Vegagerðin:

Skoða að sækja bætur vegna afleysingakostnaðar við Herjólf

- afhenda á nýju ferjuna eigi síðar en 22. ágúst 2018. - Kostnaður við leigu Bodö var u.þ.b. 80 millj. kr.

27.Mars'18 | 06:54
herj_hofn_eyjar

Herjólfur. Ljósmynd/TMS

Svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um Vestmannaeyjaferju er nú fram komið. Eins og Eyjar.net greindi frá í síðasta mánuði lagði Ásmundur fram fyrirspurn í 9 liðum.

Eyjar.net birtir hér spurningar Ásmundar og svör Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra.

1.      Hvernig sundurliðast 400 millj. kr. framlag sem veitt var á fjáraukalögum 2017 til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna slipptöku Herjólfs og leigu á ferju á meðan á viðgerð stóð? Hver er rökstuðningur fyrir hverjum lið? 
   

Í samgönguáætlun 2015–2018 var gert ráð fyrir slipptöku Herjólfs og gert ráð fyrir 79 millj. kr. kostnaði vegna þess á árinu 2017. Í fjárlögum ársins 2017 var hins vegar ekki veitt fjárveiting fyrir kostnaði vegna slipptöku sem var óhjákvæmileg.    

Herjólfur var lengur í slipp í Danmörku í maí árið 2017 en áætlað var sem leiddi til útgjaldaaukningar. Orsökin var að óvænt kom í ljós bilun í niðurfærslugír. Ekki fengust varahlutir til viðgerðar og var því ákveðið að sérsmíða varahluti og fresta viðgerð fram í september árið 2017 þegar áætlað var að varahlutir yrðu tilbúnir samkvæmt samningi. Samkvæmt samningi um rekstur Herjólfs milli Vegagerðarinnar og Eimskips ber Vegagerðinni að útvega Eimskipi annað hentugt skip þegar taka þarf Herjólf í slipp sem og vegna tjóna, viðhalds og annarra sambærilegra atvika. Í samræmi við það leigði Vegagerðin norsku ferjuna Röst í september til að leysa Herjólf af meðan á umræddum viðgerðum stæði. Heildarkostnaður Vegagerðarinnar vegna leigunnar á Röst var u.þ.b. 60 millj. kr.    

Varahlutir bárust ekki á tilsettum tíma vegna vanefnda samningsaðila Eimskips og urðu því útgjöld Vegagerðarinnar vegna afleysingaskips enn meiri en áætlað hafði verið. Eimskip ber ábyrgð á atvikum sem þessum og í ljósi þess athugar Vegagerðin nú að sækja bætur til félagsins vegna afleysingakostnaðar við Herjólf.

Viðgerð á niðurfærslugír Herjólfs fór síðan fram í janúar árið 2018 og var afleysingaskip, ferjan Bodö, leigt á meðan. Kostnaður við leigu Bodö var u.þ.b. 80 millj. kr.

Hluti af fjárveitingunni rann síðan til þess að greiða niður halla á liðnum „Styrkir til ferja og sérleyfishafa“, sem hefur verið viðvarandi frá árinu 2011. Hallinn er tilkominn vegna fyrri slipptöku Herjólfs og kostnaðar vegna verðbótaákvæða á gildandi rekstrarsamninga en fjárlagaliðurinn var ekki verðbættur þessi ár.

Sundurliðun á 400 millj. kr. framlagi á fjáraukalögum 2017 má sjá í eftirfarandi töflu. 
 

Tafla 1.
Leiga á Baldri vegna slipptöku Herjólfs í maí árið 2017 68 millj. kr.
Leiga á skipi haustið 2017 60 millj. kr.
Áætlaður kostnaður vegna leigu á skipi í janú­ar árið 2018 80 millj. kr.
Verðbæt­ur á samn­inga, fyrri slipp­taka o.fl. 192 millj. kr.
Alls 400 millj. kr.


     2.      Hve háa fjárhæð mun ríkissjóður annars vegar og leigutaki hins vegar greiða vegna viðgerða skipsins þar til það hefur áætlunarferðir að nýju að lokinni viðgerð?

