Grímur Gíslason skrifar:

Aðeins um vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar gagnvart stjórn Herjólfs ohf.

25.Júní'19 | 16:10
IMG_1714

Nýr Herjólfur. Ljósmynd/TMS

Aðalfundur Herjólfs ohf. sem haldinn var í lok maí var athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Þar sýndi meirihluti bæjarstjórnar, sem aflaði sér fylgis með loforðum um bætta og betri stjórnsýslu, bætt vinnubrögð og afnám einkavinavæðingar, hugsanlega sitt rétta andlit opinberlega. 

Eðlileg og lögmæt stjórnsýsla var gjörsamlega sniðgengin, fullkominn viðvaningsháttur forystumanna bæjarins var opinberaður og framkoma forystumanna núverandi meirihluta í garð þeirra stjórnarmanna sem vikið var úr stjórn vægast sagt mjög sérstök og varla i anda þess sem að þau boðuðu fyrir síðustu kosningar.

Það er líka eftirtektarvert að leiða má líkum að því að einhverntímann hefði verið gasprað um einkavinavæðingu, þegar að litið er til hver var valinn til að taka við formennsku í stjórninni, en nánar verður fjallað um aðalfundinn, og það sem honum tengist, síðar.

Það er af mörgu að taka og efnið nægjanlegt í langa umfjöllun. Því er líklega rétt að skipta umfjöllun um efnið í nokkra pistla sem birtast munu á næstu dögum.

Hef ekki orðið var við annað en ánægju í Eyjum með okkar störf

Ég er nokkuð viss um að það er ekki almenn ánægja í Eyjum með þær ákvarðanir sem meirhluti bæjarstjórnar tók í aðdraganda og á aðalfundi Herjólfs ohf. um fyrirvaralausar breytingar á stjórn félagsins, amk ef miðað er við þau viðbrögð sem bæði ég og Lúðvík Bervinsson höfum orðið varir við í Eyjum, og reyndar ekki bara í Eyjum heldur hefur fólk víðsvegar að haft samband og lýst undrun á aðgerðinni.

Það eru örugglega einhverjir mjög ánægðir en ég hef skynjað andrúmsloftið í Eyjum á þann hátt að þessi ákvörðun oddvita meirihlutans hafi almennt ekki fallið í góðan jarðveg. Ég held að óhætt sé að segja að bæði ég og Lúðvík höfum fengið vel að finna það, að yfir höfuð hafi bæjarbúar verið ánægðir með okkar störf og þá stefnumótun varðandi siglingatíðni og verðlagningu sem stjórnin hafði mótað. Oddvitar meirihlutans Njáll Ragnarsson og Íris Róbertsdóttir voru greinilega ekki sammála þorra bæjarbúa í þessu efni, en samt er algerlega óvíst hver stefna þeirra er í samgöngumálum Vestmannaeyja að því er varðar Herjólf og rekstur hans.

Baldur og Konni gengnir aftur?

Engar upplýsingar liggja fyrir um hvað þau skötuhjú voru svo óánægð með að þau ákváðu að sparka mér og Lúðvík út úr stjórninni, án þess að hafa fyrir því að gera okkur grein fyrir því eða ræða málið við okkur áður, eftir tveggja ára þrotlaust starf okkar að þessu verkefni. Þegar litið er til baka þá læðast að manni hugsanir og hægt er að reyna að ímynda sér hvað hangir á spýtunni, en það verða auðvitað bara getgátur þar sem að ekkert hefur við okkur verið talað.

Miðað við það sem ég hef upplifað í þessu á liðnu ári, má draga þá ályktun að oddviti E-listans, Njáll, sé eins og tuskubrúða í höndum bæjarstjórans. Mér hefur á stundum komið í hug að þeir væru gengnir aftur félagarnir Baldur og Konni, sem þekktir voru á árum áður sem skemmtikraftar. Þar réði búktalarinn Baldur auðvitað öllum skoðunum, orðum og ákvörðunum brúðunnar, Konna, sem sat á læri hans og brosti framan í heiminn. Baldur stjórnaði svo öllu og talaði fyrir báða en auðvitað í gegnum Konna litla það sem Konni átti að segja,  þannig að allir héldu að Konni hefði skoðun á hlutunum.

