Eftir Karl Gauta Hjaltason

Úlfakreppa í Eyjum

2.Maí'19 | 10:57
karl_gauti_alth

Karl Gauti Hjaltason

Samgöngur við Vestmannaeyjar eru enn og aftur í úlfakreppu. Höfnin í Landeyjum hefur ekki nýst nema rúmlega helming ársins sökum sandburðar frá opnun hennar 2010. 

Nýsmíði Herjólfs er föst í Póllandi vegna lögfræðilegra þrætumála, sem ekki sér fyrir endann á. Milli lands og Eyja siglir 27 ára gamalt skip sem sífellt þarfnast meira viðhalds. Ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum blæðir hvern þann dag sem samgöngur þangað eru í þeim ólestri sem verið hefur í vor.

Reynsla Eyjamanna er að á meðan Herjólfur siglir í Þorlákshöfn hafi fáir ferðamenn áhuga á að sækja eyjarnar heim. Þeir leggi ekki á sig þriggja tíma siglingu til eyjanna þótt náttúrufegurðin þar sé einstök og íbúarnir gestrisnir. Um leið og Landeyjahöfn opnast fyllist bærinn af ferðafólki sem kaupir sér margháttaða þjónustu af heimamönnum.

Í vor hefur dýpkun Landeyjahafnar gengið afskaplega illa, sumpart vegna sjólags, en einnig virðist afkastagetan vera lítil. Þrátt fyrir ábendingar, m.a. bæjarstjórnar Vestmannaeyja, var samið við aðila um dýpkun sem hefur ekki yfir að ráða þeim tækjabúnaði sem dugir til verksins. Um þetta hefur bæjarstjórn ályktað og nú síðast munu þeir blíðviðrisdagar sem gáfust ekki allskostar hafa verið nýttir til dýpkunar. Bæjarstjórinn hefur gengið svo langt að fara fram á að fenginn verði annar aðili til að annast dýpkun, enda sé bæjarbúum haldið í gíslingu á meðan ekki sé siglt í Landeyjahöfn. Niðurstaðan er sú að enn (1. maí) er Landeyjahöfn ekki fær Herjólfi. Margir sjá eftir þeim aðila sem áður sinnti dýpkun og náði að vera mun sneggri við verkið og jafnvel að vetri til. Undirritaður tekur undir áhyggjur heimamanna að við svo búið verður ekki unað öllu lengur og finna verður dýpkunarskip sem dugir til verksins.

Annað mál er að höfnina sjálfa verður að laga svo sandburður við hana minnki og auðveldara og ódýrara verði um vik að halda henni opinni. Gera þarf rannsóknir á því hvernig það verður best gert.

Margir horfa til þess að lokið er smíði nýs Herjólfs og átti hann að hefja siglingar fyrir mánuði. Þar virðist þó vera komið babb í bátinn, ef nota má það orðalag, og hafa risið upp þrætur milli Vegagerðarinnar og pólsku skipasmíðastöðvarinnar sem ekki sér fyrir endann á. Þegar það skip kemur, sem reyndar mikil óvissa er um, þá binda menn vonir við að það geti siglt oftar í Landeyjahöfn en núverandi Herjólfur, þar sem það ristir töluvert grynnra en eldra skipið og sé því ekki eins bundið af sandburði á svæðinu. Einnig í því máli standa öll spjót á Vegagerðinni og mikilvægt að finna skjóta lausn.

Þrátt fyrir að einhverjir kunna að dæsa yfir síendurteknum umræðum um samgöngur við Vestmannaeyjar er hér hreinlega um lífsspursmál fyrir heimamenn að ræða og verður að ganga skjótt í það verk að koma samgöngumálum Eyjamanna í viðunandi horf. 

 

Karl Gauti Hjaltason

 

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).