Ingi Sigurðsson skrifar:

Samgöngur við Eyjar – mikilvægur árangur í að tryggja grunnþjónustu samfélagsins

9.Maí'18 | 09:53
ingi_s

Ingi Sigurðsson

Á dögunum sótti ég kynningarfund bæjarstjórnar Vestmannaeyja í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar fyrr um daginn varðandi samningsdrög ríkisins og stýrihóps Vestmannaeyjabæjar um rekstur nýs Herjólfs.

Á síðasta ári sótti ég fund sömu aðila í Eldheimum þar sem kynnt var staða mála frá hendi stýrihópsins sem skipa þrír Eyjapeyjar Lúðvík Bergvinsson, Grímur Gíslason og Páll Guðmundsson ásamt einum sérfræðingi frá Analytica, Yngva Harðarsyni.

Á þeim tíma taldi ég aðalatriðið að ná því fram að Vestmannaeyjabær myndi taka yfir verkefni Vegagerðarinnar, þ.e. að skilgreina þjónustuþörfina í nýjum samningi sem væri nauðsynleg með tilkomu nýrrar ferju og svo að sjá um eftirlit og eftirfylgni nýs samnings. Ég hef alltaf verið mótfallinn því að ríki og sveitarfélög séu að vasast í rekstri sem einkaaðilar geta séð um, og er það enn. Hins vegar hef ég alltaf talið mikilvægt að ef verja þarf grunnþjónustu við þegna landsins, þurfa ríki og sveitarfélög að bregðast við svo tryggt sé að íbúum landsins sé tryggð sambærileg þjónusta hvar sem þeir eru í sveit settir. Það er staðreynd að samgöngur við Vestmannaeyjar er grunnþjónusta við íbúa hér í Eyjum, og eitt stærsta hagsmunamál samfélagsins ásamt heilbrigðismálum.

Í þessu svo mjög mikilvæga máli skiptir höfuðmáli að tryggja nægjanlegt framboð ferða til að bæði íbúar og fyrirtæki í Eyjum njóti sem mests sveigjanleika til að geta skipulagt ferðir sínar milli lands og Eyja.  Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir og umræddur stýrihópur hefur náð fram, hefur afstaða mín breyst. Ég viðurkenni það að ég átti aldrei von á því að umræddur stýrihópur myndi ná fram nánast öllum þeim markmiðum sem voru sett fram þegar var farið af stað. Það ásamt því atriði, að um er að ræða lífæð samfélagsins, þjóðveginn okkar og það mál sem tryggir framtíð samfélagsins, þá tel ég rétt skref í stöðunni að Vestmannaeyjabær taki verkefnið að sér til reynslu næstu tvö árin.

Áður en þessum tveimur árum lýkur, er hægt að meta árangurinn og hvort forsvaranlegt er að halda verkefninu áfram, eða að bjóða reksturinn út eins og verið hefur. En þá megum við ekki gleyma því að það sem hefur áunnist og er einu sinni komið á, það er ekki svo glatt tekið af. Einnig er vert að hafa í huga hvað árangri umræddur stýrihópur hefur náð í samstarfi við núverandi bæjarstjórn:

  • Ferðatíðni upp á 7 ferðir á dag í sumaráætlun og 5 ferðir á dag í vetraráætlun.
  • 50% afsláttur af fargjöldum til Eyjamanna.
  • Bókunarkerfið verður tekið til endurskoðunar.
  • Ríkið greiðir þann aukakostnað sem hlýst af fjölgun í áhöfn Herjólfs til að geta fjölgað farþegum í hverri ferð.
  • Ríkið greiðir kostnað við þær ferðir sem þarf að fara í Þorlákshöfn í ákveðinn tíma.
  • Núverandi Herjólfur verður til taks sem varaskip.
  • Hagnaður af rekstri verður nýttur til að auka þjónustustig og/eða lækka fargjöld.

