Lóa Baldvinsdóttir skrifar:

Að elska sjálfa sig eins og aðra...

25.September'18 | 21:44
loa_bald_cr

Lóa Baldvinsdóttir Andersen

Ég var í jóga í dag og hugurinn var ekki alveg að ná að sleppa taki á óvelkomnum og mis hjálplegum hugsunum. Á milli þess sem ég hugsaði um hvort það skipti máli að baugfingur væri lengri en langatöng gat ég ekki hætt að hugsa um af hverju það reynist mér svona erfitt að hugsa fallega til mín og um mig.

Áður en þið haldið að ég sé dottin í einhvern drama hér þá á þetta alls ekki við alla daga. Suma daga hreinlega skil ég ekki af hverju Eskimo-models    (er það enn til?) sé ekki búið að hafa samband því ég er svo mikil gyðja og einstaklega hæfileikarík. En mjög oft þá hafa niðurrífandi hugsanir yfirhöndina þegar ég hugsa til og um sjálfa mig. Ég er meistari í að tína til alla mögulega og ómögulega hluti sem eru ekki nógu góðir í mínu fari.....að mínu mati.

Alltaf í lok jógatíma er slökun og þannig var það einnig í dag. Jógakennarinn taldi hægt og rólega niður frá 10 og ég ákvað að við hverja tölu myndi ég segja eitthvað fallegt og uppbyggilegt við mig. Það er auðvitað ekkert grín hvað þetta reyndist mér ógeðslega erfitt. Þegar ég var búin að segja við mig ,,Ég er skemmtileg" og ,,Ég er fyndin" fann ég ekki neitt annað gott að segja við mig. En þetta eru þeir tveir hlutir sem mér finnst í alvöru um sjálfa mig og þegar ég skrifa þetta er ég að hugsa um hvað það er asnalegt að mér finnist þetta um sjálfa mig.

En staðreyndin er sú að ég fann ekki nema þessa tvo jákvæðu hluti um sjálfa mig, allavega í dag. En neikvæðu hugsanirnar buðu í stórt og gott partý þar sem þær kepptust um orðið og slógu einhvers konar met í að rífa mig niður. ,,Ég er feit" ,,Ég er ekki nógu dugleg" ,,Ég er ekki sæt" ,,Af hverju mála ég mig ekki oftar" og svona hélt þetta endalaust áfram. Og svo fór ég að berja á mér fyrir að hugsa svona því að þetta er svo ekki ég og þetta eru svo innilega hlutir sem skipta mig engu máli.

Þetta hræðir mig því ég veit að ég er svo sannarlega ekki ein um þetta. Og ég er líka svo hugsandi yfir því að ég geti ekki talað fallega til mín en mér finnst ekkert mál að tala fallega til annars fólks. Ég er fljót að rífa mig niður þegar ég eyði heilu kvöldi í sófanum og borða bara súrt gúmmí. En þegar ég hitti fólk gæti mér ekki verið meira sama um hvort það borðaði soðið blómkál eða ís í kvöldmatinn, því þetta er ekki það sem skilgreinir okkur sem manneskjur......Nema mig greinilega þegar ég tala til mín.

Mér finnst minnsta mál í heimi að segja fólki frá því hvað það er duglegt, fallegt, skemmtilegt, drífandi, gáfað,fyndið og frábært en það er mér yfirleitt algerlega ógerlegt að finna þessa þætti hjá sjálfri mér. En það er bara þannig að fyrir næsta jógatíma skal ég vera búin að finna 5 hluti sem ég elska við sjálfa mig og næstu daga ætla ég að nýta í að sýna mér umburðarlyndi og kærleika. Ég veit að þetta verður erfitt verkefni en ég ætla að æfa mig, gera mitt allra besta og ekki brjóta mig niður þó ég fari aðeins út af sporinu.

Ég ætla að fagna slitunum á maganum mínum því þau eru merki um að þarna inni döfnuðu stelpurnar mínar þegar ég gekk með þær. Ég ætla að horfa með aðdáun á örið sem ég er með á bringunni því það minnir mig á hvað ég er heppin að vera á lífi, þrátt fyrir að hafa fæðst með alvarlegan hjartagalla. Ég ætla að klappa mér á bakið fyrir árangurinn sem ég hef náð á því tæpa ári síðan ég hrundi andlega. Og já ég ætla að horfa í augun mín alla daga og vera glöð með að augun mín eru stundum blá, stundum græn og stundum brún, allt eftir því hvaða árstíð er og í hvaða fötum ég er.

Að lokum langar mig að skora á ykkur, elsku fólkið mitt, að taka næstu daga í stífar æfingar í sjálfsást. Það mun verða kjánalegt fyrst, okkur mun finnast við vera montin og sjálfumglöð en það eru bara tilfinningar sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Til lífs og til gleði

Lóa :-)

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is