Elliði Vignisson skrifar:

Í dag sit ég minn seinasta bæjarstjórnarfund sem kjörinn bæjarfulltrúi

15.Maí'18 | 11:15
Ellidi_hugsi

Elliði Vignisson

Í dag lýkur ákveðnum kafla í mínu lífi. Ég mun sitja minn seinasta reglulega bæjarstjórnarfund sem kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Ertu að grínast?

Ég sat minn fyrsta fund 5. september 2002. Vinsælasta bíómyndin var þá „Austin Powers“ og á forsíðu Morgunblaðsins stóð: „Bush lofar að leita samþykkis þingsins verði ráðist gegn Írak„. Fundurinn hófst kl. 18:00 og honum lauk kl. 00:45. Hart var tekist á og bókanir gengu á víxl. Mikið púður fór í deilur og átök. Þegar ég kom heim voru börnin mín sofnuð en Bertha konan mín sem hafði hlustað á fundinn í útvarpinu hafði þrjú orð við mig að segja um hann: „Ertu að grínast?“

 

Hef setið fundi í sem nemur 42 sólarhringum

Síðan þá hef ég setið 189 bæjarstjórnarfundi og 294 bæjarráðsfundi. Hver bæjarstjórnarfundur er að meðaltali um 3 tímar. Ég hef þá setið fundi bæjarstjórnar í 567 klukkustundir eða tæplega 24 sólarhringa samfleytt. Meðal bæjarráðsfundur er um 1,5 tími. Ég hef þá setið í 441 klukkustund eða rúmlega 18 sólarhringa samfleytt. Til samans gera þetta 42 sólarhringa. Rétt eins og ég myndi byrja fund í dag og hætta 25 júní nk. Reynslan er því orðin mikil.

 

Reynsla

Reynsla er kostur þegar kemur að þeim mikilvægu verkefnum sem samfélagið okkar hér í Vestmannaeyjum sinnir. Að sama skapi getur reynsluleysi orðið til þess að við förum að takast á við vandamál sem eru ekki til í Vestmannaeyjum í dag.

 

Tilraun til sátta

Ég ætlaði mér ekki að hætta sem bæjarfulltrúi þar sem ég lít á starfið sem þjónustu við íbúa bæjarins. Þegar upp kom deila í Sjálfstæðisflokknum hér í Eyjum (sem sögð var vera vegna hættu á lýðræðishalla þegar frambjóðandi í 1. sæti væri einnig bæjarstjóri) ákvað ég þó að mæta þeim sem harðast gengu fram og víkja sem bæjarfulltrúi. Í stað þess að þiggja fyrsta sæti á lista óskaði ég eftir því að fá 5. sæti og hætta þar með sem bæjarfulltrúi.

 

Slegið á sáttarhönd

Ég er einn af þeim sem trúi á mátt sáttarinnar og að tímanum sé betur varið í annað en átök um það sem skiptir bæjarbúa ekki stóru máli. Ég trúði því af einlægni að með því að víkja sem bæjarfulltrúi þá myndi óánægjan minnka. Ég hefði þannig ekki umboð sem kjörinn fulltrúi og ætti mína stöðu undir kjöri annarra. Allt kom fyrir ekki, þeir ósáttu voru alveg jafn ósáttir og klufu samt flokkinn án þess að tilgangurinn væri ljós. Í raun má segja að slegið hafi verið á útrétta sáttarhönd.

 

Kosningar snúst um traust

Ég er tilbúinn til að starfa áfram fyrir íbúa Vestmannaeyja sem bæjarstjóri. Ég hef ómetanlegan metnað fyrir þessum stað sem hefur fóstrað mig í hátt í hálfa öld og ætt mína mikið lengur en elstu menn muna. Ég veit að reynsla mín nýtist hvergi betur en í störfum fyrir íbúa Vestmannaeyja.  Séu bæjarbúar ánægðir með stöðu Vestmannaeyja og treysti þeir mér til að vera áfram bæjarstjóri og þeim Hildi, Trausta, Helgu Kristínu og Eyþóri til að leiða störf bæjarstjórnar, þá veit ég að við getum gert lífið enn betra hér í Vestmannaeyjum.

 

Hverjum treystir þú best?

Komandi kosningar eru þær tvísýnustu sem farið hafa fram í Vestmannaeyjum í langan tíma. Það eru tveir valkostir í boði, áframhaldandi meirihluti okkar Sjálfstæðisfólks eða samstarf þeirra tveggja framboða sem nú bjóða fram gegn okkur. Það er því mikilvægt fólk mæti á kjörstöð og velji það fólk sem það treystir best til að stjórna Vestmanneyjum næstu 4 árin.

 

Elliði Vignisson

Bæjarstjóri

 

Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...