Ársskýrsla Slökkviliðs Vestmannaeyja

Tólf útköll á síðasta ári

- af þeim voru sjö metin alvarlegs eðlis og í forgangi F1 og F2

29.Janúar'18 | 07:21
slokkv_lid_1017

Slökkviliðið hér á vettvangi í einu af 12 útköllum ársins. Mynd/TMS

Ársskýrsla Slökkviliðs Vestmannaeyja 2017 var birt á dögunum. Þar segir að síðastliðið ár hafi sem betur fer frekar tíðindalítið hjá slökkviliðinu hvað útköll varðar.

Erum það enn undir meðaltali síðustu tíu ára sem telst vera jákvæð þróun en engu að síður hefur verið nóg að gera í öðrum verkum s.s. forvörnum, viðhaldi, námskeiðum, menntunar og búnaðarmálum, viðbraðgsáætlunum Almannavarna o.fl, segir í skýrslunni sem Friðrik Páll Arnfinnsson slökkviliðsstjóri skrifar. Þar segir enn fremur:

„Nú á haustdögum hófu 10 slökkviliðsmenn bóklegt fjarnám í Brunamálaskólanum þar sem þeir taka tvö framhaldsnámskeið til viðbótar við bóklega grunnnámið. Stefnt er að því að verkleg próf verði tekin í vor og þá verða allir liðsmenn komnir með fullgild réttindi. Vinna við gerð slökkviáætlana fyrir stærri áhættur í bæjarfélaginu hefur verið í gangi s.l. ár og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á árinu.

Undanfarin tvö ár hefur markvisst verið unnið að löngu tímabærri endurnýjun á ýmsum búnaði slökkviliðsins þar sem m.a. hefur verið lög áhersla á öryggisbúnað slökkviliðsmanna eins og galla, hjálma o.fl. Á síðasta ári var einnig fjárfest í tveimur IR-myndavélum(hitamyndavélum) sem auka öryggi og auðvelda alla vinnu í hita og reyk en við kaupin naut slökkviliðið góðvildar félaganna í Ufsaskalla sem komu færandi hendi og styrktu liðið um 300.00/kr til kaupanna.

Snemma á síðasta ári keyptum við litla og meðfærilega dælu sem hugsuð var sem fyrsta viðbragð ef við þyrftum að veita aðstoð vegna t.d. sjóleka um borð í skipum og bátum, innan hafnar og utan, eins og við höfum nokkrum sinnum lent í í gegnum tíðina og kom hún að góðum notum aðeins þremur mánuðum síðar þegar dæla þurfti sjó upp úr vélarrúmi Gullbergs VE þar sem það lá við bryggju í Friðarhöfn.

Síðastliðið haust var svo keypt ný og stærri búnaðar/dælukerra undir lausa dælu þar sem gamla kerran var orðin úr sér gengin og rúmaði engan veginn þann búnað sem þarf að fylgja dælunni. Auk þessa er búið að endurnýja ýmsan annan búnað s.s. björgunartæki fyrir reykkafara, ljós, handverkfæri o.fl. og frekari endurnýjun áformuð á komandi ári.

Uppbygging æfingarsvæðis slökkviliðsins og Isavia á Vestmannaeyjaflugvelli hélt áfram og erum við nú búnir að koma þar fyrir gömlum ammoníak tanki með krönum, lokum og rörum sem notaður er til æfinga á viðbragði vegna leka af hættulegum efnum. Stefnt er að áframhaldandi vinnu við uppbyggingu svæðisins á þessu ári.

Undanfarin fjögur ár hefur fjöldi útkalla hjá slökkviliðinu verið á undanhaldi og eru það jákvæðar fréttir, en á síðasta ári var heildarfjöldi útkalla frá Neyðarlínunni 12. Undirritaður vill, eins og áður, meina að þessa fækkun útkalla megi enn og aftur þakka öflugum forvörnum, betri búnaði og hugarfarsbreytingu almennings um mikilvægi þess að hafa eldvarnir í lagi.