Herjólfur er leigður til Eimskips á þurrleigu og samkvæmt ákvæðum þurrleigusamningsins ber Eimskip alla ábyrgð og kostnað af viðhaldi og viðgerðum skipsins á leigutímanum. Vegagerðin greiðir því ekkert fyrir nýlokna viðgerð á Herjólfi. Kostnaður Eimskips vegna viðgerðarinnar á skipinu liggur ekki enn fyrir. 

     3.      Hve háar fjárhæðir hefur annars vegar ríkissjóður og hins vegar leigutaki Herjólfs greitt vegna slipptöku og viðhalds skipsins árlega sl. fjögur ár og hvernig sundurliðast þær?    

Vegagerðin hefur borið eftirfarandi kostnað af viðhaldi, viðgerðum og endurbótum Herjólfs undanfarin fjögur ár: 
 

Tafla 2.
2017 0 kr.
2016 0 kr.
2015 0 kr.
2014 96 millj. kr. á þáver­andi gengi


Kröfur Evrópusambandsins um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum eiga við um Herjólf. Eftir að Herjólfur var tekinn í slipp árið 2015 kom í ljós að gera þyrfti breytingar á skipinu þannig að það uppfyllti kröfur um a.m.k. eins hólfs lekastöðugleika að viðbættum kröfum Stokkhólms-samþykktarinnar um sjó á dekki í löskuðu ástandi. Þessar kröfur þurfti að uppfylla ekki síðar en 1. október 2015. Það var nauðsynlegt til að skipið gæti þjónað á hafsvæðum B, þ.e. á leiðinni milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og á leiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar frá 1. október til 30. apríl. Árið 2014 var skipið tekið í slipp í Svíþjóð og sett var upp „flóðhlið“ á ekjudekki Herjólfs til að uppfylla umræddar kröfur. Vegagerðin lét einnig hallaprófa skipið í kjölfarið og útbúa ný stöðugleikagögn.    

Samtímis voru gerðar nokkrar breytingar á skrokki Herjólfs í samræmi við meðmæli smíðanefndar nýrrar Vestmannaeyjaferju. Kostnaður Vegagerðarinnar við endurbætur skipsins sundurliðast þannig: 
     a.      470.630 norskar krónur: lekastöðugleikaútreikningar, hönnun flóðhliðs, hallaprófun, ný stöðugleikagögn o.s.frv., Polarkonsult AS. 
     b.      218.000 evrur + 9.410 evrur: kaup á flóðhliði frá MacGregor í Svíþjóð/Króatíu. 
     c.      1.425.450 sænskar krónur: uppsetning á flóðhliði og búnaði þess ásamt afleiddum breytingum á stálvirki, röra- og raflögnum o.s.frv., Öresund DryDocks AB. 
     d.      82.108 sænskar krónur: aðstoð við hallaprófun, Öresund DryDocks AB. 
     e.      470.200 sænskar krónur: breytingar á skrokki undir sjólínu að beiðni smíðanefndar, Öresund DryDocks AB. 
     f.      Þátttaka Vegagerðarinnar í slippkostnaði, olíukostnaði við siglingu til og frá viðgerðastöð, ráðgjöf og stjórnun, áætlað 19 millj. kr. 
    Allt viðhald og viðgerðir á umræddum fjórum árum, þar með talin taka skipsins í slipp í Svíþjóð árið 2014, er samkvæmt leigusamningi á ábyrgð og kostnað leigutaka, Eimskips. Vegagerðin hefur ekki upplýsingar um viðhaldskostnað leigutaka vegna Herjólfs. Samkvæmt samningnum útvegar Vegagerðin leiguskip þegar Herjólfur fer í slipp og eru leigugreiðslur vegna leigu á Baldri við tvær síðustu slipptökur Herjólfs á verðlagi viðkomandi árs eftirfarandi: 
 

Tafla 3.
2014 58,2 millj. kr.
2017 68,0 millj. kr.


     4.      Hve háa fjárhæð greiddi ríkissjóður til leigutaka árin 2016 og 2017 umfram samþykkt framlög á fjárlögum til reksturs ferjunnar? 
 

