Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar:

Miklar fjárfestingar, minni hagnaður og framlegð í fyrra

- samþykkt að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð

5.Apríl'18 | 20:42
vsv_st

Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar var haldinn í gær. Ljósmynd/TMS

Hagnaður VSV-samstæðunnar var 30% minni á árinu 2017 en á fyrra ári. Hann nam tæplega 8,7 milljónum evra í fyrra en var tæplega 12,5 milljónir evra árið 2016. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í gær.

Framlegð samstæðunnar (EBITDA)  minnkaði um 23% frá fyrra ári. Hún var 15,6 milljónir evra árið 2017 en 20,4 milljónir evra 2016. Eiginfjárhlutfall var 32% í lok árs 2017 og hafði lækkað um 1%.

Heildarskuldir og skuldbindingar jukust um 29% vegna fjárfestinga í varanlegum rekstrarfjármunum, kaupa á Útgerðarfélaginu Glófaxa og hækkunar handbærs fjár. Þetta kemur fram í umfjöllun um fundinn á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar voru miklar á árinu. Félagið hefur tekið í gagnið nýtt uppsjávarfrystihús, frystigeymslu, mjölhús og hráefnisgeyma á athafnasvæði sínu. Þá var nýr togari, Breki VE, eignfærður á árinu 2017. Skipið var smíðað í Kína og er einmitt núna á leið þaðan til Íslands, rétt ókomið til Sri Lanka að loknum fyrsta áfanga siglingar til heimahafnar.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem jafngildir 968 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Þetta er fimmta árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra.

Rekstrarskilyrðin voru erfið og fara versnandi 

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, fjallaði um reikninga félagsins á aðalfundinum:

„Afkoma félagsins var viðunandi 2017 í ljósi aðstæðna. Rekstrarskilyrðin voru erfið og fara versnandi, sem skýrist af háu gengi krónunnar og kostnaðarhækkunum, fyrst og fremst stórauknum launakostnaði í fyrra. Mér líst satt best að segja ekkert á blikuna. 

Umræðan í samfélaginu snýst hins vegar mest um stórfelldar launahækkanir á næstunni, sem hver hópurinn á fætur öðrum ætlar sér að sækja með góðu eða illu, og um aukna skattlagningu út og suður, helst á atvinnugreinar sem halda landsbyggðinni gangandi.  

Okkur hér í Eyjum hefur tekist með þróttmiklu atvinnulífi að koma í veg fyrir fækkun fólks. Sjálfsagt þykir að skattleggja sjávarútveginn enn frekar þótt við blasi að rekstrarskilyrði hans versni og það verulega. Slíkt dregur auðvitað úr krafti atvinnulífsins og veikir um leið samfélagið okkar.

Nú fáum við þær gleðifréttir að fólki í hinum dreifðu byggðum fjölgi á ný, þökk sé ekki síst ferðaþjónustunni, atvinnugrein sem víða er orðin burðarstoð í samfélögum. Ferðaþjónustan á samt í vök að verjast en þá dettur mönnum helst í hug að skattleggja hana sérstaklega og það sem fyrst. Það mun fjöldi fyrirtækja ekki þola, skattheimtan stuðlar að því að kæfa greinina.“

Brim greiddi atkvæði gegn ársreikningnum

Fjórir stjórnarmenn af fimm í Vinnslustöðinni staðfestu ársreikning félagsins og hann var samþykktur á aðalfundinum. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf. og stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, staðfesti ekki ársreikning og fulltrúar Brims, sem á tæplega þriðjung hlutafjár í Vinnslustöðinni, greiddu atkvæði gegn reikningnum. 

Guðmundur segist hafa óskað eftir skriflegum svörum frá endurskoðendum VSV um mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu félagsins en ekki fengið í tæka tíð til að geta samþykkt reikninginn.

Óháðir endurskoðendur Deloitte hf. árita samstæðureikning VSV án fyrirvara og segja í áritun sinni að hann gefi „glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2017, efnahag þess 31. desember 2017 og breytingu á handbæru fé á árinu 2017, í samræmi við lög um ársreikninga.“

Stjórn og varastjórn Vinnslustöðvarinnar voru endurkjörnar á aðalfundinum að undanskildu því að Magnús Helgi Árnason lögmaður var kjörinn í aðalstjórn í stað Guðmundar Kristjánssonar.  

Boðað til „fagnaðarfundar VSV“ í Eyjum í vor 

Guðmundur Örn Gunnarsson, formaður stjórnar, kom víða við í skýrslu stjórnarinnar á aðalfundi VSV. Hann sagði að rekstrarumhverfið hefði að „mörgu leyti verið mótdrægt“ í fyrra en hóf mál sitt á því að fjalla um fjárfestingar félagsins.

„Tímarnir eru breyttir víða, líka hér á okkar vettvangi Ég get ekki stillt mig um að rifja upp fyrri aðalfundi í félaginu þar sem ár eftir ár var kallað var eftir fjárfestingum til lands og sjávar, nýjum og endurnýjuðum húsum og nýjum eða nýrri skipum. Við framkvæmdastjórinn svöruðum því jafnan til að félagið yrði fyrst að greiða niður skuldir og styrkja betur fjárhagslega innviði sína áður en ráðist yrði í fjárfrekar en vissulega nauðsynlegar fjárfestingar. Að því kæmi síðar og jafnvel fyrr en síðar. 

Þannig standa þá leikar að nú á aðalfundi fyrir árið 2017 er glæsilegur togari, Breki VE, fyrsta skipið sem Vinnslustöðin lætur smíða fyrir sig frá upphafi, á heimleið frá Kína. Magnúsi Ríkarðssyni og áhöfn hans miðar vel og áætluð heimkoma er í fyrri hluta maímánaðar.

Hér heima, á athafnasvæði Vinnslustöðvarinnar, hefur aldeilis ekki verið tíðindalaust heldur. Risið er glæsilegt uppsjávarfrystihús með tilheyrandi tólum og tæknibúnaði og skammt þar frá eru nýir hráefnisgeymar og nýtt mjölhús. Síðast en ekki síst nefni ég frystigeymsluna á Eiði.

Samtals nema þessar fjárfestingar um átta milljörðum króna og breyta mörgu til til mikils batnaðar í starfsemi okkar og rekstri. Öll hafa mannvirkin verið tekin í gagnið en framkvæmdum er ekki lokið alls staðar, enda sannast þar sem fyrr að drjúg eru frágangsverkin. 

Við munum að sjálfsögðu taka vel á móti Breka og áhöfn hans í maí. Því hefur meira að segja verið hreyft að efna til sérstaks fagnaðarfundar Vinnslustöðvarinnar við höfnina og á athafnasvæðinu. Við viljum bjóða almenningi að skoða nýja skipið, frystigeymsluna, uppsjávarhúsið og mjölhúsið og gleðjast með okkur í tilefni þessara áfanga sem skipta svo miklu máli fyrir Vinnslustöðina og fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum.“

 

Nánar má lesa um aðalfund Vinnslustöðvarinnar hér.

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.