Bæjarstjórn Vestmannaeyja:

Enn deilt um Fiskiðjuúttekt

15.Maí'19 | 06:46
fiskidja_2019_03_satur

Starfsemi er nú komin í stóran hluta Fiskiðjunar. Ljósmynd/TMS

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í síðustu viku voru til umræðu niðurstöður úttektar KPMG á framkvæmdunum við Fiskiðjuna. Þar bókuðu meiri- og minnihlutinn á víxl um málið.

Raunkostnaður var um 609 milljónir

Í bókun frá bæjarfulltrúum H- og E-lista segir að meginniðurstöður KPMG á framkvæmdunum við Fiskiðjuna séu þær að undirbúningur kostnaðaráætlunar hefði mátt vera markvissari, sem og framkvæmdaáætlun og áætlun um nýtingu hússins, þar sem dreginn hefði verið fram áætlaður kostnaður og áætlaðar tekjur í því skyni að undirbúa fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins á hverjum tíma. Auk þess hefði eftirlit með framvindu verkefnisins mátt vera markvissara þannig að tryggt hefði verið að bæjarstjórn hefði forsendur til að bregðast við frávikum frá fjárheimildum með samþykkt viðauka.

Þá liggur fyrir að þó nokkur frávik eru frá samþykktri fjárhagsáætlun ásamt viðaukum, eða allt að 54%. Fram kemur í minnisblaðinu að samtals nema fjárhagsáætlanir með viðaukum um framkvæmdir í Fiskiðjuhúsinu 574 m.kr. á árunum 2015-2018, en raunkostnaður var um 609 m.kr. á sama tímabili.

Meirihluti bæjarstjórnar vill leggja áherslu á að vandað verði til verks við undirbúning framkvæmda á vegum bæjarins og að bæjaryfirvöld bæti vinnubrögð og áætlanagerð þegar um fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. Hægt er að draga lærdóm af athugasemdum KPMG á framkvæmdum við Fiskiðjuna og hafa þær í huga við áætlanagerð í framtíðinni. Meginmarkmið með úttektinni var að draga lærdóm af þeim athugasemdum sem endurskoðandi bæjarins gerir og tryggja að bæjarstjórn sé vel upplýst um kostnað framkvæmda á vegum bæjarins. 

Segja ekki hægt að draga ályktanir né byggja framtíðarmarkmið á úttektinni

Í bókun frá minnihlutanum segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýni harðlega þau vinnubrögð sem höfð voru upp í þessu máli og gera eftirfarandi athugasemdir við umrædda úttekt á framkvæmdum við Fiskiðjuna. 

  1. Farið var af stað í úttektina áður en að samþykki bæjarstjórnar lá fyrir. Slík vinnubrögð eru í besta falli ólýðræðisleg en í versta falli ólögleg. 
  2. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vekja athygli á því að úttektaraðili tekur ekki með í útreikninga sína viðauka sem var samþykktur í bæjarráði þann 21. Desember árið 2016 upp á 37 milljónir í framkvæmdir við Fiskiðjuna. Samkvæmt þeim gögnum er heildarkostnaður við verkið 1,5 milljón undir fjárhagsáætlun eða rétt rúmum 0,2% undir fjárhagsáætlun, ekki 6,2% yfir líkt og kemur fram í niðurlagi úttektarinnar og ber því vitni um markvissa, nákvæma og góða áætlunargerð í jafn viðamiklu verkefni og uppbygging Fiskiðjureitsins hefur verið. 
  3. Í niðurlagi úttektarinnar segir að undirbúningur verksins og eftirlit hefði getað verið markvissara. Niðurstaða úttektarinnar er því ómælanleg, huglæg og þar með óvísindaleg, því er ekki hægt að draga ályktanir né byggja framtíðarmarkmið á henni. Úttektaraðilar taka fram að áætlun um nýtingu hússins hefði mátt vera markvissari en ræddu ekki við þá aðila sem höfðu forystu um stefnumótun verkefnisins og framkvæmd þess og þar með framtíðarnýtingu húsnæðisins. Það telja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verulega gagnrýnivert. 

Í annari bókun minnihlutans segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili hafi tekið rétta ákvörðun með því að leggjast gegn tillögu tveggja bæjarfulltrúa Eyjalistans sem á fundi bæjarstjórnar þann 17. febrúar 2015 lögðu til að ekki yrði farið í endurgerð Fiskiðjunnar. Í dag, rúmum fjórum árum síðar hefur Fiskiðjan verið endurgerð og í miðbænum risið glæsilegt húsnæði sem hýsir margvíslega fræðastarfsemi, atvinnustarfsemi, íbúðir og griðarstað hvala sem á sér engan líkan á jarðkringlunni. Ánægjulegt er að skammsýni Eyjalistans hafi ekki fengið að ráða för hvað þessi mál varðar. 

Það er með öllu móti óásættanlegt að núverandi meirihluti bæjarstjórnar hafi gengið fram í þessu máli líkt og raun ber vitni þar sem fjármunum sveitarfélagsins og dýrmætum tíma starfsmanna þess hefur verið sólundað. Í viðtölum við fjölmiðla, bókunum meirihluta og orðræðu á opinberum fundum hafa bæjarfulltrúar H- og E- lista kosið að sveipa einu mesta framfaraskrefi sveitarfélagsins undanfarinna ára, tortryggniskugga í stað þess að baða það þeim ljóma sem því sæmir. Heilindi og verk kjörinna fulltrúa, embættismanna og verktaka sveitarfélagsins voru því dregin í efa að fullkominni ósekju, segir jafnframt í bókun minnihlutans.

Aðkeypt sérfræðiþjónusta fyrir á bilinu 2,5-17,5 milljónir á ári á síðastliðinu kjörtímabili

Í framhaldinu kom bókun frá bæjarfulltrúm H- og E-lista þar sem segir að það verði að teljast í besta falli sérstakt að minnihluti bæjarstjórnar vilji ekki taka mark á niðurstöðum KPMG um það sem betur hefði mátt fara við áætlunargerð við framkvæmdir í Fiskiðjunni í stað þess að kasta rýrð á úttektina, sem endurskoðandi Vestmannaeyjabær vann. Úttektin er skoðun á verklagi en ekki mat á verkefninu sjálfu, enda er Fiskiðjuhúsið glæsilegt og komið með margþætt hlutverk í dag. 

Aðkeypt sérfræðiþjónusta í formi, úttekta, skýrslna, álits og ráðgjafar er nauðsynleg þegar um rekstur sveitarfélaga er að ræða, enda keypti Vestmannaeyjabær þess konar sérfræðiþjónustu fyrir á bilinu 2,5-17,5 milljónir á ári á síðastliðinu kjörtímabili. Það er eðlilegt að leita eftir óháðu mati, ráðgjöf eða sérfæðiþjónustu á árinu 2019 alveg eins og gert hefur verið hjá Vestmannaeyjabæ undanfarin kjörtímabil. 


Liður 6, umræða um úttekt á framkvæmdum var samþykktur með fjórum atkvæðum H- og E-lista gegn þremur atkvæðum D-lista. 

Hér má skoða umrædda úttekt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).