Eyjalistinn ætlar að ræða við bæði D- og H-lista

28.Maí'18 | 06:48
oddvitarnir_2018

Njáll Ragnarsson, Íris Róbertsdóttir og Elliði Vignisson. Ljósmynd/TMS

Eyjalistinn ætlar í dag að ræða bæði við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og nýja framboðsins, Fyrir Heimaey. Hársbreidd munaði að Sjálfstæðismenn fengju fjóra menn kjörna á laugardaginn og héldu þannig meirihluta. 

Hann fór þó að lokum til Heimaeyjarframboðsins og Eyjalistinn tapaði líka einum manni. Fréttablaðið greinir frá.

Jóhann Pétursson, formaður yfirkjörstjórnar í Vestmannaeyjum, sagði við fréttastofu RÚV að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft sex atkvæði til að ná fjórða manninum inn og halda þannig hreinum meirihluta. Þess vegna hefði verið ákveðið að telja aftur.

Íris Róbertsdóttir, oddviti Heimaeyjarframboðsins, er fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og eiga margir sem að framboðinu stóðu rætur að rekja þangað.

Stofnað var til framboðsins eftir að ákveðið var að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki efna til prófkjörs í Vestmannaeyjum til að stilla upp á lista. Þá hefur Íris sagt við Fréttablaðið að hún vilji auka beint lýðræði. Meðal annars eigi íbúar í Vestmannaeyjum að fá að koma betur að þeirri ákvörðun hvort bærinn taki yfir rekstur Herjólfs.

Íris var að funda með stuðningsfólki listans þegar Fréttablaðið náði af henni tali í gær. „Eins og úrslitin gefa til kynna þá erum við búin að óska eftir því að hitta Eyjalistann. Það verða fyrstu skrefin,“ sagði Íris um komandi meirihlutaviðræður flokkanna.

Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, segir framboðið ætla að ræða við báða aðila í dag og meta stöðuna eftir það.

Hann bendir þó á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með hreinan meirihluta í tólf ár. „Kosningarnar eru ákveðinn dómur á þann meirihluta. Við fáum líka okkar skell og missum mann og töpum einhverjum atkvæðum, þó þau séu ekki mörg. Ég held að Heimaeyjarframboðið sé svolítið með byrinn í seglin og kosningarnar gefa það til kynna að fólk vill breytingar,“ segir hann.

Bæjarstjórinn í Eyjum, Elliði Vignisson, segir að ef niðurstaðan verði sú að hann gangi frá borði, þá sé hann sáttur. „Ég er búinn að vera bæjarstjóri í tólf ár og það er ágætt á starfsferilskrána að hafa tekið við einu verst setta sveitarfélaginu og skilað af sér einu því best setta.“

 

Fréttablaðið.is

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...