Leó Snær Sveinsson skrifar:

Með jákvæðni og gleðina að vopni

25.Apríl'18 | 18:24
leo_an_bakgr_cr_litil

Leó Snær Sveinsson

Pólitík hefur verið mér hugleikin frá því að ég var unglingur. Ég valdist alltaf til einhverskonar starfa í stjórnum frá því að ég var grunnskóla og þar til ég lauk háskólanámi. Það var svo um síðasta haust að ég fann eftirspurn fyrir því að fólk vildi sjá mig koma nálægt bæjarmálum í Vestmannaeyjum.

Á spjalli mínu við bæjarbúa tók ég eftir því að fólki fannst vanta meiri breidd í ákvarðanatökur og ólík sjónarmið fengju ekki brautargengi til umræðu hér í bæ. Þetta leiddi á endanum til þess að fámennur hópur fór að hittast til að ræða bæjarmálin. Hópurinn stækkaði stöðugt í hvert skipti sem hann hittist og á endanum var þessi hópur orðinn það stór að okkur fannst við þurfa grípa inn og leggja okkar að mörkum til að bæta okkar samfélag.

Þegar fólk úr ólíkum áttum, með breytilegar skoðanir hittist þá verða árekstrar og það þarf að gæta að því að stilla saman strengi til að hljómurinn verði góður. Þetta er eðlilegur hlutur þegar dugmikið fólk sest saman að borði til að mynda sér skoðun og farveg inn í framtíðina. Á tíu dögum tókst okkur að stofna bæjarmálasamtök, setja saman góða stjórn, skipa uppstillinganefnd og koma okkur saman um frábæran framboðslista. Þetta var ekki átakalaust, en allir fengu að láta sína skoðun í ljós og hlutirnir voru ræddir í þaula þar til hópurinn komst að sameiginlegri niðurstöðu.

Listinn var svo samþykktur á fjölmennum fundi í Akóges síðastliðinn sunnudag. Strax í kjölfarið var hafist handa við málefnavinnu og er hún nú í fullum gangi. Enda ekki til setunnar boðið því sveitastjórnarkosningar eru rétt handan við hornið. Mikið af afburðar fólki hefur boðið fram krafta sína til að styrkja stoðir okkar í málefnavinnu og öllu því skipulagi sem til þarf í þessari vegferð sem við erum nú komin í. Okkur hefur fylgt mikill meðbyr alveg frá upphafi og við höfum nýtt hann vel til að sigla áfram seglum þöndum með jákvæðni og gleðina að vopni.

Samfélagið okkar er gott samfélag og ágætlega rekið á mörgum sviðum. Það vantar þó upp á fjölbreytileikann í ákvörðunartökum, meira gegnsæi, opnari umræðu og lýðræðislegri hugsun. Hinn almenni bæjarbúi þarf að geta sagt sína skoðun óhræddur án þess að allt fari í bál og brand þegar áherslupunktar eru valdir um framtíð okkar. Hvort sem um er að ræða hvernig við ljúkum Herjólfsmálinu, Landeyjahöfn og samgöngumálum yfir höfuð, skólamálum og skipulagi. Heilbrigðismál eru okkur hugleikin, þar verðum við talsmenn bættrar þjónustu og þess að bráðveikir og slasaðir fái skjótari flutning ef flytja þarf sjúkling á LSH og svo mætti lengi telja. Það sem skiptir höfuð máli er að fá ólík sjónarmið á borðið, virða allar skoðanir, taka umræðuna og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Með þetta í veganesti ætlum við okkur að gera bæinn okkar betri.

Leó Snær Sveinsson

 

Höfundur er formaður bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...