Eftir Trausta Hjaltason
Nýr Herjólfur, ný tækifæri
Hverju eigum við von á?
3.Febrúar'19 | 15:35Nú styttist verulega í komu nýrrar ferju. Allir eru mjög spenntir enda samgöngur eitt það allra mikilvægasta fyrir okkar eyjasamfélag. Nýrri ferju fylgja ný tækifæri sem er kannski erfitt að átta sig á að fullu fyrr en hún verður farin að sanna gildi sitt og þjónustan verður farin að rúlla eins og hún á að gera.
Eflaust mun taka sinn tíma að slípa þetta allt saman til. En hverju eigum við von á? Hvar liggja tækifærin?
Tækifæri til frekari sóknar
Að hafa gamla Herjólf staðsettan í Vestmannaeyjum býður upp á ákveðin tækifæri bæði varðandi farþegaflutninga yfir háannatíma og ákveðna möguleika varðandi vöruflutninga, svo að ekki sé minnst á betri áreiðanleika varðandi varaferju.
Hvað mun lagast?
Stjórnhæfni skipsins
Er með því besta sem gerist segja hönnuðir skipsins, skipið er hannað til þess að búa yfir góðri stjórnhæfni til að geta brugðist skjótt við þegar siglt er til Landeyjahafnar. Það er gert til þess að auðveldara verði að sigla þangað. Það þýðir aukin tíðni ferða þangað og þar af leiðandi betri samgöngur.
Aukin tíðni ferða
Að byrja fyrr að sigla á morgnana og sigla seinna á kvöldin býður upp á fleiri möguleika fyrir atvinnulífið, ekki síst ferðaþjónustuna, íþróttalífið og aukin tíðni ferða þýðir auðvitað aukin lífsgæði fyrir heimamenn.
Meira pláss fyrir bíla
Að koma fleiri einkabílum og gámum í hverja ferð er augljóslega jákvætt.
Sæti fyrir alla
Betri sæti, nýjasta tækni í öllum búnaði þýðir auðvitað meiri þægindi þegar ferðast er með ferjunni.
Ekkert fyrirframgreitt afsláttarkort
Þegar Herjólfur ohf. tekur yfir reksturinn munu heimamenn ekki þurfa að kaupa sér fyrirframgreitt afsláttarkort á tugi þúsunda til þess að fá 40% afslátt. Nú munu heimamenn einfaldlega fá 50% afslátt strax þegar þeir kaupa sér miða.
App í símann
Þetta er enn í vinnslu skilst mér en það stendur til að bjóða notendum upp á app í símann þar sem hægt verður að bóka og gera allt sem tengist bókunum í skipið.
Sama verð í báðar hafnir
Ekki er langt síðan að það hafðist í gegn að greitt er Landeyjahafnargjald fyrir farþega þegar siglt er til Þorlákshafnar. Það er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir heimamenn og er eitt skref í rétta átt.
Meiri sveigjanleiki ferða
Það að Herjólfur ohf. fari með ferðina ætti að þýða að boðleiðir og ákvarðanataka er nær heimamönnum en áður, og þar af leiðandi ætti að vera auðsóttara að grípa til aðgerða þegar þörf er á varðandi aukaferðir eða annað sem tengist þjónustu skipsins.
Hvað þarf að lagast?
Landeyjahöfn
er yngsta höfn landsins, höfnina þarf að bæta til þess að hún verði sú höfn sem hún þarf að vera til þess að þjónusta hlutverki sínu að fullu.
Dýpkun
Einn af þeim þáttum sem þurfa að lagast er dýpkun í Landeyjarhöfn. Vegagerðin þarf að tryggja að hægt sé að kalla til aðila í dýpkun þegar veður er til og þá allt árið. Einnig þarf að tryggja að þeir aðilar sem þjónusta dýpkun við Landeyjahöfn hafi til þess þau tæki og tól sem þarf til að ráða við sem erfiðastar aðstæður og að hægt sé að vinna verkið á sem skemmstum tíma. Einnig er mikilvægt að haldið sé áfram að þróa aðferðir við að dýpka frá landi.
Aðstaðan í landi
Aðstaðan í landi er ekki með besta móti, bæði þjónustuhúsin þarf að stækka í takt við umfang og kröfur. Það þarf að hefta sandfok í Landeyjahöfn betur eða útbúa bílskýli fyrir bíla sem eru skildir eftir þar. Aðkoma bíla að þjónustuhúsinu í Landeyjahöfn er of lítil og bílastæðin á svæðinu of fá.
Önnur ferja sem siglir á móti
Það mun ekki líða að löngu þar til að þörfin fyrir aðra ferju sem siglir á móti þeirri nýju mun koma upp. Ferja sem siglir bara með farþega gæti leyst þetta til að byrja með en framtíðin mun leiða í ljós hversu fljótt þörfin fyrir aðra sambærilega ferju verður komin upp.
Baráttan heldur áfram
Tíðari ferðir, meiri áreiðanleiki til Landeyjahafnar og fleiri bílar um borð eru allt skref í rétta átt. Á meðan fast vegsamband er ekki til staðar verður krafan um bættar samgöngur alltaf til staðar. Nýr Herjólfur mun því eðlilega ekki þýða einhvern endapunkt nema síður sé, nýr Herjólfur er einfaldlega skref í samgöngusögu Vestmanneyja.
Trausti Hjaltason
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Fréttaskot - Eyjar.net
31.Janúar'18Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...
Má bjóða þér að auglýsa hér?
23.Júní'22Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.