Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Trausti Hjaltason skrifa:

Mikill árangur í samgöngumálum

- gerist ekki af sjálfu sér heldur þarf þor og baráttuþrek líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt

27.Apríl'18 | 14:30
trausti_hildur

Trausti Hjaltason og Hildur Sólveig Sigurðardóttir. Samsett mynd.

Í dag var stórt skref stigið í samgöngumálum Eyjamanna.  Skrefi sem vart verður saman jafnað ef frá er talin tilkoma Landeyjahafnar.  Herjólfur verður nú loks rekinn af heimamönnum, fyrir heimamenn. 

Með því að hafa þor og dug til að axla ábyrgð á þessum mikilvæga rekstri færist Herjólfur til muna nær því áratuga markmiði Eyjamanna að hann sé séður sem þjóðvegur og þjónusta og gjaldskrá taki fyrst og fremst mið af því.

Fyrr í dag samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja samning milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs.  Undir forystu Sjálfstæðismanna samþykkti bæjarstjórn samninginn og mun þar með taka við rekstri Herjólfs eftir að nýtt skip hefur þjónustu eigi síðar en 8. október 2018.

Framfaraskrefið er sennileg stærra en nokkurn Eyjamann þorði að dreyma um.

Samningurinn sem er til tveggja ára felur í sér:

·         Rekstur Herjólfs verður í sjálfstæðu félagi í eigu Vestmannaeyjabæjar sem þýðir að hann verður algerlega og með öllu óháður öðrum rekstri sveitarfélagsins. 

·         Ferðum mun á samningstímanum fjölga um að lágmarki hátt í 600 á ári.  Gert er ráð fyrir áætlunarferðum frá 06.30 á daginn fram til miðnættis.

·         Skipið sigli alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum.

·         Afsláttur fyrir heimamenn fer úr 40% í 50% og verður veittur án þess að slíkt reyni á inneignakerfi líkt og nú er.  Gjaldskrá verður að öðru leyti nánast óbreytt frá því sem nú er.  Þar með talið að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.

·         Störfum um borð mun fjölga nokkuð frá því sem nú er enda gert ráð fyrir að skipið verði mun meira í notkun.  Gert er ráð fyrir þremur áhöfnum og tveimur vöktum hvern dag.

·         Herjólfur verður til staðar sem varaskip og nýttur ef þörf verður á.

·         Bókunarkerfi verður tekið til algerrar endurskoðunar.  Þar með talið er gert ráð fyrir að notendur geti bókað ferðir, greitt þær, breytt bókunum og sinnt öllum öðrum þáttum í gegnum símaforrit og/eða tölvu.

·         Upplýsingagjöf til notenda verður stóraukin og höfuðáhersla lögð á þjónustu við heimamenn og gesti þeirra.

·         Verði hagnaður af rekstri hins opinbera hlutafélags verður honum varið til að auka þjónustu og/eða lækka gjaldskrá.

 

Við fögnum þessu risa skrefi í samgöngumálum Vestmannaeyinga, sem vart verður saman jafnað.  Við vitum sem er að árangur sem þessi verður ekki til úr engu.  Á bak við hann er mikil vinna og ómælt þor.  Að okkar mati er öruggt að án forystu Sjálfstæðisflokksins og einlægs og góðs samstarfs við minnihluta E-lista hefði þessi árangur ekki náðst

Við undirrituð erum stolt af því að hafa nú hlotið traust Sjálfstæðismanna til að halda áfram þeim verkum sem þegar hafa verið mótuð og bæta um betur.  Gera lífið betra í Vestmannaeyjum.  Til þess þurfum við þó stuðning bæjarbúa í komandi kosningum.

 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Trausti Hjaltason

 

Höfundar eru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.