Kannski hefur „Baldur“ viljað losna við Lúðvík úr stjórn Herjólfs en lét auðvitað „Konna“ um ákvörðunina, eða þannig!

Reynt að hafa pólitísk áhrif á ráðningar

Ég upplifði það í stjórnarsetu minni í stjórn Herjólfs ohf. frá síðustu kosningum að engin innistæða var fyrir öllum þeim orðum sem sögð voru um afnám einkavinavæðingar, opna og gagnsæja stjórnsýslu, faglegar ráðingar ofl.

Ljóst er að grímulaus pólitískur þrýstingur var viðhafður á stjórnina við ráðningar lykilstarfsmanna Herjófs ohf., sérhagsmunagæsla og einkavinavæðing sem á sér vart hliðstæðu á undanförun áratugum í Eyjum. Þar skiptu faglegheit engu en flokksmerkið öllu þegar kom að stjórnsýslu meintra riddara réttlætisins eins og það kynnti sig fyrir kosningar, þ.e. H-lista fólkið, sem var mjög gagnrýnið á slík vinnubrögð áður en þau komust sjálf til valda, en meira um það síðar.

Hagsmunir Eyjamanna í forgang var eina pólitíkin

Ég hélt í einfeldni minni að verkefnið að ná forræðinu á rekstri Herjólfs til Eyja með það að markmiði að bæta þjónustuna, lækka verð, auka siglingatíðni og hafa þarfir Eyjamanna og fyrirtækja í Eyjum í forgrunni, ekki síst ferðaþjónustunnar og þeirra sem sækja Eyjarnar heim gæti ekki orðið að einhverskonar pólitískum ágreiningi eða poti. Þannig var andinn í bæjarstjórn þegar að farið var af stað með verkefnið á síðasta kjörtímabili. Í mínum augum var eina pólitíkin sem til var í þeim efnum: Hagsmunir og þarfir Eyjamanna númer eitt, tvö og þrjú.

Það var í anda þeirrar stefnu sem  öll fráfarandi stjórn Herjólfs ohf., ef frá er talið örstutt tímabil undarlegra upphlaupa stjórnarmanna sem hlupu á brott þegar ekkert varð ágengt með pólitísku ráðningarnar.

Nú allt í einu í aðdraganda aðalfundar var þetta starf að bættum samgöngum við Eyjar svo gert að rammpólitísku bitbeini af oddvitum meirihlutans og beita þurfti leynimakki og einkavinavæðingarsjónarmiðum til að gera breytingar á stjórninni án nokkurs samráðs. Hvað liggur þar á bak við er erfitt að átta sig á en vert að velta því fyrir sér, en kannski verður því velt upp síðar.

Misskilningur á eðli og rekstri hlutafélaga

Misskilningur, eða fáviska bæjarstjóra, hvað varðar rekstur opinbers hlutafélags opinberaðist aftur og aftur á því tímabili sem ég sat í stjórn félagsins og afar undarleg túlkun bæjarstjóra á að öll ábyrgð á rekstri félagsins væri á herðum hennar og því þyrfti hún að vera með puttana í öllum ákvörðunum stjórnar Herjólfs ohf., bæði stórum og smáum – helst smáum því þar gat hún fótað sig betur. Hún átti erfiðara með stærri verkefnin.

Það er nú bara þannig að stjórnir hlutafélaga, hvort sem að þau eru ehf. eða ohf. bera ábyrgð á rekstri félaganna og verða að taka ákvarðanir í samræmi við það. Skuggastjórnun ábyrgðarlauss aðila, með enga þekkingu á rekstrinum getur ekki gengið enda samræmist slík háttsemi ekki lögum.  Það er líka augljóst að sá sem reynir að fjarstýra stjórn og ákvörðunum hennar mun ekki stíga fram og kalla eftir því að bera ábyrgð á því ef að stjórnin fer með reksturinn til fjandans. Þá verða stjórnarmenn örugglega kallaðir til ábyrgðar. En meira um það síðar.