Eru þetta ekki þau atriði sem hafa hvílt á okkur mörg undangengin á og umræðan snúist um? Það verður að viðurkennast að þessi árangur er verulegur og umfram þær væntingar sem maður hafði. Hvort þessi árangur hefði náðst með útboði er erfitt að fullyrða en ólíklegt miðað við þjónustustig ferjunnar undanfarin ár. Ég þekki það af eigin reynslu hve erfitt það er oft að semja við ríkisvaldið um aukna þjónustu sem og aukin fjárframlög.

Forræði samganga milli lands og Eyja hefur verið hjá ríkisvaldinu og bæjaryfirvöld hafa um langt skeið haft þá einu aðkomu að vera þrýstihópur. Með þessari niðurstöðu eru bæjaryfirvöld algerlega komin með forræði samganga milli lands og Eyja og er það nokkuð sem við Vestmannaeyingar hljótum að fagna. Mér sýnist að stærstu þættirnir sem vigta í þessari niðurstöðu eru annars vegar sá stýrihópur sem bæjaryfirvöld settu saman og hins vegar sá samtakamáttur sem bæjarstjórn hefur sýnt í þessu sennilega stærsta verkefni undangenginna ára. Þar eiga hrós skilið meiri- og minnihuti bæjarstjórnar og það eru vinnubrögð sem þessi sem við bæjarbúar köllum eftir, samfélaginu til hagsbóta. Vonandi eigum við von á slíkum vinnubrögðum hjá nýrri bæjarstjórn sem tekur við eftir komandi sveitarstjórnarkosninginar. Sameinuð náum við árangri en sundrung og klofningur er ávísun á vandræði sem við því miður þekkjum frá fyrri tíð.

Ég fagna þessari niðurstöðu og munum að það er leyfilegt að skipta um skoðun í þessu máli, sérstaklega þegar það liggur fyrir hve mikill árangur hefur nást. Segjandi það þá tel ég núverandi rekstraraðila hafa staðið sig mjög vel að uppfylla þann samning sem nú er unnið eftir. Það má svo alltaf velta því fyrir sér hvort forsendur hafi verið fyrir hendi að bæta við ferðum á markaðslegum forsendum. Það er nokkuð sem er rekstraraðilans að ákveða og það er einmitt mismunurinn á forsendum rekstrarformsins sem verið hefur og mun taka við. Til þessa tíma er verið að inna af hendi þjónustu skv. samningi en um leið að fjárhagslega sé reksturinn réttu megin við strikið. Við það hef ég ekki athugasemdir, en hins vegar verður nú breyting á þegar reksturinn byggist meira á forsendum grunnþjónustu og við að upplifa meira en áður viðurkenningu á þjóðvegi okkar.

Ég hvet bæjarbúa til að sameinast um þessa niðurstöðu eða a.m.k. að kynna sér vel það sem samningsdrögin innihalda.  Við þurfum að sýna það út á við að við Eyjamenn stöndum saman og kunnum að meta það sem ríkið er að treysta okkur fyrir.  Það skiptir einnig máli að loksins berast jákvæðari fréttir af samgöngum hér á milli, sérstaklega varðandi þá þætti sem við getum haft áhrif á.

Horfum núna fram á veginn og fögnum þeirri stöðu sem er að skapast fyrir fyrirtækin í bænum, bæði fyrir sjávarútveginn og afleidd fyrirtæki, sem og fyrir ferðaþjónustuna sem þarf betri skilyrði til að vaxa og dafna. Þetta eru vonandi einnig jákvæðar fréttir fyrir búsetu og fólksfjölgun á Eyjunni fögru, og svo berum við þá von í brjósti að samhliða þessu náist betri árangur við útfærslu Landeyjahafnar.

Grípum tækifærin og höldum áfram að vinna saman að því að skapa samfélag sem við getum verið stolt af. Jákvæðni er það sem við þurfum fyrir samfélagið okkar og munum að það kostar alltaf meiri vinnu að hafa lífið skemmtilegt. Svo er það ekki oft sem bæjarstjórn er óskað til hamingju, en það á  sannarlega við nú.

Með vinsemd, virðingu og bjartsýni fyrir Eyjarnar okkar,

Ingi Sigurðsson

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu.