Nýtt og fullkomið eldhús tekið í notkun á HSU

17.Desember'18 | 07:58
IMG_5199

Ævar í nýja eldhúsinu á HSU. Ljósmyndir/TMS

Í síðustu viku var vígt nýtt og fullkomið eldhús á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum. Ritstjóri Eyjar.net heimsótti Ævar Austfjörð, yfirkokk á HSU og ræddi við hann um breytingarnar.

„Framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í desember í fyrra. Það er fasteign ríkisins (ríkiseignir) sem framkvæma og standa undir kostnaði. Það sem áður var búið að gera var að fjarlægja gufupotta og olíukynntan ketil sem var í þar til gerðum kyndiklefa í kjallaranum, sem að var dýr í rekstri og viðhaldi. Þar losnaði pláss í kjallar auk þess sem ég hafði látið eftir pláss sem áður var notað sem kjötvinnsla í kjallara og einnig gamlan kæli.” segir Ævar.

Eldhúsið sjálft minnkað um sirka helming

Ævar segir að í framkvæmdunum núna hafi eldhúsið sjálft verið minnkað um sirka helming og sett upp þannig að það er "flæði" þannig að aldrei þurfi línur að skerast þar sem farið er með hrátt eldað eða úrgang/rusl. Eldhúsið ásamt frysti, kæli og þurrlager er nú í norður hluta austur/vestur álmu en var í öllum austurenda þeirrar álmu.

Gamli matsalurinn verður nýttur undir læknastofur

Nýr matsalur ásamt búningsklefa eldhússtarfsfólks og skrifstofu bryta er í suðurhluta sömu álmu. Matsalurinn fær því tæplega helming þess pláss sem áður var eldhús. Fyrirhugað er að nýta plássið sem gamli matsalurinn tekur undir heilsugæslu. t.d. stofur fyrir farandlækna og hugsanlega einhverja göngudeildarþjónustu.

Hægt að elda þar fyrir 150-200 manns

„Í eldhús hafa verið keypt ný tæki. Eldavél, panna og 2 ofnar. Tækin sem voru fyrir voru orðin um 40 ára gömul sum hver.” segir Ævar og bendir á að mikill orkusparnaður ávinnist með nýjum tækjum.

„Vinnuaðstaðan breytist mikið fyrir starfsfólk eldhússins en það var allt of stórt miðað við núverandi umsvif enda sett upp fyrir sjúkrahús með allt að 40 sjúkrarýmum en nú eru þau 21 eða 22. Þannig að við erum að jafnaði að þjónusta um 20 sjúklinga og 30 starfsmenn eða 50 manns. En þegar allar máltíðir dagsins eru taldar saman eru þetta 150-180 matarskammtar sem við afgreiðum á dag. Eldhúsið er þó það vel útbúið að ef til kæmi þá væri vel hægt að elda þar fyrir 150-200 manns.”

Launakostnaður sem sparast í eldhúsi nýtist því í beinni umönnun við sjúklinga

„Sparnaður í launakostnaði er nokkur í eldhúsi en þar hefur stöðugildum fækkað úr 4.2 í 3.5 frá því (ég tók við) 1. júní 2013. Það hefur verið gert með breyttri vinnutilhögun. Þjónustan við sjúklinga og starfsfólk er þó sú sama eða mjög svipuð. Sá launakostnaður sem sparast í eldhúsi nýtist því í beinni umönnun við sjúklinga í stað þess að eldhússtarfsfólk sé á óþarfa hlaupum í allt of stóru rými.” segir Ævar Austfjörð, yfirkokkur á HSU.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.