Þorlákshafnarsiglingar:

Ráðherra jákvæður fyrir að lækka gjaldskrá Herjólfs

- vonast til að geta tekið slíka ákvörðun fyrr en seinna

19.Febrúar'18 | 17:20
IMG_7084

Ekki er nóg með að siglingatíminn sexfaldist í vetrarbrælnunum sem ríkja, heldur þrefaldast verðið líka, þ.e. fargjaldið. Ljósmynd/TMS

Páll Magnússon þingmaður Suðurkjördæmis spurði Sigurð Inga Jóhannsson, samgönguráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag um það réttlætismál að fargjöld Herjólfs hækki ekki þegar siglt er til Þorlákshafnar.

„Ég held að ekki þurfi að fjölyrða í þessum sal við þingmenn um þær hremmingar sem Eyjamenn hafa gengið í gegnum í samgöngumálum síðustu misserin, reyndar síðustu árin, ekki síst hvernig þetta hefur artað sig með Landeyjahöfn og hversu vangæf hún er fyrir sandburði og ölduhæð. Það stendur þó vonandi að einhverju leyti til bóta með nýrri ferju seinna á árinu.

Þetta eru náttúruleg fyrirbrigði sem við höfum ekki mikið yfir að segja, en einn þátturinn í þessu máli, sem er þó á okkar valdi og við getum lagað strax, er í raun og veru sú tvöfalda refsing sem Eyjamönnum er gerð þegar er ekki er siglt í Landeyjahöfn. Ekki er nóg með að siglingatíminn sexfaldist í vetrarbrælnunum sem ríkja, heldur þrefaldast verðið líka, þ.e. fargjaldið. Það er tvöfaldur ami sem menn hafa af þessu. Þetta er auðvitað mikið réttlætismál að laga. Um er að ræða hluta af þjóðvegakerfinu og að öðru leyti búa menn ekki við það að verðið í Hvalfjarðargöngin t.d. hækki eftir því sem færðin spillist beggja megin við þau. Auðvitað er ekkert réttlæti í þessu.” sagði Páll

Þá spurði Páll hvort ekki væri tími til kominn að leiðrétta þó ekki væri nema þennan litla part af þessu óréttlæti sem menn búa við að þessu leyti? „Það hefur verið talað um það að með nýrri ferju ætti þetta að lagast, þ.e. að það séu sömu fargjöld hvort sem siglt er í Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Er eftir nokkru að bíða með þetta? Er ekki hægt að laga þetta núna?”

Verið að greina kostnaðinn

Sigurður Ingi svaraði því til að það hafi einmitt verið keppikefli að reyna að ljúka því að fá nýja ferju og hún sé búin eins og til var ætlast. ,,Eitt af því sem rak á fjörur mínar þegar ég kom inn í ráðuneytið, reyndar ekki fyrr en í janúar, að það hefur einhverra hluta vegna fyrst og fremst verið reiknað með svokallaðri tvinnferju, að hún yrði ekki rafmagnsferja að öllu leyti, gæti ekki gengið fyrir rafmagni. Mér fannst mikilvægt að koma því á hreint af því að við viljum tryggja það að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum og eitt af tækifærunum í því er auðvitað orkuskipti í samgöngum, að ferjur verði rafmagnsknúnar.

Annað sem við höfum verið að skoða er ýmislegt sem tengist því hvernig íbúarnir geta nýtt ferjuna og skipulag innan þess tíma en alltaf stendur þetta út af sem þingmaðurinn kom inn á, menn panta og ætla sér að fara í gegnum Landeyjahöfn en svo breytist veðrið og þá þurfa menn að fara í Þorlákshöfn með tilheyrandi lengri tíma og kostnaði. Þess vegna hefur það verið í undirbúningi varðandi nýja ferju að gjaldið verði það sama. Þessa hugmynd um hvort ekki sé hægt að flýta þeirri ákvörðun hef ég verið að skoða í ráðuneytinu, m.a. vegna ábendinga frá þingmanninum, og ég er mjög jákvæður gagnvart því að gera það. Við höfum verið að greina kostnaðinn við það, hann er auðvitað óviss vegna þess að það er veðrið sem ræður þar ríkjum. Annar óvissuþáttur í þessu er að við vitum ekki á þessum tímapunkti hvenær ferjan kemur í haust en ég er mjög jákvæður fyrir því að skoða það hvort að við getum ekki gert einhvern skurk í þessu núna á næstu mánuðum, þ.e. áður en nýja ferjan kemur og sumartraffíkin hefst.” sagði Sigurður Ingi.

Fjölskylda í Eyjum þurfi að kosta til 30.000–60.000 kr. á mánuði í fargjöld

Páll Magnússon tók þá aftur til máls. ,,Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því hvers lags gjald leggst þarna á, hvers lags skattur er lagður á þá sem þarna búa. Lauslega má áætla að venjuleg fjölskylda í Vestmannaeyjum þurfi að kosta til 30.000–60.000 kr. á mánuði í fargjöld með Herjólfi með afslætti þegar búið er að taka 40% afslátt af því. Það þýðir að sú fjölskylda þarf að hafa 40.000–100.000 kr. meira í laun á mánuði en annað fólk á Íslandi bara til að standa jafnfætis að þessu leyti. Það er bara Herjólfsskatturinn. Þess vegna vil ég knýja á um það við samgönguráðherra að hann gefi okkur aðeins skýrari svör um hvort þetta verði ekki lagað núna í fyrirsjáanlegri framtíð.”

Hversu óréttlátt það er að borga þrisvar sinnum hærra gjald, fyrir utan tímalengdina og óþægindin

Í seinna svari ráðherra segir hann þetta mál í mjög jákvæðri skoðun. ,,Við erum að greina kostnaðinn af þessu, hvað þetta þýðir. Síðastliðin tvö ár hefur hann sennilega verið tæpar 40 milljónir, þ.e. í mars og apríl. Ef við værum sannfærðir um að skipið kæmi í byrjun september væri þetta alveg vandalaust, við værum að fara inn í nýja tíma. En ég þyrfti að greina það aðeins betur áður en við tækjum slíka ákvörðun. En ég er mjög jákvæður á að gera þetta. Þetta er réttlætismál, ég tek undir með þingmanninum. Þetta er hluti af samskiptum mínum við Eyjamenn allt frá því að ég var kosinn á þing 2009, eðli máls samkvæmt hefur það staðið hæst upp úr þeim hversu óréttlátt það er að borga þrisvar sinnum hærra gjald, fyrir utan tímalengdina og óþægindin við að þurfa að sigla í Þorlákshöfn.

Ég er að skoða þetta með mjög jákvæðum hætti og vonast til að geta tekið slíka ákvörðun fyrr en seinna.” segir Sigurður Ingi að endingu.

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).