Gunnlaugur Grettisson bregst við fundargerðum Herjólfs ohf:

Óréttmæt gagnrýni

12.September'18 | 15:01
20180829_122441

Nýr Herjólfur er í smíðum í Póllandi. Ljósmynd/Grímur Gíslason

Í morgun birti Eyjar.net fundargerðir frá fyrstu stjórnarfundum Herjólfs ohf. Eyjar.net leituðu eftir viðbrögum frá Gunnlaugi Grettissyni, forstöðumanni hjá Eimskip um það sem fram kemur í fundargerð stjórnar og snýr að Eimskip.

Þar sem gefið er í skyn að Eimskip hafi verið eða sé á einhvern hátt að vinna gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum með því að ekki hafi verið opið fyrir bókanir eftir 1. okt. 2018 eða gefa misvísandi upplýsingar til viðskiptavina. 

Á engan hátt við Eimskip að sakast

Gunnlaugur sagði þetta dapran málflutning og í raun ekki svararverðan en þó rétt að upplýsa það að hið rétta væri að þegar þessi fundur var haldinn var hægt að bóka ferðir til og frá Eyjum út september 2018. Hið nýja félag átti að taka við rekstri við upphaf siglingar nýju ferjunnar í áætlun 8. október samkvæmt samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar og miklar yfirlýsingar um það að taka ætti í notkun nýtt bókunarkerfi. Á þessum tíma hafði hið nýja félag rúma fjóra mánuði til stefnu og ekkert verið rætt við Eimskip um stöðuna eftir að hið nýja félag tæki við.

Ekkert lágu fyrir neinar upplýsingar um nýtt bókunarkerfi né heldur áætlun eða gjaldskrá og því á engan hátt við Eimskip að sakast. Vegagerðin fór þess á leit við Eimskip í byrjun júní að setja í sölu ferðir eftir 1. okt. Það var gert og eftir það var þegar hægt að bóka ferðir milli lands og Eyja út mars 2019 og þannig er það nú. Hvað þá tekur við er óvissa en rétt að segja það hér að við hjá Eimskip getum mjög stuttum fyrirvara, ef óskað er eftir því, sett í sölu ferðir út árið 2019 eða lengur ef áhugi er á því.

Vita ekki hvenær þeir eiga að hefja störf né vita nákvæmlega um þeirra kaup og kjör

Gunnlaugur segir varðandi annað sem þarna kemur fram að þá er því miður ekki mikið að frétta. Eðlilega hef ég áhyggjur af þessu öllu sérstaklega það sem að okkar góða starfsfólki snýr hvor sem viðkomandi sótti um vinnu hjá nýja félaginu eða ekki.

Það var ráðinn verkefnastjóri sem hætti snögglega, skipstjóri var ráðinn munnlega en það svo dregið til baka, sá einstaklingur hefur óumdeilanlega lang mestu reynsluna og að mínu viti átti klárlega að vera í stóru hlutverki í skipstjórahópnum. Þá er núna búið að ráða munnlega þrjá aðra skipstjóra, sem allir hafa verið Eimskips/Sæferða starfsmenn og tveir eru það enn í dag, og svo einn yfirvélstjóra. Eftir því sem ég best veit er ekki búið að ganga formlega frá ráðningum þeirra og a.m.k þrír af þessum fjórir góðu mönnum vita ekki hvenær þeir eiga að hefja störf né vita nákvæmlega um þeirra kaup og kjör, afar sérstakt svo notað sé pent orð.

Illa farið með gott fólk

Í dag er mánuður frá því umsóknarfrestur rann út vegna stöðu framkvæmdastjóra félagsins og enn samkvæmt nýja stjórnarformanninum eru væntingar um að nú séu innan við 10-14 dagar þar til stjórn geti tekið endanlega ákvörðun um hver verði valinn í þá mikilvægu stöðu.

Varðandi aðrar stöður sem auglýstar voru um borð í nýju ferjunni og Vestmannaeyjum þá er í dag 20 dagar frá því sá umsóknarfrestur rann út og væntanlega enginn af umsækjendum fengið fréttir af stöðu mála. Þetta er auðvitað ekki gott og í raun illa farið með gott fólk.

Skiptir máli til að tryggja eðlilega yfirfærslu á þessu stóra verkefni

Ekkert hefur verið unnið í nýju bókunarkerfi en samkvæmt stjórnarformanni Ohf. er „unnið er að undirbúningi þess að fá fyrirtæki til að gera verðtilboð í þarfagreiningu/greiningarvinnu og eftir atvikum gerð nýs bókunarkerfis…“ hvað þýðir þetta eiginlega og í hvaða stöðu er það mál, spyr sá sem ekki veit.…

Allt þetta skiptir máli fyrir okkur hjá Eimskip til að tryggja eðlilega yfirfærslu á þessu stóra verkefni frá okkur yfir til nýja félagsins.

Veit ekki hvað gerist um áramót

En stjórnarfólk hjá hinu nýja félagi ber sig vel og segir allt í góðu og eðlilegu ferli. Við hjá Eimskip erum með það verkefni að reka núverandi ferju til næstu áramóta en hvað tekur þá við veit ég ekki neitt um á þessari stundu. Ef nýja ferjan verður ekki tilbúin virðast tveir kostir vera í stöðunni. Annar sá að láta nýja félagið taka við gamla Herjólfi 1. janúar. Eimskip setur í gang óhjákvæmilegar uppsagnir og Ohf-ið fer í að ráða fólk í öll störf. Hinn kosturinn er að ræða við Eimskip um áframhaldandi rekstratíma. Ég hef sagt að ef seinni kosturinn verður valinn þurfum við hjá Eimskip að ræða við okkar starfsfólk og sjá hvort við getum tekið verkefnið að okkur áfram og er ekkert sjálfgefið í því máli en vonandi væri hægt að verða við þess háttar ósk.

Verkefnastjórinn byrjaði af krafti en hætti því miður snögglega

Auðvitað er það ekki gott að hefja siglingar á nýrri farþegaferju yfir háveturinn á erfiðasta tímanum og úr því sem komið er væri réttast fyrir nánast allra hluta sakir að fresta komu ferjunnar fram í mars/apríl en kannski er óþarfi að hafa áhyggjur af því þar sem enn er verið að smíða og óvíst hvenær nýjar ferjan verður tilbúin til að sigla í áætlun með farþega milli lands og Eyja.

Og að lokum er rétt að geta þess að einu samskipti milli hins nýja félags og Eimskip voru í gegnum verkefnastjórann og byrjaði af krafti og gaf mér ákveðna von um að þetta væri að komast í eðlilegan ferill en svo hætti hann því miður snögglega. Önnur samskipti eru aðeins nokkrir tölvupóstar á viku tímabili í júlí frá lögmanni sem er að vinna fyrir nýja félagið, segir Gunnlaugur Grettisson forstöðumaður ferjusiglinga hjá Eimskip.

 

Þessu tengt: Öryggismönnun nýs Herjólfs enn óljós

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.