Páll rúinn trausti í kjördæminu

- Sjálfstæðismenn í Eyjum eru æfir af reiði vegna framgöngu Páls Magnússonar, oddvita kjördæmisins, í aðdraganda nýafstaðinna kosninga. Segja hann bera ábyrgð á því að meirihluti flokksins féll í Vestmannaeyjum

7.Júní'18 | 07:35
palli_mag

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Mynd/TMS

Það er engin launung á því að við Sjálfstæðismenn í Eyjum erum mjög ósátt við framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna,“ segir Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, um oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, Pál Magnússon. 

Jarl segir Pál launa illa þá vinnu sem hann sjálfur og margir Sjálfstæðismenn lögðu á sig fyrir Pál og flokkinn í aðdraganda síðustu þingkosninga. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, vann góðan sigur í kosningunum, fékk þrjá menn kjörna og myndaði nýjan meirihluta með Eyjalistanum en Sjálfstæðismenn töpuðu meirihluta sem þeir hafa haft undanfarin tólf ár og fengu einnig þrjá menn kjörna.

Vináttusamband er milli Páls og Írisar Róbertsdóttur, oddvita klofningsframboðsins og nýs bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Þau hafa verið samherjar í pólitík um árabil og hafa til dæmis lengi setið saman í stjórn ÍBV. Íris studdi Pál dyggilega í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir síðustu þingkosningar og þótt Páll hafi ekki stutt klofningsframboð Írisar opinberlega eru viðmælendur Fréttablaðsins í flokknum á einu máli um að hann stóð með Írisi og félögum hennar í baráttunni og veitti framboði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum engan stuðning.

Einn viðmælandi blaðsins bendir á hve mjótt hafi verið á munum milli flokksins og klofningsframboðsins og því hafi atkvæði Páls sjálfs og hans nánustu í raun gert útslagið og meirihluti flokksins fallið á atkvæðum þeirra.

Annar viðmælandi blaðsins telur einsýnt að Páll muni aldrei aftur sigra í prófkjöri fyrir flokkinn í kjördæminu. Þessi afstaða tilheyrir ekki eingöngu Eyjamönnum heldur hafi sveitarstjórnarmenn flokksins um allt kjördæmið snúið baki við Páli.

Samherjar Páls í Sjálfstæðisflokknum, þeir Janus Arn Guðmundsson og Þengill Björnsson, munu einnig hafa beitt sér óformlega fyrir klofningsframboðið. Þeir unnu báðir með Páli í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og Janus í framhaldinu sem kosningastjóri flokksins í kjördæminu.

Nokkurs titrings gætir í Valhöll vegna málsins en Janus og Þengill sitja báðir í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og Janus er nýráðinn framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Til eru þeir í forystu flokksins sem vilja helst losna við þá Janus og Þengil úr flokknum enda þrífist þeir á innanflokksátökum og margir telja fráleitt að þeir geti setið í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn og um leið beitt sér gegn flokknum í kosningum. Hins vegar eru þeir sem vilja ekki þann óvinafögnuð að taka hart á þeim sem beita sér gegn flokknum.

Elliði Vignisson, fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Bjarna Benediktssonar á formannsstóli, hann hefur einnig íhugað að hella sér út í landsmálin og vitað er að hann lá undir feldi fyrir síðustu þingkosningar. Gæfi Elliði kost á sér í landsmálin má gera ráð fyrir að hann etji kappi við Pál sem er oddviti flokksins í kjördæminu og í því ljósi má halda því fram að Páll hafi hagsmuni af því að koma Elliða á kné áður en hann nær of langt. Árangurinn kann hins vegar að vera of dýru verði keyptur ef orðspor Páls sjálfs í kjördæminu fylgir með.

Bandamenn Páls og félaga segja titringinn í flokknum ekkert annað en tilraun Valhallar til að breiða yfir eigin mistök enda sé það hlutverk Valhallar og forystu flokksins að bera klæði á vopnin og sjá til þess að ágreiningur í flokknum dýpki ekki þannig að til klofnings komi. Stuðningsmenn flokksforystunnar segja á móti að opna hefði mátt stóra verslun með öllum þeim klæðum sem farið var með til Eyja til að bera á vopnin. Það hafi einfaldlega ekki dugað, kergjan sem á sér nokkurra ára sögu hafi verið orðin of djúp. Og þar sem kergja er til staðar milli heimamanna, geti aðrir séð sér hag í henni og hellt olíu á eldinn í eigin þágu.

Jafnvel þótt ekkert þurfi að búa að baki en vinátta og farsælt samstarf Írisar og Páls, má ætla að Páll telji sig ekki skulda formanni flokksins neina greiða enda verið ósáttur við að hafa enn ekki fengið ráðherraembætti þrátt fyrir tíðar stjórnarmyndanir frá því hann settist á þing. Heimildir blaðsins herma einnig að þeir Janus og Þengill hafi verið sjóðillir yfir því að Páli hafi ekki verið boðinn ráðherrastóll við myndun síðustu ríkisstjórnar því jafnvel þótt þeir hugi ekki sjálfir á framboð, sjái þeir sér hag í því að styðja menn til æðstu metorða og geti þannig búið í haginn fyrir sig í vel launaðar aðstoðarmannastöður.

 

Frettabladid.is

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.