Tafla 4.
  2016 2017
Grunnstyrk­ur til Eim­skips 741,2 millj. kr. 787,5 millj. kr.
Ann­ar kostnaður vegna Herjólfs 38,5 millj. kr. 167 millj. kr.
Alls vegna Herjólfs 779,7 millj. kr. 954,5 millj. kr.
Skort­ur á fjár­veit­ingu – ferjuliður í heild 155,6 millj. kr. 1,9 millj. kr.
Halli vegna Herjólfs 96,5 millj. kr. 1,2 millj. kr.


Halli var á viðfanginu „Styrkir til ferja“ bæði árin 2016 og 2017 en hlutdeild reksturs Herjólfs er metinn vera um 62% af heildarfjárhæð styrkja til ferja. Kostnaður við leigu skips í janúar 2017 vegna viðgerðar á Herjólfi verður bókaður á árinu 2018 og er ekki í tölum ársins 2017. 

     5.      Hvers vegna hefur hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju verið breytt á smíðatímanum þrátt fyrir að fullyrt hafi verið að nýjustu breytingar takmörkuðu hæfni skipsins til siglinga í Landeyjahöfn? Hver greiðir fyrir breytingar á skipinu?    

Gerðar voru breytingar á skipinu vegna þess að skipið reyndist þyngra en smíðalýsing gerði kröfu um. Ferjan var lengd til að tryggja að djúprista hennar héldist innan samningsmarka. Stefni ferjunnar var breytt, m.a. til að minnka mótstöðu hennar í sjó. Með þessum breytingum eykst siglingahraði ferjunnar til samræmis við það sem samið var um. Kostnaður vegna þessara breytinga fellur á skipasmíðastöðina. Talið er að breytingin hafi ekki áhrif á hæfni ferjunnar til siglinga í Landeyjahöfn. 

     6.      Hvaða áhrif hefur aukinn fjöldi og þyngd rafgeyma á djúpristu og ganghraða ferjunnar sem verður að fullu rafdrifin og hver er kostnaðurinn vegna þessa?    

Áætlaður kostnaður við að breyta ferjunni úr tvinnferju í að geta verið að fullu rafdrifin er um 350 millj. kr. Við það bætist kostnaður í landi sem er metinn álíka hár. Heildarkostnaðurinn er því áætlaður um 700 millj. kr. Djúprista ferjunnar eykst vegna fleiri rafgeyma. Á móti kemur að skipið þarf að bera mun minna af brennsluolíu. Þannig verður djúprista skipsins svipuð. Áætlað er að skipið risti um 4 sm meira vegna rafgeymanna sé eingöngu litið til þeirra. 

     7.      Hverjar eru aðrar helstu breytingar sem gerðar hafa verið á hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju frá því að smíði skipsins var boðin út, hverjar eru ástæður hverrar breytingar og hvað kostar hver breyting?    

Kostnaður við að breyta ferjunni úr tvinnferju í tvinntengil, þ.e. „plug-in-ferju“, er um 2,7 millj. evra, eða 338 millj. kr. Kostnaður vegna annarra aukaverka er 163 þúsundir evra eða um 20 millj. kr. Heildarkostnaður vegna breytinga til dagsins í dag er því um 2,76 millj. evra eða um 358 millj. kr. Þetta er sundurliðað nánar í eftirfarandi töflu. 
 

Tafla 5. Vestmannaeyjaferja – aukaverk (21. febrúar 2018) .

VO-
nr.

 

Dags. (samþykkt)

 

