Tvöfalt fall Sparisjóðsins

9.Janúar'20 | 07:52
sparisjodurinn_sighv_j

Ljósmynd/Sighvatur Jónsson

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 12. desember sl. var Landsbankinn hf. sýknaður af kröfum Vestmannaeyjabæjar, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Vinnslustöðvarinnar hf. Var stefnendum gert að greiða stefnda Landsbankanum kr. 6.000.000 í málskostnað.

Forsaga málsins

Forsaga málsins er sú að Fjármálaeftirlitið fékk skýrslu frá endurskoðenda Sparisjóðs Vestmannaeyja þann 19. mars 2015 þar sem fram kom að virðisrýrnun á útlánasafni SPV gæti numið 800 -1.100 milljónum kr. og þar með leitt til þess að eigið féð yrði uppurið. 

Rétt er að hafa huga í þessu sambandi að eigið fé Sparisjóðsins varð fyrst neikvætt árið 2010 og sjóðurinn þá endurfjármagnaður af Seðlabanka Íslands með því að afskrifaðar voru 787 milljónir, 310 milljónum breytt í víkjandi lán, 564 milljónir króna endurlánaðar til fimm ára og 555 miljónum var breytt í stofnfé. 

Á þessum tíma lögðu jafnframt Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin sjóðnum til nýtt fé. Tæpum 5 árum síðar var eigið fé Sparisjóðs Vestmannaeyja aftur uppurið. 

Ítrekaðar athugasemdir og ábendingar gerðar allt frá 2005 til 2010

Í dómi héraðsdóms er vikið að ástæðum þess að eigið fé sjóðsins varð neikvætt á árinu 2015. Ástæður þess voru þær að við mat á útlánum SPV kæmi fram virðisrýrnun að fjárhæð kr. 957 milljónir.  Leiddi það til þess að bókfært eigið fé varð 98 milljónir.  Því til viðbótar kom frádráttur eignarhluta SPV í fjármálafyrirtækjum og skatteign frá bókfærðu eigin fé. Leiddi þetta til þess að eiginfjárhlutfall varð neikvætt um 1.1%. 

Ennfremur kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að endurskoðendur SPV hafi með bréfi dags. 26. mars 2015 sent Fjármálaeftirlitinu tilkynningu samkvæmt 92. gr. laga nr. 161/2002 þar sem fram kom það mat endurskoðenda að verulegir ágallar væru í rekstri sjóðsins. Væru ágallarnir verulegir, óviðunandi og fælu í sér brot á útlánareglum sjóðsins, reglum um innheimtu og reglum um yfirferð framlags í afskriftarreikning, ónægt eftirlit með meðferð fjármuna sjóðsins og ófullnægjandi útlánaeftirlit, skráningu í kerfi sjóðsins og meðferð á frumskjölum.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna og sparisjóða er fjallað um athugasemdir innra eftirlits Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þar kemur fram að ítrekaðar athugasemdir og ábendingar eru gerðar allt frá 2005 til 2010 að of lítið af vanskilum væru í lögfræðiinnheimtu og skortur væri á verklagsreglum um meðferð vanskila og innheimtumála.

Samkomulag á milli tveggja fjármálafyrirtækja

En framangreindir stefnendur, Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin lögðu SPV til nýtt fé árið 2010 þannig að Lífeyrissjóður Vestmannaeyja lagði SPV til r. 142.586.000, Vestmannaeyjabær kr. 101.428.571 og Vinnslustöðin kr. 50.000.000. 

Við síðara fall SPV árið 2015 var gert samkomulag stjórnar SPV og Landsbankans um yfirtöku á sparisjóðnum.  Með því samkomulagi eignuðust m.a. stefnendur málsins hlutafé í Landsbankanum.  Nam verðmæti hlutfjár stefnanda í Landsbankanum þannig að Lífeyrissjóðurinn fékk kr. 49.228.357, Vestmannaeyjabær 33.838.087 og Vinnslustöðin kr. 16.680.748. 

Stefnendur töldu á sinn rétt gengið með samkomulaginu og freistuðu þess að fá hækkun á verðmæti eigin fjár SPV og þannig hækkun á hlutafé sínu í Landsbankanum þannig að Lífeyrissjóðurinn fór fram á kr. 21.635.294, Vestmannaeyjabær kr. 15.390.270 og Vinnslustöðin kr. 7.586.752.  Tóku þessar fjárhæðir mið af niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í málinu.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykavíkur var hins vegar sú að sýkna bæri Landsbankann af kröfum stefnenda.  Var sú niðurstaða m.a. rökstudd með því að um samkomulag hafi verið að ræða á milli tveggja fjármálafyrirtækja og hafi stjórn SPV ekki staðið höllum fæti gagnvart fulltrúum stefnda við mat á þeirri áhættu sem samkomulagið kynni að hafa í för með sér.  Þá hafi bág fjárhagsstaða SPV verið á almannavitorði dagana áður en samkomulagið var gert. 

Hver var í raun staða Sparisjóðs Vestmannaeyja árin 2007 og 2010?

Hefðu stefnendur sjálfir getað lagt SPV til nýtt fé sem þeim hafi ekki tekist. Þótti dóminum því ekki sýnt fram á að háttsemi stefnenda hafi verið óréttmæt, ósanngjörn eða óheiðarleg og ekki hafi verið brotið gegn góðum viðskiptaháttum.  Var Landsbankinn því sýknaður af öllum kröfum stefnendum og þeim gert að greiða honum kr. 6.000.000 í málskostnað.

Eftir situr þó að mati ritstjóra að gera nánari grein fyrir ástæðum virðisrýrnunar útlána SPV.  Hafa ber í huga alvarlega niðurstöðu endurskoðenda SPV sem og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis en þar kemur fram að stöðugar athugasemdir og ábendingar voru gerðar til stjórnar SPV allt frá árinu 2005 um m.a. um verklag vanskila- og innheimtumála. 

Því vakna upp spurningar hver var í raun staða Sparisjóðs Vestmannaeyja þegar að Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóðurinn og Vinnslustöðin lögðu sjóðnum til nýtt fé á árinu 2010. 

Þá mætti jafnframt velta sömu spurningu fyrir sér þegar að stofnfjáreigendur juku við stofnfé sjóðsins árið 2007. Miðað við það sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands sem og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þá hljóta slíkar spurningar að vakna.​

 

Hér má lesa dóm Héraðsdóms.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).