Af þessum 12 útköllum voru sjö metin alvarlegs eðlis og í forgangi F1 og F2.
• Eldur/reykur 6
• Grunur um eld/skoðun 2
• Flugvél í neyð 2
• Vatnstjón/sjótjón 1
• Leki af hættulegu efni 1

Stærstu tjónin urðu annars vegar þegar sjóleki kom að Gullberg VE þann 16.04.2017 og svo þegar eldur kom upp í sorpeyðingarstöðinni þann 29.10.2017. Önnur eldútköll reyndust minniháttar eða óveruleg. Slökkviliðið var einnig í tvígang boðað út vegna flugvéla sem áttu í vandræðum en í báðum tilvikum gátu vélarnar lent vandræðalaust.

Í nóvember sl. heimsóttum við 3.bekk Hamarsskólans í tenglsum við árlega Eldvarnaviku Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem farið var yfir brunavarnir og eldhættur á heimilum, börnin frædd um eldvarnir og slökkvi- og björgunarbúnað og starfsemi slökkviliðsins. Í beinu framhaldi af því var svo farið á Víkina þar sem elstu leikskólabörnin fengu álíka kynningu á slökkviálfunum Loga og Glóð. Auk þessa voru haldnar æfingar og kynningar á eldvörnum hjá stofnunum og fyrirtækjum. Reglubundar æfingar hjá liðinu voru alls 27. á s.l. ári auk flugslysaæfingar Isavia og Almannavarna sem haldin var í apríl.

Eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnanna er einn af mikilvægustu þáttunum í starfi hvers slökkviliðs og er skoðunum jafnt og þétt að fjölga en heldur var minna um beiðnir frá sýslumanni og lögreglustjóra vegna tækifæris- og rekstrarleyfa en árið á undan en á síðasta ári voru samtals 67. formlegar aðgerðir hjá eldvarnaeftirlitinu.

Af þessum 67. aðgerðum voru.....
• Umsagnir(tækifæris og rekstrarleyfi) 34
• Skoðanir 33

Stórt og þýðingarmikið átak í eldvörunum stofnanna, fyrirtækja og heimila var tekið á haustdögum þegar Vestmannaeyjabær og Eldvarnabandalagið skrifuðu undir samkomulag um eflingu eldvarna í stofnunum bæjarins. Í framhaldinu fengu forstöðumenn og eldvarnafulltrúar fræðslu og hófst eiginleg framkvæmd verkefnisins 1.nóv 2017 og hefur gengið vel þann tíma sem það er búið að vera í gangi.

Slökkviliðið stendur líka alltaf öryggisvaktir þegar tankskip olíufélaganna losa bensínfarma í Vestmannaeyjum og voru alls 9. slíkar öryggisvaktir á síðasta ári.

Eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í eflingu slökkviliðsins í marga áratugi var tekið í jólamánuðinum þegar bæjarstjórn kynnti fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2018 og ákvað þar að veita fjármunum til kaupa á körfubifreið fyrir slökkviliðið sem og að hefja undirbúningsvinnu vegna nýrrar slökkvistöðvar en undirritaður hefur lagt mikla áherslu á að koma þessum löngu tímabæru málum í höfn. 

Vinna við að finna hentugan körfubíl hefur nú þegar staðið í nokkurn tíma og er nú á lokametrunum og í raun aðeins örfáir lausir endar sem ganga þarf frá áður en gengið verður frá kaupum ef allt gengur upp. Vinna við undirbúning á nýrri slökkvistöð er einnig hafin og er það von undirritaðs að henni megi ljúka sem allra fyrst svo koma megi mannskap og búnaði þ.m.t. nýjum körfubíl í nýtt, rúmbetra og hentugra húsnæði.

Þó enn séu mörg verk ókláruð þá hefur að sama skapi margt færst til betri vegar á sl. tveimur árum og miðað við gefin fyrirheit og stöðuna eins og hún er í dag þá getur undirritaður ekki annað en verið bjartsýnn á framhaldið og framtíðarhorfur slökkviliðsins.” segir Friðrik Páll, slökkviliðsstjóri.


 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).