Bæjarráð Vestmannaeyja:

Tekist á um eigendastefnu Herjólfs ohf.

5.Desember'18 | 09:30
nyr_her_crist

Tölvugerð mynd af nýjum Herjólfi. Ferjan er væntanleg til landsins í byrjun næsta árs.

Erindi til bæjarráðs frá stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. var tekið fyrir á fundi ráðsins í gær. Bréf stjórnarinnar er vegna eigendastefnu félagsins sem samþykkt var í bæjarráði þann 20. nóvember 2018.

Í fundargerð ráðsins segir að bæjarráð hafi rætt drög að svarbréfi til stjórnar Herjólfs ohf. og felur formanni bæjarráðs að svara stjórninni fyrir hönd ráðsins. Áður en málið er afgreitt í bæjarstjórn er formanni bæjarráðs falið að gera tillögur að orðalagsbreytingum á áður samþykktri eigendastefnu Herjólfs ohf. 

Var ofangreint samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H-lista gegn einu atkvæði fulltrúa D-lista í ráðinu.

Að bæjarráð stefni stærsta hagsmunamáli sveitarfélagsins í fullkomna lagalega óvissu

Í bókun minnihlutans segir að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telji afar mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í erindi frá stjórn Herjólfs ohf. þar sem óskað er eftir fundi milli fulltrúa stjórnar Herjólfs ohf. og fulltrúa bæjarráðs. 

Í erindi stjórnar Herjólfs ohf. koma fram ýmsar athugasemdir og jafnvel efasemdir um að kaflar eigendastefnunnar eigi sér stoð í lögum. Það liggur í hlutarins eðli að með öllu verður að telja ótækt að bæjarráð stefni stærsta hagsmunamáli sveitarfélagsins í fullkomna lagalega óvissu með því að virða að vettugi málefnalegar athugasemdir stjórnar Herjólfs ohf. um eigendastefnuna og leggur því fulltrúi Sjálfstæðisflokksins til að leitað verði eftir áliti hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á lögmæti eigendastefnunnar. Að öðrum kosti áskilja fulltrúar Sjálfstæðiflokksins sé allan rétt til að leita eftir slíkri umsögn. 

Því óskar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins eftir því að eigendastefnan verði endurskoðuð með tilliti til ábendinga fulltrúa stjórnar Herjólfs ohf. og á grundvelli svara bæjarráðs, nauðsynlegt virðist að skýra þurfi betur ákvæði eigendastefnunnar til að taka af allan vafa um merkingu og eðli hennar. Auk þess hefur stjórn Herjólfs ohf. óskað eftir fundi með bæjarráði með góðum fyrirvara áður en eigendastefnan er samþykkt í bæjarstjórn og telur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sjálfsagt að verða við slíkri beiðni áður en málið kemur til fullnaðarafgreiðslu bæjarstjórnar. 

Þá vill fulltrúi Sjálfstæðisflokksins enn og aftur leggja þunga áherslu á að stjórn Herjólfs ohf. hafi óskorðað traust bæjarstjórnar og vinnufrið til að sinna sínum störfum í þágu bættra samgangna samfélagsins, segir í bókun Trausta Hjaltasonar. 

Eigendastefnan rædd og fullunnin í góðu samkomulagi allra fulltrúa bæjarráðs

Í bókun meirihlutans segir að ferli við gerð eigendastefnu Herjólfs hafi hafist í september. Fyrstu drög voru lögð fyrir bæjarráð og rædd 1. nóvember og síðan voru lokadrög lögð fyrir og rædd á fundi bæjarráðs þann 20. nóvember. Var hún rædd og fullunnin í góðu samkomulagi allra fulltrúa bæjarráðs og samþykkt. 

Við vinnslu eigendastefnunnar var haft samráð við Vegargerðina og litið var til annarra sambærilegra stefna sveitarfélaga og ríkis. Stefnan sem liggur fyrir til samþykktar hjá bæjarstjórn hefur líka verið lögð fyrir til kynningar í samráðshópi á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Aldrei hefur annað staðið til en að leitast til þess að tryggja framgang verkefnisins og að skerpa á samráði og samstarfi milli eiganda og stjórnar félagsins, segir í bókun sem þau Njáll Ragnarsson og Íris Róbertsdóttir skrifa undir.

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...