Jarl Sigurgeirsson skrifar:

Léleg eftiráskýring

20.Maí'18 | 16:58
jarl

Jarl Sigurgeirsson

Góður vinur minn, gítarbróðir og kórfélagi Leó Snær er með grein í bæjarmiðlunum í dag þar sem hann með rökum reynir að réttlæta ákvörðun Írisar Róbertsdóttur um að sitja ekki sem bæjarfulltrúi verði hún bæjarstóri. Greinin er vel skrifuð en engu að síður rökleysa.

Í grein sinni  segir Leó að ekkert sé því til fyrirstöðu að kjörinn fulltrúi víki til hliðar vegna anna í annari vinnu. Vitnar hann í 30.gr sveitarstjórnarlaga þar sem segir  ,,Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.‘‘

Er þessi klausa talin sem rök fyrir því að fulltrúi geti horfið frá skyldum sínum sem á um er kveðið í sama lagabálki en þar segir í 22.gr ,, Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að taka þátt í öllum sveitarstjórnarfundum og fundum í nefndum og ráðum sem hann hefur verið kjörinn til nema lögmæt forföll hamli, sbr. 31. gr.“ Og í 23.gr. ,, Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins, sem og til annarra trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélagsins.“

Rök H-listans eru því að álagið á Írisi af því að verða bæjarstjóri verði svo mikið að hún -ólíkt bæjarstjórum um allt land- þurfi að hætta sem bæjarfulltrúi.  Annaðhvort snýst þetta þá um viðhorfið H-listans til starfsgetu Írisar eða viðhorf þeirra til starfa almennt.  Vart er viðhorfið ekki að Íris þoli minna álag en aðrir.

Það má því velta fyrir sér, hvaða störf það eru sem eru svo léttvæg við hlið starfs bæjarstjóra að hægt sé að sitja sem bæjarfulltrúi með fram þeim? Væntanlega mun sá aðili sem sest í stól fulltrúa í stað Írisar gegna mun veigaminna starfi en starfi bæjarstjóra, sem að áliti H-listans skapar óhæfilegt álag á viðkomandi aðila. Þá má einnig velta fyrir sér því álagi sem Elliði hefur mátt þola þessi 12 ár, sem eru þá samkvæmt starfagreiningu H-listans óhæfilegt álag og það í 12 ár.

Það væri þá fróðlegt að fá útlistun frá H-listanum á því hvaða störf séu það léttvæg að þau skapi ekki óhæfilegt álag á bæjarfulltrúa þannig að hægt sé að velja á lista framboða fólk í léttvægari störfum sem geta þá sinnt störfum bæjarfulltrúa.

Fólkið sem situr þá í sætunum fyrir neðan Írisi hlýtur þá, miðað við röksemdarfærsluna, að sinna mun léttvægari störfum en starfi bæjarstjóra að mati starfagreiningardeildar H-listans.

Mér finnst með þessu eru liðsmenn H-listans að gera ansi lítið úr fólki sem sinnir öðrum störfum en starfi bæjarstjóra, sem vissulega er mikilvægt og stórt starf, en þó alls ekki þannig að það skapi óhæfilegt álag umfram önnur störf.

Líklegast er þó hér um að ræða lélega eftiráskýringu frá hendi H-listans sem reynir hér að fara á svig við lýðræðið.

 

Jarl Sigurgeirsson

 

Höfundur er formaður stjórnar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.