Undarlega mikill samhljómur í málflutningi H-lista og Eimskipa

Mikil vinna var lögð í það verkefni að koma rekstri Herjólfs í hendur heimamanna. Markmiðið var það að heimamenn fengju forræði yfir rekstrinum og setja hagsmuni Eyjamanna og þeirra sem vilja sækja Eyjarnar heim fram yfir hagnaðarsjónarmið og þarfir flutningsaðilans. Þetta var tiltölulega einfalt en um leið forsenda þess, að mati þeirra sem að málunum komu, svo samfélagið geti keppt við önnur samfélög um fólk og fyrirtæki til framtíðar.

Það var ekki auðvelt verkefni að ná þessum rekstri úr höndum stórfyrirtækis sem beitti öllu sínu afli til að koma í veg fyrir þá breytingu sem síðar varð. Það hafðist með þrautseigju og samstöðu allra bæjarfulltrúa sem sátu í bæjarstjórn fyrir síðustu kosningar, hvort sem það voru bæjarfulltrúar sem sátu í meiri- eða minnihluta. Allir unnu þeir í sameiningu og samvinnu að þessu markmiði fyrir hönd bæjarins.

Það lá reyndar fyrir í síðustu kosningum að sá flokkur sem stofnaður var til að koma Írisi Róbertsdóttur til valda í bæjarmálum í Eyjum lagðist alfarið gegn þeirri vegferð sem hafin var varðandi rekstur Herjólfs. Ég hef óneitanlega velt því fyrir mér hvort að möguleiki sé á að rekstaraðili síðustu ára einhver hafi haft einhver áhrif í þeim efnum. Hver veit? Gæti verið að Eimskip hafi verið fjárhagslegur bakhjarl framboðs H-listans á einhvern hátt? Um það get ég ekkert fullyrt en sú spurning vaknar auðvitað í ljósi þess hvernig baráttan gegn því að koma rekstrinum undir ohf. í eigu Vestmannaeyjabæjar sló í takt með baráttu Eimskips gegn þessari breytingu.

Það vekur ekki síður athygli hversu ljúflega fulltrúar E-listans virðast hafa á þessu kjörtímabili  snúist á þessa sveif með H-listanum í þessu efni, sem öðrum. Amk virðast þeir ekki hafa spyrnt við fótum. Það er mjög athyglisvert og hefði örugglega kallað á umræðu hér á árum fyrr ef E-listinn, afsprengi verkalýðshreyfingarinnar, hefði gengið svona gersamlega í til liðs við sérhagsmunagæsluöflin að stórfyrirtækin jafnvel sleikja útum þegar þeirra er getið.

Það vakti því óskoraða athygli mína, og reyndar margra fleiri, að fljótlega eftir breytingar á stjórn var framkvæmdastjóri Sæferða komin í viðtal í útvarpinu þar sem að hann lýsti yfir að þeir biðu spenntir eftir að bjóða í reksturinn á Herjólfi eftir 2 ár. Ég veit ekki til þess að það hafi verið tekin nein ákvörðun tekin um það útboð og amk. vorum við ekki á þeirri leið sem áður sátum í stjórninni en kannski eru nýjir stjórnamenn á þeirri leið og Eimskip hugsar sér gott til glóðarinnar. Hver veit? En meira um það síðar.

„Að koma stjórninni heim“??

Ástæður fyrir breytingum á skipan stjórnar Herjólfs ohf., sem gefnar hafa verið á kaffistofum bæjarins (fyrrverandi stjórnarmönnum hafa ekki verið gefnar neinar skýringar) af þeim sem standa á bak við bæjarstjórann í þeirra ákvörðun sem hann tók fyrir oddvita meirihlutans hafa verið í ýmsum útgáfum. Flestar þær sem að ég hef heyrt halda hvorki vatni né vindi en skemmtilegust finnst mér þó skýringin á að markmiðið hafi verið; „að koma stjórninni heim“ hvað svo sem það þýðir, en ekki er ólíklegt að það verði tekið fyrir síðar.

Hér að ofan hefur verið tipplað á nokkrum punktum sem snúa að nýstárlegri sérhagsmunagæslu og einkavinavæðingu núverandi forystumanna meirihluta bæjarstjórnar, en það eru eflaust mun fleiri punktar sem má tína til og kannski detta þeir á blað einhverntímann á næstu dögum.

 

Grímur Gíslason

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.