Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs:

„Ég viðhafði orðalag sem ég er ekki stoltur af”

3.September'19 | 21:30
njall_r_litil

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans og formaður bæjarráðs tókust á í pontu á síðasta fundi bæjarstjórnar. Eyjar.net ræddi við þau bæði um orðaskipti þeirra, sem urðu býsna hvöss á kafla.

Njáll segir að umræðan hafi orðið snörp. „Ég viðhafði orðalag sem ég er ekki stoltur af, orð sem foreldrar banna börnum sínum að nota og ég hefði betur sleppt. Ég sé eftir því. Mér misbauð þessi atburðarrás.”

Reynt að gera þetta í eins mikilli samvinnu og samstarfi og hugsast getur

„Bæjarráð ræddi þetta fjórum sinnum; í óformlegu spjalli, á tveimur fundum og á símafundi með KPMG áður en óskað var eftir því við bæjarstjórn að hefja vinnu við að gera breytingar á bæjarmálasamþykkt. Það var reynt að gera þetta í eins mikilli samvinnu og samstarfi og hugsast getur. Og þegar til kastana kemur kannast fólk ekki við neitt óformlegt spjall. Þolinmæðin þraut þarna á fundinum sem varð til þess að ég lýsti því í atkvæðaskýringu að óformlegum samskiptum milli meiri og minnihluta væri lokið þar sem ekki sé hægt að treysta því að fólk muni á morgun það sem það segir í dag. Auðvitað er þetta sagt í hita leiksins en maður veltir þessu samt óhjákvæmilega fyrir sér.” segir Njáll og bætir við:

„Mér finnst sorglegt að staðan í bæjarpólitíkinni sé með þessum hætti. Við ættum að geta einbeitt okkur að því að starfa saman í vinnu okkar í þágu samfélagsins. En samvinna byggir á trausti sem því miður einkennir ekki störf bæjarstjórnar í dag.”

Sjá einnig: Allt er gott sem endar vel

Undrandi yfir heiftarlegum viðbrögðum

Hildur Sólveig Sigurðardóttir segist fyrst og fremst undrandi yfir heiftarlegum viðbrögðum formanns bæjarráðs vegna gagnrýni þeirra á vinnubrögðin í málinu.

„Það kom okkur á óvart að vinna við breytingar á bæjarmálasamþykktinni væri komin vel á veg en hún er í raun mikilvægasta skjal stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar eða okkar lög og reglur. Okkur þykir ekki í lagi að hefja slíka vinnu án þess að bæjarstjórn væri búin að taka ákvörðun um fara í breytingar á þessu mikilvæga skjali og hvað þá að fara í útkeypta þjónustu vegna þess. Sér í lagi þar sem nýlega var bæjaryfirvöldum send áminning frá sveitastjórnarráðuneytinu vegna úttektar á fiskiðjunni sem bæjarráði var óheimilt að hefja án staðfestingar bæjarstjórnar. Það er undarlegt að vera sakaður um formperrahátt af hálfu bæjarstjóra í ræðustól bæjarstjórnar þegar það er sannarlega hlutverk kjörinna fulltrúa að fylgja þeim reglum og lögum sem okkur eru sett.”

Formaður bæjarráðs brást trausti

„Eins er ólíðandi að verið sé að hafa uppi ósannindi og bera fólk fyrir orðum sem það aldrei sagði eða samþykkti. Að vísa í óformlegar ákvarðanir sem enginn okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kannast við að hafa tekið er óábyrgt og ekki til eftirbreytni. Eðlilega ættu slíkar ákvarðanir þegar og ef þær eru teknar að fara fram á formlegum fundi. 

Formaður bæjarráðs brást svo trausti undirritaðrar þegar hann braut siðareglur kjörinna fulltrúa og 29. grein bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar þegar hann vísaði í meint orð mín af lokuðum fundi bæjarráðs. Formaður getur ekki borið við vankunnáttu á slíkum reglum þar sem þær voru sérstaklega kynntar á sama fundi og verið var að ræða. Slíkar reglur eru til staðar m.a. til að koma í veg fyrir að hægt sé að færa ósannindi upp á einstaka kjörna fulltrúa eins og nú hefur verið gert.” segir oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Skortur á upplýsingum elur á tortryggni, efasemdum og vantrausti

Hún segir aðdróttanir í garð núverandi og fyrrverandi bæjarráðsfulltrúa um að þeir séu ómögulegir til samstarfs sem hafðar voru uppi á fundinum séu heldur ekki til að bæta samskipti, trúnað og traust milli kjörinna fulltrúa. „Gott upplýsingaflæði og góð samskipti eru lykilatriði í að byggja upp traust en skortur á upplýsingum elur á tortryggni, efasemdum og vantrausti. 

Munnsöfnuður og uppnefni voru viðhöfð í  ræðu formanns sem ég tel honum ekki til sóma en orð hans um að slíta óformlegum samskiptum komu mér verulega á óvart og til verulegra vonbrigða en hugsanlega í takt við þann skort á eðlilegri upplýsingagjöf sem við höfum verið að upplifa undanfarna mánuði.

Yfirlýsing formanns bæjarráðs í fjölmiðlum í dag þar sem hann stendur við yfirlýsinguna stingur einnig í stúf við bókun meirihluta frá síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem kemur fram að það sé einlægur vilji meirihluta bæjarstjórnar að eiga í sem bestum samskiptum við minnihluta bæjarstjórnar og að það sé á okkar ábyrgð að starfa saman sem kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins.” segir Hildur Sólveig.

Höfum ýmis úrræði og erum að hugsa næstu skref okkar

„Ég tel það ekki þjóna hagsmunum samfélagsins að ætla að skilja bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem er stærsta stjórnmálaaflið í Vestmannaeyjum utan við upplýsta umræðu um sveitarfélagið og stjórnun þess. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins halda að sjálfsögðu áfram ótrauð í störfum og  hagsmunabaráttu sinni fyrir Vestmannaeyjar þrátt fyrir orð formanns bæjarráðs og munu ekki láta sitt eftir liggja í því frekar en fyrri daginn. Við höfum ýmis úrræði og erum að hugsa næstu skref okkar, en þau felast m.a. í að óska oftar eftir upplýsingum þar sem við munum þá væntanlega ekki vera upplýst að fyrra bragði nema fyrir formlega fundi og þá eins að óska eftir fleiri fundum.” segir Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

Hér má sjá upptöku frá fundinum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).