Lýsing
 
Upphæð
 
Staða
01 25.5.2017 Raf­magns­skáp­ar og stjórn­kerfi fyr­ir raf­drifna ferju til að tryggja að unnt verði að breyta henni í raf­magns­ferju síðar. 218.218,00 € Samþ.
02 6.9.2017 Spil­búnaður end­ur­bætt­ur í samræmi við ósk­ir áhafn­ar o.fl. Bætt við spil­um, stjórn­búnaði og tog­bönd­um. 23.298,00 € Samþ.
03 31.8.2017 Hag­kvæmni­rannsókn fyr­ir væng á skut, hönn­un á væng og straum­fræðilík­an. Rannsókn til að draga úr hreyf­ingu ferju. 26.660,00 € Samþ.
04 24.1.2018 Stækka raf­hlöðukerfi um 2.300 kW og breyt­ing á DN­VGL-flokk­un í raf­drifna ferju. Gera ferju raf­magnsknúna og lækka þannig rekstr­ar­kostnað og gera hana um­hverf­is­væna. 2.482.785,75 € Samþ.
05 26.10.2017 Upp­taka á smíð ferj­unn­ar. Þriggja til fjög­urra mínútna mynd­band um smíði ferj­unn­ar. Heim­ild­ir. 6.896,00 € Samþ.
06 11.1.2018 Búnaði til að mæla hreyf­ingu ferj­unn­ar, djúpristu og halla bætt við. Upp­lýs­inga­gjöf til skip­stj. 70.212,53 € Samþ.
07 11.1.2018 Breyt­ing­ar á stjórn­búnaði skrúfu í kjölf­ar próf­ana á stjórn­búnaði. Auðvelda stýr­ingu skrúfu. 1.666,00 € Samþ.
08 25.1.2018 Breyt­ing á spennu­breyti fyr­ir landraf­magn. Mistök í verklýs­ingu. 1.720,00 € Samþ.
09 8.2.2018 Hvíld­ar­stofu frammi í skipt í tvennt. Gef­ur mögu­leika á að bæta við koj­um. 21.715,00 € Samþ.
10 11.12.2017 Qua­stor-hug­búnaður vegna viðhalds­kerf­is. Mál rekstr­araðilans. Upp­hæð 11.765 €.   Hafnað
11 4.1.2018 Breyt­ing á DGPS-búnaði svo að hægt sé að taka við RTK-merki úr landi frá núver­andi búnaði. Staðsetn­ing ferju. Ætl­un­in var að nota búnaðinn úr Herjólfi. 11.104,75 € Samþ.
12 8.12.2017 Stefni skips breytt og ferja lengd um u.þ.b. 1,8 m. Draga úr djúpristu og auka sigl­inga­hraða. - € Samþ.
   
 
Samtals:
2.864.276,03 €   
Heild­ar­kostnaður var 358 millj. kr., þar af vegna raf­magns­ferju 338 millj. kr., og því annað 20 millj. kr.
Ath.: Liðir 01 og 04 eru vegna breyt­inga á ferju í raf­magns­ferju, alls 2.701.004 € , um 338 millj. kr.
Heimild: Vegagerðin (unnið af SÁG/SV)


     8.      Hve mikið mun árlegur rekstrarkostnaður skipsins aukast eða minnka vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á hönnun og vélum þess?    

Almennur rekstrarkostnaður mun lækka verulega við að breyta ferjunni úr olíuknúnu skipi í rafmagnsknúið skip. Ferjan getur aðeins siglt á rafmagni milli Vestmannaeyja til Landeyjahafnar og verður að mestu knúin olíu ef sigla þarf til Þorlákshafnar. Miðað við verðmun á olíu og rafmagni í dag má ætla að árlegur rekstrarkostnaður lækki um 60 millj. kr. Þá þarf að endurnýja hleðslubúnað á 6–10 ára fresti. Á móti kemur að slit véla verður minna og notkun smurolíu verður minni. Að teknu tilliti til þessa er það mat Vegagerðarinnar að árlegur sparnaður gæti verið um 40 millj. kr. á ári. 

     9.      Hvað nema tafagreiðslur vegna seinkunar á afhendingu skipsins hárri fjárhæð samkvæmt útboðsgögnum og verksamningi um skipið miðað við nýjustu afhendingaráætlun?    

Afhenda á ferjuna eigi síðar en 22. ágúst 2018. Fyrstu 30 dagana verður dagsektum ekki beitt. Dagsektir reiknast fyrst frá 21. september 2018. Þær yrðu 25 þúsund evrur fyrir hvern dag fyrstu 90 dagana. Eftir það yrðu dagsektirnar 15 þúsund evrur á dag. Samkvæmt samningi er þak á dagsektum 2.850.000 evrur.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.