið að bregðast við skýrslunni.  Eru þessi vinnubrögð fyrir neðan allar hellur og er enn ein birtingarmynd samráðsleysisins. 

Fyrirtæki í sjávarútvegi í Eyjum hafa lent í ýmsum áföllum á síðustu árum

Vestmannaeyjabær telur að þau vinnubrögð sem hafa hingað til verið viðhöfð varðandi vinnu starfshópsins séu með öllu ólíðandi.  Lítið sem ekkert samráð hefur verið viðhaft við endurskoðunina á málinu.

Vestmannaeyjabær telur að nauðsynlegt hefði verið að láta vinna mat á áhrifum og árangri fyrri úthlutana úr 5,3% aflaheimildunum.  Það er óskiljanlegt að hægt sé að leggja til breytingar þegar fyrri árangur er óþekktur. Í skýrslu starfshópsins er minnst á árangursmat á 5,3% veiðiheimildunum úr skýrslu frá 2017.  Þar er árangur sagður rýr.  Þær upplýsingar ættu að gefa tilefni til góðrar greiningar á stöðunni og mati á árangri – áður en aðgerðir eru lagðar til.

Hlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum í 5,3% veiðiheimildunum er einungis lítið brot af heildinni. Fyrirtæki í sjávarútvegi í Eyjum hafa lent í ýmsum áföllum á síðustu árum án þess að nokkrar bjargir hafi fallið til. Nærtækt er að tala um loðnubresti á árunum 2019 og 2020, auk viðvarandi aflabrests í humarveiðum. Haghafar í Vestmannaeyjum hafa þurft að glíma við afleiðingar af alvarlegum aflabrestum í þessum tveimur stofnum. Engar bætur hafa komið til vegna þessara aflabresta. 

Mótvægisaðgerðir þurfa að vera verulegar til að virka

Hugmyndir starfshópsins gætu að einhverju leyti bætt þann skaða sem aflabresturinn veldur á samfélag og atvinnulífið.   Þó er ljóst að sú hugmynd sem starfshópurinn setur fram með varasjóði vegna óvæntra áfalla mun einungis bæta minniháttar aflabresti.  Vestmannaeyjabær leggur til að vægi þessa þáttar í byggðaaðgerðum verði aukið til muna.  Í samfélagi eins og í Eyjum þar sem einhæfni í atvinnulífi er mikil og vægi sjávarútvegsins er hátt þá hafa áhrif ýmissa áfalla í sjávarútvegi haft mikil, alvarleg og varanleg áhrif. Mótvægisaðgerðir þurfa því að vera verulegar til að virka.

Til viðbótar við öflugri varasjóð vegna óvæntra áfalla þá telur Vestmannaeyjabær að veita eigi ráðherra heimild til að úthluta þeim útgerðum sem hafa orðið fyrir meiriháttar áföllum í einstökum tegundum (aflabrestir), óskert aflamark í öllum þeim tegundum sem viðkomandi útgerð fær úthlutað aflamark í.   Um tímabundna undanþágu yrði að ræða. Þannig yrðu viðkomandi útgerðir tímabundið undanþegnar 5,3% frádrættinum. Er þetta gert til að vega upp á móti meiriháttar áföllum vegna aflabresta sem útgerðirnar hafa orðið fyrir.

Að bíða í mörg ár eftir mati eru ekki góð vinnubrögð í nútíma stjórnkerfi

Þá kemur fram í umsögn bæjarstjóra að eitt meginmarkmið starfshópsins hafi verið að hámarka virði þeirra verðmæta sem felast í 5,3% veiðiheimildunum.  Það er algjörlega óljóst hvort hægt verði að ná þessu markmiði.  Engar upplýsingar, útskýringar eða útreikningar sýna fram á hvernig þetta markmið á að nást. Til að nálgast málið þá hefði verið hægt að leiða út tillögur starfshópsins og birta niðurstöðurnar í útreikningum og með sviðsmyndum.  Þá geta einstakir haghafar áttað sig á mögulegum áhrifum og afleiðingum tillagnanna. Slík framsetning hefði t.d. verið mjög upplýsandi fyrir sveitarfélögin í landinu.

Um leið og Vestmannaeyjabær fagnar auknum fyrirsjáanleika varðandi veiðiheimildirnar með 6 ára tímalengd, þá telur hann að nauðsynlegt sé, sem allra fyrst, að meta áhrif, afleiðingar og árangur af 5,3% veiðiheimildunum. Að bíða í mörg ár eftir mati eru ekki góð vinnubrögð í nútíma stjórnkerfi.  Sérstaklega þar sem jafn mikil verðmæti eru undir eins og í þessu tilviki.

Vestmannaeybær fer þess á leit við ráðherra að hann skoði alvarlega þær tillögur sem SASS sendi inn í bréfi til starfshópsins um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda, sérstaklega hluti varðandi greiningar og spurningar varðandi mat á árangri, segir í niðurlagi umsagnar bæjarstjóra til ráðherra.

Mikilvægt að sjávarútvegsráðherra sé meðvitaður um álit Vestmannaeyjabæjar

Í niðurstöðu bæjarráðs ítrekar bæjarráð óánægju og áhyggjur vegna vinnulags starfshópsins um endurskoðun 5,3% aflaheimildanna. Mikilvægt er að sjávarútvegsráðherra sé meðvitaður um álit Vestmannaeyjabæjar sem er einn af stærstu hagsmunaaðilum kerfisins.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.