Kjartan Vídó Ólafsson, markaðstjóri HSÍ í viðtali

Aldrei haft svona stóran hóp stuðningsmanna með okkur

23.Janúar'19 | 06:57
kjartan_vido

Kjartan Vídó rétt fyrir leikinn gegn Þjóðverjum. Ljósmynd/TMS

Kjartan Vídó Ólafsson tók síðastliðið haust við sem markaðsstjóri Handknattleikssambands Íslands. Það er í nægu að snúast þessa dagana hjá Kjartani líkt og hjá öllum starfsmönnum HSÍ en eins og alþjóð veit, fer nú fram Heimsmeistaramót í handknattleik og er leikið í Danmörku og Þýskalandi.

Ísland leikur í dag gegn Brasilíu í sínum síðasta leik í milliriðli mótsins. Ritstjóri Eyjar.net skellti sér til Þýskalands til að fylgjast með liðinu leika í milliriðlinum og til að ræða við markaðsstjórann um starfið og boltann.

 
Nú tókstu við nýju starfi innan HSÍ nýlega sem markaðsstjóri, í hverju felst starf þitt?

Ég sé um utanumhald á öllum markaðsmálum sem tengist HSÍ, það eru landsleikirnir, landsliðin, sé um samskipti við fjölmiðla og Olísdeild kvenna og karla. Síðan er ég í góðum samskiptum við okkar styrktaraðila og sé um að safna inn nýjum styrktaraðilum fyrir sambandið. Eitt mitt fyrsta verkefni eftir að ég tók við var að byrja að skipuleggja allt varðandi áhorfendur sem komu hingað til Munchen. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf og mikill heiður að fá að vinna fyrir HSÍ

 

En hvert er þitt hlutverk á stórmóti, eins og á HM?

Ég er fjölmiðlafulltrúi landsliðins á HM og sé um öll samskipti við innlenda og erlenda blaðamanna. Tek við óskum um viðtöl við strákana eftir leik og fá þeir hjá mér tossamiða með nöfnum fjölmiðla sem hafa óskað eftir þeim í viðtöl. Síðan rek ég lítið kaupfélag fyrir strákana með afþreyingar efni fyrir þá. Einnig hélt ég utanum allt skipulag á upphitunum stuðningsmanna og treyjusölu fyrir leikina.

 

Hvernig hefur umgjörðin verið – er þetta allt hefðbundið, mót eftir mót?

Þar sem þetta er mitt fyrsta mót þá hef ég ekki samanburð en ég held að þetta sé alltaf voðalega svipað. Við erum á góðu hóteli og vel hugsað um allt í kringum liðið. Það er magnað að fá að upplifa þetta sem starfsmaður og sjá alla þá vinnu sem er á bak við tjöldin bæði hjá mótshöldurum og starfsfólki HSÍ.

 

Hvernig er stemningin innan hópsins?

Það er frábær stemning í hópnum, strákarnir okkar eru léttir og skemmtilegir og samstarfsfólk mitt frábært. Það er nauðsynlegt í svona hóp að allir nái vel saman og oft er stutt í grínið enda nauðsynlegt þegar mikið álag er á öllum.

 

En á meðal íslensku stuðningsmannana? 

Á fyrstu leikina í Munchen voru vel yfir 700 stuðningsmenn Íslands á leikjunum og höfum við aldrei haft svona stóran hóp stuðningsmanna með okkur. HSÍ er eina landið sem skipulagði einhverja dagskrá og vann ég þetta allt í samvinnu við Sérsveitina sem er stuðningsmannsveit Íslands. Stuðningsmennirnir hafa verið til sóma og ótrúlega góð steming hérna úti. Eyjamenn og konur fjölmennt að sjálfsögðu hingað út og það er gott að hitta kunnugleg andlit í höllinni.

Tags

HSÍ Ísland

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.