Vestmannaeyingar skammaðir fyrir skattaafslátt

15.Október'18 | 22:31
baer_gig

Vestmannaeyjabær. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gagnrýnir bæjarstjórn Vestmannaeyja harðlega fyrir að fella niður fasteignaskatt eldri borgara í bænum ár eftir ár vitandi að það væri ólögmætt og virða með því að vettugi fyrirmæli ráðuneytisins. 

Í áliti ráðuneytisins segir að þessi hegðun sé ekki bara ólögmæt heldur „verulega ámælisverð“. Greint er frá málinu á ruv.is.

Í álitinu, sem er dagsett 10. október en birtist á vef ráðuneytisins í dag, er saga málsins rakin. Þar er bent á að fyrst hafi ráðuneytið úrskurðað í sambærilegu máli árið 2008 – þá hafi það verið Garðabær sem var bannað að fella niður fasteignaskatt eldri borgara. Lög um tekjustofna sveitarfélaga heimila aðeins að lækka eða fella niður fasteignaskatta á tekjulitla elli- og örorkulífeyrisþega.

Fengu að vita 2012 að fyrirkomulagið væri ólöglegt

Ráðuneytið kallaði fyrst eftir upplýsingum um það hvernig þessum málum væri háttað í Vestmannaeyjabæ árið 2012. Þá lágu fyrir upplýsingar um að bæjaryfirvöld hefðu fellt niður fasteignaskatt af öllu íbúðarhúsnæði bæjarbúa yfir sjötugu, óháð tekjum þeirra. Ráðuneytið gerði bænum grein fyrir því að þetta væri ólöglegt.

Bærinn samþykkti svo í desember 2014 reglur um tekjutengdan afslátt af fasteignasköttum til ellilífeyrisþega, og í ljósi þess að ráðuneytið taldi reglurnar samrýmast lögum var ekki talið tilefni til frekari aðgerða og málinu lokað.

Dúkkaði aftur upp í kosningabaráttunni

„Það vakti svo athygli ráðuneytisins þegar þáverandi bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar lét hafa eftir sér í fjölmiðlum á vormánuðum 2018 að þeir íbúar sveitarfélagsins sem væru 67 ára og eldri greiddu ekki fasteignaskatta af eigin heimilum og hefðu ekki gert undanfarin ár,“ segir í áliti ráðuneytisins.

Þar er vísað til ummæla Elliða Vignissonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins og þáverandi bæjarstjóra, í kosningabaráttunni í bænum í vor.

Tóku tvær ósamrýmanlegar ákvarðanir

Ráðuneytið kallaði eftir upplýsingum og skýringum frá bænum og í ljós kom að samhliða ákvörðuninni um tekjutengda afsláttinn í desember 2014 höfðu bæjaryfirvöld samþykkt aðra reglu, sem ráðuneytið segir ósamrýmanlega þeirri fyrri, um að fella niður sem fyrr allan fasteignaskatt á eldri borgara óháð tekjum.

Í áliti ráðuneytisins segir að svo virðist sem þessi háttur hafi verið hafður á allt frá árinu 2012 og það þrátt fyrir að bæjaryfirvöldum hafi mátt vera það ljóst frá nóvember 2012 að það væri ólöglegt. Af þessum sökum ákvað ráðuneytið að hefja frumkvæðisathugun á stjórnsýslu bæjarins.

Bentu á fyrri bæjarstjórnir

Í svari bæjaryfirvalda kom fram að ný bæjarstjórn hefði tekið til starfa í júní 2018 að afloknum kosningum. Aðeins tveir núverandi bæjarfulltrúa hefðu setið í síðustu bæjarstjórn og hvorugur lengur en það. Bæjarstórnin ætti því erfitt með að skýra rökin á bak við ákvarðanir fyrri bæjarstjórna.

Skjöl sýndu hins vegar að ákvarðanir sambærilegar þeim tveimur sem teknar voru í desember 2014, og ráðuneytið kallar ósamrýmanlegar, hafi verið teknar samhliða á ári hverju frá 2012. Nýja bæjarstjórnin lofaði að svona yrði þetta ekki gert framvegis heldur tryggt að ákvarðanir um fasteignaskattaafslátt væru í samræmi við lög.

Afturvirk ógilding of íþyngjandi fyrir eldri borgarana

Ráðuneytið áréttar í áliti sínu að ákvarðanir sem þessar, sem fara út fyrir heimildina í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, séu ólögmætar, jafnvel þótt þær séu ívilnandi gagnvart tilteknum hópum skattgreiðenda. Það að bærinn hafi gert þetta ítrekað vitandi að það væri ólöglegt sé „verulega ámælisvert“.

Í áliti ráðuneytisins segir að ákvarðanirnar hafi verið haldnar svo verulegum annmörkum að hægt væri að ógilda þær og fella úr gildi afturvirkt. „Það sem fyrst og fremst mælir gegn því er hve íþyngjandi það yrði þeim eldri borgurum í Vestmannaeyjabæ sem notið hafa þessarar niðurfellingar í góðri trú um margra ára skeið að verða þannig endurgreiðsluskyldir,“ segir í ákvörðuninni. Þetta sjónarmið sé svo veigamikið að afturvirk ógilding komi ekki til greina.

Því er hins vegar beint til nýrrar bæjarstjórnar að tryggja að þetta verði framvegis ekki gert, að ráðuneytið verði upplýst um það fyrir 1. desember hvernig bæjarstjórn hyggst haga þessum málum á næsta ári.

 

ruv.is

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu.