Erla Baldvinsdóttir skrifar:

Njótum þeirra forréttinda að geta fært okkur til

- stundum öllum til heilla, ekki síst okkur sjálfum

16.Maí'18 | 10:59
erla_bald

Erla Baldvinsdóttir

Ég nýt þeirra forréttinda að vera miðaldra, að vera á miðjum aldri. Lesgleraugun eru sjaldan langt undan, matarklúbbarnir mínir hittast reglulega, saumó já og gönguklúbburinn að ógleymdum spinningklúbbnum. 

Mér þykir orðið frábært að hitta vini og vandamenn á happy hour kl.17 og helst vera komin heim til að ná Barnaby sem ávallt ræður gátuna fyrir miðnætti.  Síðastliðið haust datt ég heldur betur í lukkupottinn þegar ég fékk launað leyfi frá störfum mínum sem kennari til að stunda meistarnám við menntavísindasvið HÍ. 

Það viðurkennist fúslega að það tók á að slíta sig út úr því sem ég kann og þar sem ég þekki alla yfir í að lesa námsbækur flesta tíma dagsins og fóta mig í samskiptum og samvinnu við bláókunnugt fólk.  Að læra á APA kerfi og lesa á erlendum tungumálum var vissulega áskorun en virkilega holl og góð reynsla. 

Á þessu ári hefur mér lærst margt, meðal annars að það kemur maður í manns stað og þegar ég fór úr mínu starfi, tók prýðismanneskja við mínum störfum og leysti þau af alúð og myndarbrag.  Hún fékk frá mér gott veganesti um þau verkefni sem fyrir lágu og tók við mínum verkum. 

Aldrei hvarflaði að mér að hún gæti ekki unnið mín störf að einurð og elsku. Henni var fullkomlega treystandi og það væri í sjálfu sér fáránlega sjálflægt að halda að ég sé eina manneskjan sem hef færni sem kennari.

Ég hef einnig áttað mig á því að glöggt er gests augað og þeir sem koma nýir að borðinu, hvort sem um ræðir á vinnustað nú eða í öðru samhengi sjá hlutina oft í nýju ljósi og þeirra sýn og ábendingum ber að taka fagnandi. 

Manni hættir nefnilega til að hreiðra um sig í sínu, verða heimaríkur, eiga erfitt með að taka ábendingum og þar fram eftir götunum. Ég er líka þeirrar skoðunnar að þeir sem koma að stjórnun hverskonar ættu á fimm ára fresti að „fara á gólfið“ í einhvern tíma til að reyna sig í þeim verkefnum sem við sem þar erum tökumst á við frá degi til dags.

Ef reynsluheimur stjórnenda og okkar sem á gólfinu erum skarast ekki, missum við sambandið hvort við annað og óneitanlega myndast gjá þar á milli.  Nú lýkur senn námsleyfinu mínu og ég sný aftur til starfa, hálfri meistaragráðu ríkari. 

Það er mín tilfinning að ég komi að borðinu reynslunni ríkari, ég er þess líka fullviss að sá starfsvettvangur sem ég valdi mér fyrir 21 ári síðan sé minn framtíðarvettvangur,  ég veit líka að það er fátt sorglegra en að daga uppi í starfi og þekkja ekki sinn vitjunartíma.  Við erum nefnilega ekki tré ... og njótum þeirra forréttinda að geta fært okkur til, stundum öllum til heilla, ekki síst okkur sjálfum.

 

Erla Baldvinsdóttir

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...