Vinna við atvinnustefnu sett í farveg

:: vilja virkja íbúa samfélagsins í vinnunni :: stefnt að því að atvinnustefna með mælanlegum markmiðum og tillögum um uppbyggingu og framtíðarsýn verði lögð fyrir bæjarráð í júní 2020

4.Október'19 | 05:40
IMG_0199-001

Ljósmynd/TMS

Á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag var umræða um atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar. Þar var lögð fram svohljóðandi tillaga:

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að óska eftir því við Þekkingarsetur Vestmannaeyja að móta tillögur að fyrirkomulagi stefnumótunarvinnu við gerð atvinnustefnu og leggja fyrir bæjarráð fyrir 19. október nk. Í framhaldi af því mun bæjarráð skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að kortleggja atvinnumál í Vestmannaeyjum og móta drög að atvinnustefnu fyrir Vestmannaeyjabæ þar sem sköpuð verða skilyrði fyrir blómlega atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum og eftirsóknarvert verði fyrir ný fyrirtæki að hefja þar starfsemi.

Lagt er til að Þekkingarsetur Vestmannaeyja haldi utan um þessa vinnu. Mikilvægt er að virkja íbúa samfélagsins í vinnunni og hluti af henni fari fram á fundum sem opnir eru fyrir þátttöku allra Vestmannaeyinga. Stefnt er að því að atvinnustefna með mælanlegum markmiðum og tillögum um uppbyggingu og framtíðarsýn verði lögð fyrir bæjarráð í júní 2020.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Mikilvægast að láta verkin tala

Í bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins vegna málsins segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt mikla áherslu á atvinnumál á undanförnum kjörtímabilum, og munu gera það áfram. Í þessum málaflokki eins og öðrum er mikilvægast að láta verkin tala. Uppbygging Fiskiðjunnar með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og stofnanna og nýju námi í Haftengdri nýsköpun hefur ýtt undir atvinnuþróun, þar liggja tækifæri til frekari sóknar.

Koma Merlin Entertainment til Vestmannaeyja hefur skapað bein og óbein störf ásamt því að auka möguleika og skapa frekari stoð undir vaxandi ferðaþjónustu. Með yfirtöku á rekstri Herjólfs hefur ferðum fjölgað og samgöngur við Eyjar batnað til muna, en slíkt er afar mikilvægt fyrir uppbyggingu atvinnulífs og skapar fjölmörg tækifæri til sóknar m.a. í ferðaþjónustu.

Með góðum rekstri Vestmannaeyjabæjar undanfarin kjörtímabil hefur skapast grundvöllur til mikilla framkvæmda sem hefur hjálpað atvinnulífinu. Bætt þjónusta m.a. við barnafólk, t.d. lægri gjaldskrár og bætt íþróttaaðstaða hefur síðan gert Vestmannaeyjar að eftirsóknarverðum stað fyrir fjölskyldufólk að búa á, og hefur íbúum sem stunda fjarvinnu farið fjölgandi undanfarin ár sem hefur leitt til þess að ný störf hafa flust til Eyja. Miklar fjárfestingar og aukin tækni í sjávarútveg, er góður grunnur til frekari sóknar og uppbyggingu í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Afar mikilvægt er að ekki sé slegið slöku við og að áfram sé skapaður jarðvegur fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að dafna í atvinnulífinu og að bæjarfélagið láti ekki deigan síga þegar kemur að baráttu fyrir bættum samgöngum sem eru alltaf mikilvægur þáttur þegar kemur að atvinnumálum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna allri umræðu um atvinnumál og munu áfram leggja áherslu á mikilvægi málaflokksins fyrir samfélagið og taka því undir tillöguna, segir í bókun minnihlutans.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).