Eyjar.net birtir gögn úr minnisblöðum um rekstur nýs Herjólfs

Óvissan áfram til staðar þrátt fyrir nýja ferju

9.Maí'18 | 06:59
herj_nyr_cr_sa_c

Ný Vestmannaeyjaferja á að koma í haust til landsins. Mynd/Crist S.A

Eyjar.net hefur undir höndum upplýsingar um samningaviðræður Vestmannaeyjabæjar um rekstur nýrrar ferju og eru gögnin umfangsmikil. Það vekur athygli að í minnisblöðum er töluvert rætt um áhættu og óvissu.

Mikil óvissa hefur ríkt og mun ríkja um tíðni siglinga Herjólfs í Landeyjahöfn yfir vetrartímann og verður engin breyting þar á með nýsmíðinni

Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 9. mars sl. segir:

,,Vissulega eru til staðar óvissuþættir um rekstur nýsmíðinnar, en fæstir þeirra lúta að nýsmíðinni sjálfri og eru flestir veigamestu óvissuþættirnir þættir sem eigandi skipsins þarf sjálfur að leysa sem fyrst og eru ekki háð afhendingu nýsmíðinnar s.s. mönnun skipsins, tímasetningar hleðslustöðva, raforkuverð, o.s.frv. Hafa skal í huga að í núverandi rekstri og fyrri útboðum á rekstri HERJÓLFS eru veiga miklir óvissuþættir s.s. hversu oft er fært til Landeyjahafnar.‘‘

,,Áður en minnst er á rekstrarformin fjögur sem nefnd hafa verið, er ástæða til að árétta að alvöru kaupskipaútgerð getur áætlað með nægjanlegri nákvæmni útgerðarkostnað nýsmíðarinnar (að fenginni nákvæmari tæknilýsingu á skipakostinum) í áætlanasiglingum frá Vestmannaeyjum, svo framarlega sem siglingaáætlun, far- og farmgjöld, þjónustustig o.s.frv. séu skilgreind í útboðsgögnum rétt eins og gert hefur verið í útboðum ferja Vegagerðarinnar s.s. HERJÓLFI, SÆFARA og SÆVARI. Áréttað skal að mikil óvissa hefur ríkt og mun ríkja um tíðni siglinga HERJÓLFS í Landeyjahöfn yfir vetrartímann og verður engin breyting þar á með nýsmíðinni og hver tíðnin verður frá ári til árs mun ætíð sveiflast. Til viðbótar fyrrnefndu þurfa að koma dagsetningar um hvernær hleðslustöðvar verða tilbúnar og hvert verður raforkuverðið. Ekkert er því til fyrirstöðu að yfirtaka skipsins í skipasmíðastöð og heimsigling skipsins séu innifaldar í útboði. Slík áætlanagerð og tilboð eru tíð verkefni kaupskipaútgerðanna sem reka eigin skip, skip í tíma- og þurrleigum sem og ferðaforsendum (voyage charters) o.s.frv. Ef vilji stjórnvalda er til að halda í gamla HERJÓLFI í einhvern tíma eftir komu nýsmíðinnar, þá er skynsamlegt að hafa gamla HERJÓLF í útboðspakkanum, því augljóslega eru stórfelld samlegðaráhrif í slíku, ef bæði skipin eiga að vera til staðar.‘‘

Fjórir valkostir eru nefndir:

  1. REKSTUR VEGAGERÐARINNAR FYRSTU 2 ÁRIN
  2. ÚTBOÐ TIL SKAMMS TÍMA S.S. 2 ÁRA
  3. ÚTBOÐ TIL 3+2 EÐA 4+1 ÁRA
  4. REKSTUR VESTMANNAEYJABÆJAR TIL SKEMMRI EÐA LENGRI TÍMA

Þar sem valkostur IV varð ofan á, er hér birt það sem þar segir. Í fjórða valkosti segir:

,,Rekstur Eimskips í s.n. opinni bók (Sipman98) í kjölfar opnunnar Landeyjahafnar vegna óvissu sem ríkti eftir opnun hafnarinnar, er tvímælalaust dýrasta tímabil HERJÓLFS frá upphafi. Einnig er óhjákvæmilegt annað en að minnast þess að rekstrarkostnaður HERJÓLFS lækkaði verulega þegar reksturinn var færður frá Herjólfi hf. í núverandi tilhögun opinna útboða og rekstrar og þurrleigusamninga. Vestmannaeyjabær fór fram á 885 millj. kr. rekstrarframlag á ári þegar þeir óskuðu eftir að yfirtaka rekstur nýs Herjólfs og til viðbótar í samningsdrögum að Vegagerðin sæi um viðhald á nýjum Herjólfi og einnig að það væri á ábyrgð Vegagerðarinnar að hafa gamla Herjólf alltaf tilbúinn og með haffæri. Þessi leið hefði verulega mikla kostnaðaraukningu í för með sér fyrir Vegagerðina og kostaði verulega fjármuni umfram leið III. Aðalkrafa Vestmannaeyjabæjar hefur verið fjölgun ferða, fyrst var krafan 8 ferðir á dag en er kominn niður í 6 ferðir núna. Þessa tíðni má skilgreina í útboðsgögnum og fjölga ferðum ef þurfa þykir. Aðal álagið er yfir sumartímann og þá er þörf á að hafa fleirri ferðir á dag. Síðasta sumar var ferðum fjölgað verulega en farþegum fjölgaði ekkert við það.‘‘

Í lokin mælir bréfritari með útboði.

