Verklag vegna Fiskiðjuúttektar:

Ráðuneytið telur ekki tilefni til sérstakra aðgerða

- bæjarráð tekur tillit til þeirra ábendinga sem koma fram í svari ráðuneytisins um að um ágalla hafi verið að ræða

2.Júlí'19 | 14:09
IMG_2578

Úttekt var gerð á framkvæmdum við Fiskiðjuhúsið. Ljósmynd/TMS

Á fundi bæjarráðs í dag var tekið fyrir erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem fjallað var um ósk Helgu Kristínar Kolbeins, bæjarfulltrúa um úrskurð ráðuneytisins um hvort heimilt hafi verið að ráðast í úttekt á framkvæmdum við Fiskiðjuhúsið eftir að sú úttekt var samþykkt í bæjarráði með tveimur atkvæðum gegn einu. 

Snýr umrætt mál að því að þar sem ekki lág fyrir samþykki allra bæjarfulltrúanna þriggja eftir bæjarráðsfundinn, hafi bæjaryfirvöldum ekki verið heimilt að ráðast í gerð úttektarinnar fyrr en bæjarstjórn hafi fjallað um málið. Vildi Helga Kristín kanna hvort brotin hefðu verið lög og samþykktir með þessu og að ráðuneytið tæki það fyrir til skoðunar sem frumkvæðismál á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.

Mikilvægt er að bæta það sem betur má fara

Í niðurstöðu ráðsins segir að í bréfi ráðuneytisins komi fram að ekki er ágreiningur um að sú tillaga sem þetta mál snýr að rúmist innan fullnaðarafgreiðsluheimilda bæjarráðs. Við mat á því hvort heimilt hafi verið að hrinda umræddri ákvörðun í framkvæmd, án staðfestingar bæjarstjórnar, telur ráðuneytið það ekki í samræmi við orðalag sveitarstjórnarlaga og sambærilegs ákvæðis bæjarmálasaþykktar, þar sem mótatkvæði kom fram í bæjarráði. Hins vegar var ekki um viðamikla ákvörðun að ræða og telur ráðuneytið ekki tilefni til sérstakra aðgerða af sinni hálfu vegna þessa. 

Bæjarráð vill leggja áherslu á að fara að lögum og samþykktum og tekur tillit til þeirra ábendinga sem koma fram í svari ráðuneytisins um að um ágalla hafi verið að ræða. Mikilvægt er að bæta það sem betur má fara. 

Var ofangreint samþykkt með tveimur atkvæðum bæjarráðsmanna H- og E-lista gegn atkvæði bæjarráðsmanns D-lista. 

Segir úrskurðurinn áfellisdóm yfir stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar

Í bókun fulltrúa minnihlutans segir að afdráttarlaus úrskurður samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytis liggi nú fyrir eftir frumkvæðisskoðun ráðuneytisins á stjórnsýsluháttum Vestmannaeyjabæjar vegna úttektar á framkvæmdakostnaði við Fiskiðjuna.

Úrskurðurinn er áfellisdómur yfir stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt úrskurðinum var Vestmannaeyjabæ óheimilt að hrinda í framkvæmd úttekt á framkvæmdakostnaði við Fiskiðjuna áður en fundargerð bæjarráðs var staðfest í bæjarstjórn þar sem mótatkvæði gegn úttektinni kom fram í bæjarráði og gerðust bæjaryfirvöld þar með brotleg við 35. grein sveitarstjórnarlaga og 30. Grein bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar. 

Tregða bæjarfulltrúa H- og E-lista við að viðurkenna misgjörðir sínar í umræddu máli varð til þess að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu kvörtun til ráðuneytis sem að endingu sendi bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar fyrrnefndan úrskurð og umvöndun þar sem því er sérstaklega beint til Vestmannaeyjabæjar að fylgja framvegis sveitarstjórnarlögum. Ánægjulegt er að heyra eftirsjá og auðmýkt í bókun meirihluta bæjarráðs en

Reynsluleysi bæjarfulltrúa getur á engan hátt verið afsökun fyrir valdníðslu eða því að löglegir stjórnsýsluhættir séu vanvirtir. Framganga meirihlutans varð til þess að ekkert varð af eðlilegri lýðræðislegri umfjöllun um málið í bæjarstjórn, en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hugðust leggja fram breytingartillögu vegna málsins. Það reyndist ekki mögulegt þar sem málið var þá komið í farveg án lagalegra heimilda, segir jafnframt í bókun Hildar Sólveigar Sigurðardóttur. 

Kostnaður vegna úttektarinnar um 400 þúsund

Í bókun meirihlutans segir að það sé erfitt að sjá að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi uppskorið árangur erfiðis síns með umræddri ósk um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið meðhöndli afgreiðslu bæjaryfirvalda sem lögbrot. Þvert á móti telur ráðuneytið enga ástæðu til að hlutast frekar til um ágallann, enda um viðalítið mál að ræða sem samþykkt var hálfum mánuði síðar í bæjarstjórn. 

Vakin er athygli á tvennu: 

  1. Ákvörðun um framkvæmd úttektar á Fiskiðjunni hefði í sjálfu sér ekki þurft að bera undir bæjarráð. Kostnaður vegna úttektarinnar var um 400 þús. kr. og rúmast vel innan heimilda framkvæmdastjóra sveitarfélagsins um aðkeypta sérfræðiaðstoð. Hafa slík kaup á utanaðkomandi sérfræðiþjónustu tíðkast í gegnum tíðina án sérstakrar ákvörðunar bæjarráðs þar um. 
  2. Vakin er athygli á því að einungis hálfum mánuði eftir bæjarráðsfundinn staðfesti bæjarstjórn ákvörðun bæjarráðs um að fela KPMG að framkvæma úttektina. Málið snýr því um hvort formgallar hafi verið á meðferð þess. 

Það er sérstakt til þess að hugsa að fulltrúa Sjálfstæðisflokksins skuli vera svo umhugað um sveitarstjórnarlög, bæjarmálasamþykktir og álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á máli sem varðar svo litla fjárhæð og snýr að aðkeyptri þjónustu, svo stuttu eftir að sami flokkur hafi haft að engu lög frá Alþingi og alvarlegar athugasemdir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um álagningu fasteignaskatts í tíð þeirra. Ekki hafi eingöngu verið um formgalla að ræða í því tilviki, heldur meðvitað og kerfisbundið staðið að rangri álagningu skatts og álit ráðuneytisins, sem meira að segja hótaði endurálagningu, virt að vettugi, segir í bókun Njáls Ragnarssonar og Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur. 

Í trássi við samþykktir Vestmannaeyjabæjar og sveitarstjórnarlög

Í seinni bókun frá bæjaráðsmanni Sjálfstæðisflokksins segir að í bókun meirihluta bæjarráðs sé vísað í ákvörðun meirihluta Sjálfstæðismanna um ákvörðun sína um að fella niður fasteignagjöld á eldri borgara sem var unnin í góðri samvinnu við þáverandi minnihluta og virðing sannarlega borin fyrir lýðræðislegri umfjöllun í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í því dæmi sem hér um ræðir var ekki fyrir neinni samvinnu flokka að ræða heldur gekk meirihluti fram í trássi við samþykktir Vestmannaeyjabæjar og sveitarstjórnarlög. 

 

Erindi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).