Ekki stendur til að fækka sjúkrarýmum

hvorki í Vestmannaeyjum né á Selfossi

2.September'18 | 10:30
hsu_eyjar

Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir að ekki standi til að fækka sjúkrarýmum hjá HSU, hvorki í Vestmannaeyjum né á Selfossi. Ritstjóri Eyjar.net ræddi við Herdísi um rekstur og þjónustu stofnunarinnar.

Þó svo að rúmum sé fækkað tímabundið þá er engum vísað frá

Herdís segir að hins vegar hátti þannig til að í sumar, eins og sumarið 2016 og 2017 þá var fækkað tímabundið um 4 rúm á Selfossi og 4 rúm í Vestmannaeyjum á sjúkradeildunum, vegna sumarleyfa og afleysinga. „Alls var þá dregið saman um 8 rúm hjá HSU.  Þetta er ekki óvanalegt á sjúkrahúsum að rýmum sé fækkað tímabundið og hefur það ekki haft áhrif á þjónustu eða aðgengi að sjúkrahúsinu. Áríðandi er að þó svo að rúmum sé fækkað tímabundið að þá er engum vísað frá. Það getur gerst að þurfi að leggja fleiri inn tímabundið en opin rúm segja til um, en ég held að þess hafi ekki þurft í Eyjum í sumar, nema þá bara í eitt eða tvö skipti. Þá getur það gerst að fleiri liggi inni tímabundið en rúmin segja til um.  Þá fer nýtingin yfir 100%, þann dag. Þannig að engum sem þarf að leggjast inn er vísað frá á sjúkrahúsum HSU, ef kostur er að taka við sjúklingi.” segir forstjórinn.

Nýting sjúkrarýma í kringum 55-70% að jafnaði yfir árið

„Það sem er mikilvægt að hafa í huga er hver nýting rúmanna er. Undanfarin ár hefur nýting sjúkrarýma hjá HSU í Vestmannaeyjum verið í kringum 55-70% að jafnaði yfir árið og eins á sumrin, þrátt fyrir fækkun rýma tímabundið.  Það er frekar lág nýting. Reyndar í sumar hefur nýtingin verið mun meiri sem er gott. Á Selfossi hefur rúmanýting vaxið frá því að vera um 70% árið 2016 í yfir 85-90% nýting árið 2017, en þá hafði mikil áhrif að á Suðurlandi var lokað 45 hjúkrunarrýmum og lítið kom í staðinn. Rúmanýting segir í raun bara til um fjölda sjúklinga sem liggja inni á deild á hverri klukkustund sem hlutfall af heildarrúmafjölda deildar.” segir Herdís og bætir við:

„Sjúkrarými eru venjulega opnuð aftur á haustin eftir s.k. sumarlokanir og það stendur ekkert til að breyta því í ár.  Hins vegar er vinna í gangi við að skilgreina tegund sjúkrarúma, þá á ég við hve mörg rúm flokkast sem almenn lyflækningarými, dagdeildarrými, göngudeildarrými og bráðarými. Svo eru líka hjúkrunarrými og hvíldarrými á deildinni okkar í Eyjum. Það sem við erum alltaf að vinna í er að fylgjast með hvernig þörf fyrir þjónustu þróast og aðlaga þjónustuna að þörfum sjúkra innan þeirra heimilda sem við höfum.” 

Höfum bætt verulega í heimahjúkrun

Hún segir að annað sem sé í vinnslu hjá stofnuninni í Vestmannaeyjum er samstarf við sveitarfélagið. „Stjórnendur á HSU hafa verið að hitta fulltrúa og starfsmenn sveitastjórnar, því það er mjög mikilvægt að þegar virkri sjúkrahúsmeðferð er lokið að þá komist fólk heim í þá þjónustu sem það þarf að fá. Það er engum gott að liggja of lengi inni á sjúkrahúsi sem ekki þarf á flókinni læknismeðferð eða sólarhringshjúkrun að halda. Því höfum við undafarin tvö ár bætt verulega í heimahjúkrun í Vestmannaeyjum, og bættum inn kvöldþjónustu í heimshjúkrun árið 2016. Heimahjúkrun í Vestmanneyjum hefur því aukist um 84% frá sameiningu HSU árið 2014. ”

Vilja auka enn frekar gott samstarf við sveitarfélagið

Herdís segir að starfsfólk HSU í Vestmannaeyjum vinni ötullega að málefnum sjúkra í Vestmannaeyjum og teygir sig oft út fyrir ramma þess sem snýr beint að heilbrigðisþjónustu, enda er heilbrigðisþjónusta í eðli sínu alltaf heildræn þjónusta við einstaklinginn. 

„Það er þó alltaf best að fólk fái rétta þjónustu á réttum stað og því vilja stjórnendur HSU í Vestmanneyjum auka enn frekar gott samstarf við sveitarfélagið, þannig að tryggt sé að félagsþjónusta sé í boði fyrir þá sem vantar slíka þjónustu í Vestmannaeyjum á kvöldin og um helgar, samhliða heimhjúkruninni, þegar einstaklingar geta útskrifast úr sjúkrahúsmeðferð. Eins vantar enn dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun og minnissjúkdóma í Vestmannaeyjum, eins og víðar á Suðurlandi, en ég veit til þess að reynt hefur verið að sækja fjármagn til að hefja slíka þjónustu, en mér skilst að það hafi ekki fengist.”

Hér fyrir neðan eru helstu tölur og upplýsingar um meðallegutíma, nýtingu sjúkrarýma og aukningu í heimahjúkrun hjá HSU.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.