Nýjungum fylgir óvissa

Í minnisblaði frá embættismönnum ráðuneytisins til ráðherra þann 12.3.2018 segir:

,,Nýi Herjólfur er að ýmsu leyti frábrugðinn þeim skipum sem fyrir eru hér á landi. Nýjungum fylgir óvissa um nokkra þætti viðkomandi rekstrinum. Óvissa er t.d. um afhendingu skipsins, hvernig það og búnaður þess reynist, hvernig það reynist við erfiðar aðstæður við Landeyjahöfn, hvernig dýpkun þar gengur og hve oft þarf að sigla til Þorlákshafnar bæði til lengri tíma litið og ekki síður í upphafi, hvernig uppsetning búnaðar í landi og rafvæðing skipsins gengur og hver orkukostnaðurinn verður, hver þróunin í farþegafjölda og flutningum verður, hver mönnunarþörfin er og hver þörfin fyrir varaskip er og hvernig það nýtist til annarra verkefna.‘‘

,,Óvissa/áhætta endurspeglast óhjákvæmilega í hærra tilboði og því hæfari sem bjóðandi er til að takast á við áhættu því lægra verður áhættuálag tilboðsins. Reynsla, þekking og aðstæður rekstraraðila ráða miklu um hæfni til þess að mæta áhættuþáttum. Hagkvæmast er því að fá rekstraraðila fyrir ferjuna sem hefur yfir þekkingu, mannskap, tengslaneti, þjónustuaðilum og búnaði að ráða til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum. Búast má við að kostnaðurinn vegna óvissu og áhættuþátta verði meiri og afleiðingar verri ef rekstraraðili er vanbúinn til að bregðast við óvæntum aðstæðum.‘‘

Undir mögulegum kostum og göllum á samning ríkisins við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar kemur eftirfarandi fram:

  • Góð þjónusta við Íbúa Vestmannaeyja
  • Kostnaðarsöm og óhagkvæm leið fyrir ríkið
  • Líkur á að áhætta af því að taka skipið í notkun, rekstri skipsins og þjónustu við íbúa liggi meira og minna hjá ríkinu.
  • Vestmannaeyjabær býr yfir lítilli eða engri rekstrarþekkingu á skipaútgerð.
  • Lítil þekking innan bæjarsjóðs til þess að vinna með óvissu- og áhættuþætti við að taka nýtt skip í notkun.

 

Ráðherra tilbúinn að gera ráð fyrir aukinni þjónustu við bæjarfélagið í forsendum útboðs

Í framhaldi af ofangreindum minnisblöðum var haldinn fundur 15. mars og í bréfi ráðherra til bæjarstjóra 13. apríl sl. kemur m.a. fram:

,,Eftir ítarlega skoðun á öllum forsendum málsins tók núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákvörðun um að ákjósanlegast væri að bjóða rekstur skipsins út. Lagði hann til að samningstíminn yrði tvö ár, m.a. með hliðsjón af þeirri óvissu sem fylgir því að taka í notkun nýja ferju í siglingum milli lands og Eyja. Var bæjarstjórn Vestmannaeyja tilkynnt  um þá ákvörðun á fundi 15. mars sl. Ráðherra lýsti því jafnframt yfir á fundinum að hann væri tilbúinn að gera ráð fyrir aukinni þjónustu við bæjarfélagið í forsendum útboðs.‘‘

Bæjarstjórn telur að vegna reynslu sinnar og þekkingar, væri sveitarfélagið vel í stakk búið til að sinna ferjurekstri á hagkvæmari hátt

,,Þrátt fyrir þessa niðurstöðu féllst ráðherra á að veita bæjarfélaginu tækifæri til að reka ferjuna. Ástæða þess var eindreginn vilji allra bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar í þá veru. Auk þess telur bæjarstjórnin að vegna reynslu sinnar og þekkingar, væri sveitarfélagið vel í stakk búið til að sinna ferjurekstri á hagkvæmari hátt og takast á við þá óvissu sem fylgir því að taka nýtt skip í notkun við þær aðstæður sem eru fyrir hendi við Landeyjahöfn.‘‘

Gert ráð fyrir að áhætta af rekstrinum sé í höndum bæjarfélagsins

,,Mikill undirbúningur liggur að baki þeirri tillögu sem lögð var fram á fundi ráðuneytis og Vegagerðarinnar með bæjarstjórninni 6. apríl sl. Þar er komið til móts við óskir Vestmannaeyjabæjar um að aukna þjónustu auk þess sem mið er tekið af þeirri áhættu sem fylgir því að taka nýtt skip í notkun. Þá er gert ráð fyrir því að gamli Herjólfur verði til leigu sem varaskip gegn eðlilegu leigugjaldi. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að áhætta af rekstrinum sé í höndum bæjarfélagsins eins og verið hefði í samningum við hvern annan rekstraraðila og tíðkast í sambærilegum samningum. Rétt er að taka fram að sveitarfélaginu er frjálst að bjóða upp á ríkari þjónustu en þá sem gert er ráð fyrir í samningunum enda rúmist hún innan samningsfjárhæðar.‘‘

Enn ekki búið að skrifa undir samninginn

Samkvæmt heimildum Eyjar.net er þess enn beðið að samningurinn milli Vestmannaeyjabæjar og ríkisins verði undirritaður, þrátt fyrir að nú séu tæpar tvær vikur síðan að bæjarstjórn samþykkti samninginn, eftir þrýsting frá ríkinu að klára málið sem fyrst eftir því sem segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Glæný fýlsegg

17.Maí'22

Er kominn með glæný fýlsegg. Upplýsingar í síma 8693499, Georg.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.