Bæjarstjórn hittir samgönguráðherra aftur á morgun:

Funda um rekstur Herjólfs

5.Apríl'18 | 17:46
baejarstjorn_18_ev

Í lyftunni á leið til ráðherra. Ljósmynd/aðsend

Elliði Vignisson, bæjarsjóri staðfesti við Eyjar.net að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra hafi boðað bæjarstjórn Vestmannaeyja á sinn fund á morgun. Fundarefnið er rekstur Herjólfs og aðkoma heimamanna að þessum mikilvæga rekstri.

„Í gær kom póstur frá ritara ráðherra þar sem við vorum boðuð á fund á morgun kl. 13.00 í ráðuneytinu. Fundarefnið er rekstur Herjólfs og aðkoma heimamanna að þessum mikilvæga rekstri. Enn vitum við ekki nákvæmlega hvaða gögn verða lögð fram á fundinum né hvaða leið verður farin. Við höldum ótrauð þeirri stefnu sem mörkuð var á borgarafundi þess efnis að reksturinn verði í höndum heimamanna hvernig svo sem það verður tryggt.  Við tökum mjög alvarlega þeirri staðreynd að í nýrri þarfagreiningu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, sem byggði á viðtölum við tugi Eyjamanna, kom fram að engin sem rætt var við var ánægður með núverandi fyrirkomulag. Ekki einn einasti. Á sama hátt gerum við ráð fyrir að ráðherra sjálfur hafi sömu skoðun nú og hann setti fram í aðdraganda seinustu kosninga þess eðlis að heimamenn ættu sjálfir að bera ábyrgð á þessum mikilvæga rekstri.” segir Elliði.

Sama hver rekur skipið þá þarf allt jafn margt fólk í vinnu

Hann segir það afar vont fyrir alla þessa umræðu hvað hún hefur haft tilhneigingu til að verða lítt málefnaleg. „Málum hefur jafnvel verið stillt upp sem baráttu Eimskips gegn Vestmanneyjabæ og bæjarstjórn. Jafnvel hefur svo langt verið gengið að kenna bæjarstjórn um uppsagnir á starfsmönnum Eimskips.  Auðvitað er allt slíkt tal fráleitt og ekki sæmandi. Svo mikið er að minnsta kosti víst að bæði ég og aðrir bæjarfulltrúar berum ekkert nema hlýhug til Eimskips og þess góða starfsfólks sem þar hefur starfað, oft við erfiðar aðstæður. Við höfum allan skilning á því að óvissan er ömurleg og héldum satt að segja að lendingu væri náð með undirritun viljayfirlýsingar 26. oktober. í fyrra. Síðan þá höfum við gert allt sem okkur hefur verið mögulegt til að reyna að ljúka þessum máli. Hvað uppsagnir varðar þá getum við bæjarfulltrúar ekki haft neina sérstaka skoðun á starfsmannamálum fyrirtækja eins og Eimskips en bendum eingöngu á að sama hver rekur skipið þá þarf allt jafn margt fólk í vinnu.”

Viljum að Herjólfur verði skilgreindur sem þjóðvegur

Þá segir Elliði það sanngjarnt og eðlilegt að spurt sé hversvegna Vestmannaeyjabær sé að standa í þessari vinnu hvað samgöngur varðar enda málið alfarið á ábyrgð ríkisins.  „Því er til að svara að við erum mjög óánægð með stöðu mála og viljum með aðkomu að rekstrinum tryggja að eingöngu hagsmunir samfélagsins verði ráðandi við rekstrarákvarðanir á meðan þjónusta nýs skips verður mótuð. Að það verði hætt að telja ferðir og fagna einhverjum ferðum til og frá eins og við erum búin að gera of lengi.  Við viljum að Herjólfur verði skilgreindur sem þjóðvegur og verð og þjónusta taki mið af því. Við erum sammála hinum fjölmenna borgarafundi og höfum þá trú að með beinni aðkomu heimamanna að stjórn þessarar mikilvægu samgönguleiðar verði hægt að þjónusta bæjarbúa betur.  Það er markmiðið, og ekkert annað.” segir bæjarstjóri að endingu.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

15.Janúar'18

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Glæný fýlsegg

17.Maí'22

Er kominn með glæný fýlsegg. Upplýsingar í síma 8693499, Georg.